Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Ferðatillaga fuglar og dýr

1432127483-birds-on-langanes.jpg
Ferðatillaga fuglar og dýr

Dagur 1: Vatnsnes

 

09:00 Selasetrið á Hvammstanga heimsótt en þar er sérstök fræðslusýning um seli og nánasta umhverfi þeirra. Þar má t.d. fræðast um lífshætti sela, líkamsbyggingu, kæpingu og fæðuöflun, selveiðar og nýtingu selaafurða í sögulegu samhengi og heyra þjóðsögur um seli.

10:00 Selasigling frá Hvammstanga er fullkomin leið til þess að skoða og sjá seli í þeirra náttúrulega umhverfi. Selasigling býður upp á frían aðgang að Selasetrinu ásamt leiðsögn fyrir sínar ferðir.

12:00 Hádegismatur á nýjum veitingastað sem staðsettur er á efri hæð Selasetursins. Betra útsýni fæst ekki þó víða væri leitað.

13:00-18:00 Deginum varið á Vatnsnesi þar sem víða eru mikil sellátur og fjölskrúðugt fuglalíf.

Stoppað verður við Hvítserk sem er einn sérstæðasti klettadrangurinn við Ísland en hann rís um 15 metra hár í flæðarborðinu við botn Húnafjarðar austanvert við Vatnsnes. Útsýnispallur er á svæðinu og hægt er að ganga niður í fjöruna við Hvítserk og að Sigríðarstaðaós sem er þar litlu sunnar. Á sandinum gegnt ósnum liggja ætíð tugir eða hundraðir sela sem spóka sig og fylgjast með mannlífinu á hinum bakka óssins. Það er gömul þjóðsaga að í fyrndinni hafi Hvítserkur verið tröll er bjó á Ströndum og hafi ætlað sér að brjóta niður kirkjuklukku við Þingeyraklaustur en orðið að steini þegar dagur rann. 

Borgarvirki skoðað en það er klettaborg sem stendur á ásnum milli Vesturhóps og Víðidals. Talið er að Borgarvirki sé gosstapi sem myndaðist við eldgos á hlýskeiði ísaldar og samkvæmt sögnum var það nýtt sem virki á þjóðveldisöld.

18:00 Endað á Sveitasetrinu á Gauksmýri þar sem boðið er upp á kvöldverð og gistingu. Í um 10 mínútna göngufjarlægð frá setrinu er tjörn þar sem fjöldinn allur af fuglum verpir og þar er aðgengilegur göngustígur sem liggur að fuglaskoðunarhúsi. Að staðaldri yfir sumartímann eru þarna 15-20 fuglategundir og má þar helst nefna; óðinshana, álftarhjón, lómapar, skúfendur, jaðrakan, stokkendur, rauðhöfðaendur og urtendur, helsta skrautfjöðrin er þó flórgoðinn.

Kvöldverður á Gauksmýri, þar er salurinn þakinn stórum gluggum og útsýnið stórkostlegt; Gauksmýrartjörn, mýrlendi og fjalllendi.

Dagur 2: Skagafjörður

 

8:30 Ekið frá Gauksmýri í Skagafjörð

11:00 – 15:00  Val um að fara í ferð út í Drangey eða í ferð um helstu fuglaskoðunarsvæði fjarðarins.

Skagafjörður er þekktur fyrir mikið fuglalíf en þar eru t.d. aðalhvíldarstöðvar helsingja á leið til og frá Grænlandi.  Við árósa Héraðsvatna, nærri Sauðárkróki, er tilvalið að skoða ýmsar fuglategundir og eru þar m.a. flestar andategundir landsins, margar tegundir vaðfugla, s.s. lóuþræll, spói og jaðrakan. 

Hefðbundin Drangeyjarferð tekur um 4 klst. með siglingu, göngu og fuglaskoðun og oft sjást selir og hvalir á siglingunni. Fuglalíf í Drangey er mjög fjölbreytt en eyjan iðar af bjargfugli og a.m.k tvö fálkapör verpa þar líka. Mest ber á svartfuglstegundum eins og stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því. Lundinn grefur sér holur á brúnunum, rita og fýll verpa í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar griðland.

