Tjörnes er smár skagi á milli Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar. Kaupstaðurinn Húsavík stendur sunnarlega á nesinu. Úti fyrir Tjörnesi eru þrjár smáeyjar, Lundey er stærst þeirra, en hinar tvær heita Háey og Lágey.
Á vestan- og norðanverðu nesinu renna nokkur vatnsföll til sjávar en flest þeirra eru vatnslítil. Í fjörunni er mikill og stór steinn, sem borist hefur með hafís frá Grænlandi. Heitir hann Torfasteinn og er við hann tengd þjóðsaga.
Nyrst á Tjörnesi er jörðin Máná og úr landi þeirrar jarðar hafa verið byggð 2 nýbýli, Árholt og Mánárbakki. Á hinu síðarnefnda er veðurathugunarstöð og hefur verið frá því býlið byggðist 1963 en veðurathugunarstöðin var stofnsett á Máná 1956. Á Mánárbakka hefur einnig verið starfrækt rannsóknarstöð norðurljósa á vegum japanskra vísindamanna síðan 1984. Á Mánárbakka er einnig minjasafn þar sem finna má marga athyglisverða muni.