Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Ferðatillögur

ffm13.jpg
Ferðatillögur

Hér fyrir neðan getur þú skoðað tilbúnar ferðatillögur á Norðurlandi.

Ferðatillaga fuglar og dýr

Dagur 1: Vatnsnes

 

09:00 Selasetrið á Hvammstanga heimsótt en þar er sérstök fræðslusýning um seli og nánasta umhverfi þeirra. Þar má t.d. fræðast um lífshætti sela, líkamsbyggingu, kæpingu og fæðuöflun, selveiðar og nýtingu selaafurða í sögulegu samhengi og heyra þjóðsögur um seli.

10:00 Selasigling frá Hvammstanga er fullkomin leið til þess að skoða og sjá seli í þeirra náttúrulega umhverfi. Selasigling býður upp á frían aðgang að Selasetrinu ásamt leiðsögn fyrir sínar ferðir.

12:00 Hádegismatur á nýjum veitingastað sem staðsettur er á efri hæð Selasetursins. Betra útsýni fæst ekki þó víða væri leitað.

13:00-18:00 Deginum varið á Vatnsnesi þar sem víða eru mikil sellátur og fjölskrúðugt fuglalíf.

Stoppað verður við Hvítserk sem er einn sérstæðasti klettadrangurinn við Ísland en hann rís um 15 metra hár í flæðarborðinu við botn Húnafjarðar austanvert við Vatnsnes. Útsýnispallur er á svæðinu og hægt er að ganga niður í fjöruna við Hvítserk og að Sigríðarstaðaós sem er þar litlu sunnar. Á sandinum gegnt ósnum liggja ætíð tugir eða hundraðir sela sem spóka sig og fylgjast með mannlífinu á hinum bakka óssins. Það er gömul þjóðsaga að í fyrndinni hafi Hvítserkur verið tröll er bjó á Ströndum og hafi ætlað sér að brjóta niður kirkjuklukku við Þingeyraklaustur en orðið að steini þegar dagur rann. 

Borgarvirki skoðað en það er klettaborg sem stendur á ásnum milli Vesturhóps og Víðidals. Talið er að Borgarvirki sé gosstapi sem myndaðist við eldgos á hlýskeiði ísaldar og samkvæmt sögnum var það nýtt sem virki á þjóðveldisöld.

18:00 Endað á Sveitasetrinu á Gauksmýri þar sem boðið er upp á kvöldverð og gistingu. Í um 10 mínútna göngufjarlægð frá setrinu er tjörn þar sem fjöldinn allur af fuglum verpir og þar er aðgengilegur göngustígur sem liggur að fuglaskoðunarhúsi. Að staðaldri yfir sumartímann eru þarna 15-20 fuglategundir og má þar helst nefna; óðinshana, álftarhjón, lómapar, skúfendur, jaðrakan, stokkendur, rauðhöfðaendur og urtendur, helsta skrautfjöðrin er þó flórgoðinn.

Kvöldverður á Gauksmýri, þar er salurinn þakinn stórum gluggum og útsýnið stórkostlegt; Gauksmýrartjörn, mýrlendi og fjalllendi.

Dagur 2: Skagafjörður

 

8:30 Ekið frá Gauksmýri í Skagafjörð

11:00 – 15:00  Val um að fara í ferð út í Drangey eða í ferð um helstu fuglaskoðunarsvæði fjarðarins.

Skagafjörður er þekktur fyrir mikið fuglalíf en þar eru t.d. aðalhvíldarstöðvar helsingja á leið til og frá Grænlandi.  Við árósa Héraðsvatna, nærri Sauðárkróki, er tilvalið að skoða ýmsar fuglategundir og eru þar m.a. flestar andategundir landsins, margar tegundir vaðfugla, s.s. lóuþræll, spói og jaðrakan. 

Hefðbundin Drangeyjarferð tekur um 4 klst. með siglingu, göngu og fuglaskoðun og oft sjást selir og hvalir á siglingunni. Fuglalíf í Drangey er mjög fjölbreytt en eyjan iðar af bjargfugli og a.m.k tvö fálkapör verpa þar líka. Mest ber á svartfuglstegundum eins og stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því. Lundinn grefur sér holur á brúnunum, rita og fýll verpa í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar griðland.

Við kaffihúsið og laugarnar á Reykjum leika óðinshaninn og krían listir sínar en æðarkollan kúrir í höfninni.

15:00 – 18:00 Í lok dags er hægt að láta þreytuna líða úr sér á kaffihúsinu og laugunum á Reykjum, en þar eru tvær steinlaugar sem hlaðnar eru ofan á heitum uppsprettum. Eldri laugin nefnist Grettislaug en sú nýrri Jarlslaug, hitastig lauganna er um 39° en getur verið örlítið breytilegt eftir veðri.