Við kaffihúsið og laugarnar á Reykjum leika óðinshaninn og krían listir sínar en æðarkollan kúrir í höfninni.

15:00 – 18:00 Í lok dags er hægt að láta þreytuna líða úr sér á kaffihúsinu og laugunum á Reykjum, en þar eru tvær steinlaugar sem hlaðnar eru ofan á heitum uppsprettum. Eldri laugin nefnist Grettislaug en sú nýrri Jarlslaug, hitastig lauganna er um 39° en getur verið örlítið breytilegt eftir veðri.

18:00 Keyrt í Húsabakka, Svarfaðardal og hægt að hafa viðkomu í Hótel Varmahlíð eða  Engimýri í Öxnadal og snæða þar kvöldverð.

Gisting á Húsabakka.

Dagur 3: Svarfaðardalur – Dalvík – Ólafsfjörður

 

Hvalaskoðun (annað hvort með Arctic Sea Tours, Dalvík eða Hvalaskoðun á Hauganesi)

09:00 – 12:00 Arctic Sea Tours Dalvík: Náttúrufegurð á Eyjafirði er einstök og í ferðunum er gjarnan siglt í kring um Hrísey, sannkallaða perlu Eyjafjarðar. Helstu hvalategundir sem sjást í Eyjafirði eru hnúfubakar, hnísur, hrefnur, höfrungar og steypireiðar, stærsta spendýr jarðar.

09:30 Hvalaskoðun Hauganesi: Í hefðbundinni ferð er farið og komið frá litlu fiskimannaþorpi, Hauganesi. Þær tegundir sem aðallega sjást í ferðunum eru hrefnur, hnísur, hnúfubakar og hnýðingar. Um borð er boðið upp á rjúkandi sjóarakaffi og heimagert bakkelsi, einnig eru sjóveiðistangir um borð þannig að þeir sem hafa áhuga geta rennt fyrir fisk.

13:00 Hádegisverður

14:00 – 16:00 Náttúrugripasafnið Ólafsfirði heimsótt en það þykir mjög gott fuglasafn, býr yfir allflestum fuglategundum landsins en einnig er þar eggjasafn, vísir að plöntusafni, ísbjörn sem skotinn var á Grímseyjarsundi, refur í greni, geithafur, krabbi og fleira.

16:00 Farið aftur á Húsabakka þar sem hægt er að ganga um Friðland Svarfdæla en það er elsta votlendisfriðun landsins, stofnað 1973. Á svæðinu verpa yfir 30 tegundir fugla og fleiri tegundir hafa þar viðkomu. Merktir fræðslustígar liggja frá Húsabakka niður í Friðlandið og einnig frá Dalvík umhverfis svokallaðan Hrísahöfða í mynni Svarfaðardals. Fuglaskoðunarhús eru staðsett við Tjarnartjörn og Hrísatjörn.

Einnig er á Húsabakka sýningin Friðland fuglanna sem er nýstárleg sýning fyrir börn og fullorðna um fugla í náttúru og menningu Íslands.

Kvöldverður og gisting á Húsabakka.

Dagur 4: Grímsey

 

9:00 – 12:00 Sigling frá Dalvík út í Grímsey

Grímsey er einn af bestu stöðum á Íslandi til að skoða fugla sem verpa á klöppum og eru fuglar sem verpa í Grímsey t.d. svartfætt rita, fíll, lundi, álka, tísta, langvía og stuttnefja. Þar er að finna eitt stærsta varpsvæði kríunnar og eina stærstu lunda nýlendu á Íslandi en einnig eru algengir í eynni fuglar á borð við maríuerlu, snjótittling og steindepil.

