Á Norðurlandi er gríðarlega sterk hefð fyrir hrossarækt og hestamennsku. Skagafjörður hefur oft verið nefndur Mekka hestamennskunnar á Íslandi en í Húnavatnssýslum er einnig mikil hrossarækt enda eru þar víðáttumikil og grösug beitarlönd. Því er engin tilviljun að hvergi er betra úrval af hestaferðum um heillandi reiðleiðir en á Norðurlandi.
Við Mývatn eru í boði hestaferðir í óviðjafnanlegri náttúru sem hafa verið mjög vinsælar hjá erlendum gestum. Að fara á hestbak er frábær afþreying og þú upplifir náttúruna og menninguna mjög sterkt. Ótal ferðir, bæði styttri og lengri, eru í boði fyrir vana og óvana. Enginn ætti að ferðast um Ísland án þess að njóta gæða íslenska hestsins í hans náttúrulega umhverfi.