18:00 Keyrt í Húsabakka, Svarfaðardal og hægt að hafa viðkomu í Hótel Varmahlíð eða  Engimýri í Öxnadal og snæða þar kvöldverð.

Gisting á Húsabakka.

Dagur 3: Svarfaðardalur – Dalvík – Ólafsfjörður

 

Hvalaskoðun (annað hvort með Arctic Sea Tours, Dalvík eða Hvalaskoðun á Hauganesi)

09:00 – 12:00 Arctic Sea Tours Dalvík: Náttúrufegurð á Eyjafirði er einstök og í ferðunum er gjarnan siglt í kring um Hrísey, sannkallaða perlu Eyjafjarðar. Helstu hvalategundir sem sjást í Eyjafirði eru hnúfubakar, hnísur, hrefnur, höfrungar og steypireiðar, stærsta spendýr jarðar.

09:30 Hvalaskoðun Hauganesi: Í hefðbundinni ferð er farið og komið frá litlu fiskimannaþorpi, Hauganesi. Þær tegundir sem aðallega sjást í ferðunum eru hrefnur, hnísur, hnúfubakar og hnýðingar. Um borð er boðið upp á rjúkandi sjóarakaffi og heimagert bakkelsi, einnig eru sjóveiðistangir um borð þannig að þeir sem hafa áhuga geta rennt fyrir fisk.

13:00 Hádegisverður

14:00 – 16:00 Náttúrugripasafnið Ólafsfirði heimsótt en það þykir mjög gott fuglasafn, býr yfir allflestum fuglategundum landsins en einnig er þar eggjasafn, vísir að plöntusafni, ísbjörn sem skotinn var á Grímseyjarsundi, refur í greni, geithafur, krabbi og fleira.

16:00 Farið aftur á Húsabakka þar sem hægt er að ganga um Friðland Svarfdæla en það er elsta votlendisfriðun landsins, stofnað 1973. Á svæðinu verpa yfir 30 tegundir fugla og fleiri tegundir hafa þar viðkomu. Merktir fræðslustígar liggja frá Húsabakka niður í Friðlandið og einnig frá Dalvík umhverfis svokallaðan Hrísahöfða í mynni Svarfaðardals. Fuglaskoðunarhús eru staðsett við Tjarnartjörn og Hrísatjörn.

Einnig er á Húsabakka sýningin Friðland fuglanna sem er nýstárleg sýning fyrir börn og fullorðna um fugla í náttúru og menningu Íslands.

Kvöldverður og gisting á Húsabakka.

Dagur 4: Grímsey

 

9:00 – 12:00 Sigling frá Dalvík út í Grímsey

Grímsey er einn af bestu stöðum á Íslandi til að skoða fugla sem verpa á klöppum og eru fuglar sem verpa í Grímsey t.d. svartfætt rita, fíll, lundi, álka, tísta, langvía og stuttnefja. Þar er að finna eitt stærsta varpsvæði kríunnar og eina stærstu lunda nýlendu á Íslandi en einnig eru algengir í eynni fuglar á borð við maríuerlu, snjótittling og steindepil.

Heimskautsbaugurinn sker þvert í gegnum Grímsey frá vestri til austurs um norðurhluta hennar. Tákn fyrir bauginn hefur verið reist á 66°33´N, einhvers konar brú sem hægt er að ganga yfir norðan við flugstöðina við hliðina á norðurenda gistiheimilisins Bása. Við hlið táknsins má finna vegprest sem sýnir vegalengdina til helstu borga í heiminum.

16:00 – 19:00 Sigling frá Grímsey til Dalvíkur

Í lok dags er keyrt til Akureyrar þar sem hægt er að snæða kvöldverð á einum af mörgum veitingastöðum bæjarins. Fjölmargir gistimöguleikar eru einnig til staðar á svæðinu.

Dagur 5: Eyjafjörður

 

Dagurinn notaður í að fara um Eyjafjarðarsvæðið og helstu fuglaskoðunarsvæði skoðuð.

Krossanesborgir er áhugaverðasta fuglaskoðunarsvæðið í Eyjafirði en það er rúmlega 1 km2 stórt og má þar finna um 500-600 pör af mörgum tegundum sem verpa þar. Í borgunum verpa samkvæmt talningum frá 2003 a.m.k. 27 tegundir fugla. Meðal tegunda má nefna: kríu, hettumáf, silfurmáf, sílamáf og stormmáf, jaðraka, ýmsar endur og gæsir, s.s. grafönd og grágæs auk margvíslegra vað- og mófugla. Um svæðið liggja slóðar, sem lagðir hafa verið til að auðvelda gestum að njóta svæðisins.

Óshólmar Eyjafjarðarár er stærsta óshólmasvæði landsins en þar eru taldar verpa allt að 33 tegundir fugla eða rúmlega 40% af varpfuglafánu Íslands. Hettumáfur og æðarfugl eru algengustu fuglarnir á svæðinu, en í kjölfarið fylgja kría, grágæs, hrossagaukur, spói, rauðhöfðaönd o.s.frv. Fjórar tegundir á svæðinu, grágæs, skeiðönd, grafönd og stormmáfur, eru á válista Náttúrufræðistofnunar.

Naustaborgir kallast klettaborgir nokkrar, háar og áberandi, fyrir norðan tjaldsvæðið að Hömrum. Aðalborgirnar eru tvær, Ytri- og Syðri-Borg (Borgir) og er sú hærri um 130 m. h.y.s. Vestan við Naustaborgir er breiður og flatur flói og í honum dálítil tjörn, Hundatjörn. Fuglaskoðunarhús er staðsett við tjörnina.

Ferðatillaga vetur

Dagur 1: Ævintýralegar vetraríþróttir

 

• Kaldbakur, þar má finna lengstu skíðabrekku Íslands. Snjótroðari ferjar þig á topp fjallsins og svo getur þú valið um ferðamöguleika á leið þinni niður aftur. Margir fara á skíðum, snjóbretti, fótgangandi eða einfaldlega njóta útsýnisins og fara aftur niður með snjótroðaranum.

• Tröllaskaginn er paradís fjallaskíðamannsins. Þar er þyrluskíðamennska eins og hún gerist best í heiminum og skemmir fyrir að geta skíðað niður að Atlantshafi.  

• Finndu þér góðan baðstað, hvort sem er sundlaug í góðu sveitarfélagi eða jafnvel heit uppspretta t.d. á Hjalteyri.

Dagur 2: Ævintýri í Náttúrunni

 

• Ferð að Goðafoss er ómissandi. Á Mývatni má finna eldsumbrota perlur náttúrunnar; Krafla, Hverárrönd, hraunmyndanir í Dimmuborgum og sprengigígarnir Skútustaðargígar. Við Mývatn má finna alskyns afþreyingu og þar má nefna, Hesta á ís, snjóþrúgugöngur, snjósleðaferðir og gönguskíðaferðir.

• Jeppaferð að Dettifoss er einstök upplifum, aflmesti foss Evrópu lofar einstakri upplifun.

• Jarðböðin eru staðsett í miðjum hraunmyndunum og enginn er svikin af því að dýfa sér í heitt lónið á vetrardögum.

Dagur 3: Skíðasvæði Norðurlands

 

• Hlíðarjfall er skíðamiðstöð Íslands þar sækja flestir Íslendingar skíðabrekkurnar. Ekki má gleyma hinum skíðasvæðunum sem hafa öll sýna sérstöðu og er virkilega gaman að sækja heim. Hægt er að skíða á öllum 5 skíðasvæðum Norðurlands í einu og þá er gott að nýta sér Ski Iceland passann sem má finna hér www.skiiceland.is

Ferðatillaga menning og saga

Dagur 1: Sögufrægu Húnavatnssýslurnar

 

•  Bjarg í Miðfirði er heimili Grettis hins sterka sem var mikilmenni og gaman að fræðast um.
•  Vatnsnesið og selirnir í þeirra náttúrulega umhverfi, Hvítserkur sjávarkletturinn frægi og Borgarvirki hið fræga.
•  Þingeyrarkirkja er eitt elsta steinhús landsins og er byggt 1877. Þar voru höfðingjar og þeirra aðalsfólk.
•  Vatnsdalshólar þar sem síðasta aftakan átti sér stað á Íslandi árið 1830.

Dagur 2: Blönduós og Skagafjörður

 

•  Textíliðnaðarsafnið á Blönduós þar sem textíll, gamlir þjóðbúningar og annað ræður ríkjum.
•  Skagaströnd, sögufræga fiskiþorpið og heimili Spákonufells og Spákonuhofs þar sem enginn má fara án þess að láta spá fyrir sér.
•  Sauðárkrókur og Skagafjörður, íslenski hesturinn er oft kenndur við Skagafjörðinn og á Hólum má meðal annars heimsækja sögusetur Íslenska hestsins. Sútunarmiðstöð er að finna á Sauðárkróki og Glaumbær er minjasafn sem kætir og er torfbær.
•  Hægt er að fara í stuttar sem langar hestaferðir eða flúðasiglingu í Jökulsá sem hefur verið sögð ein sú skemmtilegasta af mörgum sem hafa farið þar niður á bát. 
•  Drangey er eyjan sem geymir lunda og er eyjan einstaklega falleg. Á Reykjum er hægt að heimsækja hina frægu Grettislaugina og skella sér í sjósund í leiðinni.

Dagur 3: Tröllaskaginn

 

• Hólar í Hjaltadal er sögufrægur staður, þar má heimsækja elstu steinbyggðu kirkju á Íslandi og þar að auki er hún dómkirkja. Sumir láta síðan Bjórsetrið á Hólum ekki framhjá sér fara. 
•  Sundlaugin á Hofsósi er gersemi sem allir vilja baða sig í.Þess má geta að Hofsós er einn elsti kaupstaður landsins.
•  Á Siglufirði má ekki láta Síldarminjasafnið framhjá sér fara nú eða fara í skoðunarferð um bruggsmiðju Seguls 67 í gamla frystihúsinu. Á Ólafsfirði er náttúrugripasafn, þar sem hægt er að sjá ýmsar tegundir fugla. Á Dalvík er hægt að fræðast um söguna í byggðasafninu og ekki er ólíklegt að ferðalangar detti inn á viðburði í Menningarhúsinu Bergi.

Dagur 4: Akureyri og Eyjafjörður

 

•  Ferjan til Hríseyjar fer oft á dag og þar má finna hús Hákarla Jörundar. Það er ekki á mörgum stöðum sem má finna eins mikla kyrrð og í Hrísey. Grímsey er svo staðurinn þar sem hægt er að fara yfir heimskautsbaug og fá staðfestingu á því.
•  Minjasafnið, Davíðshús og margt fleira. Akureyri er miðpunktur menningar á Norðurlandi, með Menningarfélag Akureyrar og Listasafnið fremst í flokki. Mikill fjöldi veitingahúsa og menningarviðburða fylla kvöldin af skemmtun fyrir alla.

Ferðatillaga náttúra

Dagur 1: Mývatn og Húsavík

 

• Ferð að Goðafoss er ómissandi. Á Mývatni má finna perlur eldsumbrota; Krafla, Hverarönd, hraunmyndanir í Dimmuborgum og sprengigígarnir Skútustaðargígar. Við Mývatn er einhver fjölbreyttasta flóra landsins af öndum sem enginn fuglaáhugamaður má láta framhjá sér fara.
• Jarðböðin við Mývatn eru ómótstæðilegur kostur við öll tækifæri.
• Húsavík er löngu orðin fræg fyrir hvali enda kölluð höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi. Á Húsavík má ekki gleyma fuglalífinu og lundinn er tíður gestur og þá sérstaklega á og við Lundey.  Fyrir þá sem vilja fara á vit ævintýranna þá er ferð út í Flatey skemmtilegur kostur. Sjóböðin á Húsavíkurhöfða býður upp á útsýni yfir Skjálfanda, fyrir þá sem vilja frekar njóta úr fjarlægð.

Dagur 2: Kópasker, Þórshöfn og nágrenni

 

• Melrakkasléttan er einstök. Strandir og sjávarfuglar einkenna látlausu sléttuna sem er uppfull af kyrrð. Hraunhafnartangi er sá tangi sem er næst heimskautsbaug og ekki eru nema 3 km í hann.
• Langanes og Skoruvíkurbjarg eru heimili stærstu súlubyggðar á norðurhluta landsins.
• Miðnætursólin er engri lík á þessum slóðum. Við heimskautsbaug eru andstæðurnar hvað fallegastar. Miðnætursól á sumrin og norðurljós á veturna.

Dagur 3: Vatnajökulsþjóðgarður og hálendið

 

• Ásbyrgi er staður fullur af orku og göldrum. Sagan segir að Sleipnir hafi rekið einn hófa í jörðu og þá hafi Ásbyrgi myndast. Á þessum slóðum má finna aflmesta foss Evrópu, Dettifoss.
• Herðubreið oftast kölluð “Drottning íslensku fjallana”, Askja og Öskjuvatn, dýpsta vatn á Íslandi má finna hér. Fyrir þá sem hafa gaman að náttúruböðum má baða sig í Víti.

Dagur 4: Akureyri og Eyjafjörður

 

• Lystigarðurinn er einstakur og hvergi í heiminum má finna garð með eins fjölbreyttri flóru af blómum sem er svo norðarlega á hnettinum. Einn flottasti 18 holu golfvöllur landsins er á Akureyri og í Kjarnaskógi er að finna fjölmargar göngu- og hjólaleiðir, strandblaksvöll, mínigolf og leiksvæði með grillskálum. Við Eyjafjörð má finna fjölmarga möguleika til útivistar og ekki skemmir fyrir að branduglu má sjá hér og þar.

Norðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar til útivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi. 

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

Skoða meira

Map Akureyri Eyjafjarðarsveit Grímsey Raufarhöfn Kópasker Þórshöfn Bakkafjörður Húsavík Mývatn Laugar Svalbarðseyri Grenivík Hjalteyri Hauganes Árskógssandur Dalvík Hrísey Ólafsfjörður Siglufjörður Hofsós Hólar Varmahlíð Sauðárkrókur Skagaströnd Blöndós Hvammstangi Laugarbakki Borðeyri