Heimskautsbaugurinn sker þvert í gegnum Grímsey frá vestri til austurs um norðurhluta hennar. Tákn fyrir bauginn hefur verið reist á 66°33´N, einhvers konar brú sem hægt er að ganga yfir norðan við flugstöðina við hliðina á norðurenda gistiheimilisins Bása. Við hlið táknsins má finna vegprest sem sýnir vegalengdina til helstu borga í heiminum.

16:00 – 19:00 Sigling frá Grímsey til Dalvíkur

Í lok dags er keyrt til Akureyrar þar sem hægt er að snæða kvöldverð á einum af mörgum veitingastöðum bæjarins. Fjölmargir gistimöguleikar eru einnig til staðar á svæðinu.

Dagur 5: Eyjafjörður

 

Dagurinn notaður í að fara um Eyjafjarðarsvæðið og helstu fuglaskoðunarsvæði skoðuð.

Krossanesborgir er áhugaverðasta fuglaskoðunarsvæðið í Eyjafirði en það er rúmlega 1 km2 stórt og má þar finna um 500-600 pör af mörgum tegundum sem verpa þar. Í borgunum verpa samkvæmt talningum frá 2003 a.m.k. 27 tegundir fugla. Meðal tegunda má nefna: kríu, hettumáf, silfurmáf, sílamáf og stormmáf, jaðraka, ýmsar endur og gæsir, s.s. grafönd og grágæs auk margvíslegra vað- og mófugla. Um svæðið liggja slóðar, sem lagðir hafa verið til að auðvelda gestum að njóta svæðisins.

Óshólmar Eyjafjarðarár er stærsta óshólmasvæði landsins en þar eru taldar verpa allt að 33 tegundir fugla eða rúmlega 40% af varpfuglafánu Íslands. Hettumáfur og æðarfugl eru algengustu fuglarnir á svæðinu, en í kjölfarið fylgja kría, grágæs, hrossagaukur, spói, rauðhöfðaönd o.s.frv. Fjórar tegundir á svæðinu, grágæs, skeiðönd, grafönd og stormmáfur, eru á válista Náttúrufræðistofnunar.

Naustaborgir kallast klettaborgir nokkrar, háar og áberandi, fyrir norðan tjaldsvæðið að Hömrum. Aðalborgirnar eru tvær, Ytri- og Syðri-Borg (Borgir) og er sú hærri um 130 m. h.y.s. Vestan við Naustaborgir er breiður og flatur flói og í honum dálítil tjörn, Hundatjörn. Fuglaskoðunarhús er staðsett við tjörnina.

Hvítserkur

Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu. Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin.

Vatnsnes

Á Vatnsnesi er fjölskrúðugt dýralíf og þar er að finna ein aðgengilegustu og stærstu sellátur á landinu, þar sem skoða má landseli í töluverðu návígi. Aðstaða til selaskoðunar hefur verið byggð upp á Illugastöðum, Svalbarði og Ósum en athygli skal vakin á því að selaskoðunarstaðnum í Hindisvík hefur nú verið lokað.
Þar er að finna fagurt umhverfi og náttúruundur og má þar nefna Hvítserk og Borgarvirki. Þar er einnig að finna þekktar söguslóðir.
Hringvegurinn um Vatnsnes er um 90 km langur og að mestu malarvegur og fær allt árið um kring.

Borgarvirki

Borgarvirki á Vatnsnesi er klettaborg úr 10-15 metra háu stuðlabergi. Virkið er gostappi og tilgáta er um að þar hafi verið héraðsvirki og barist til forna. Á Borgarvirki er útsýnisskífa og þar er mjög víðsýnt yfir stóran hluta héraðsins.

Einstakt náttúrufyrirbæri, endurbætt af mönnum fyrr á öldum.

Hvammstangi

Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarni Húnaþings vestra. Verslunarsaga staðarins nær yfir rúm 100 ár og er Verslunarminjasafnið gott dæmi um hvernig verslað var í krambúðum hér áðurfyrr.

Góð höfn er á Hvammstanga og þaðan er gerður út sjóstanga- og selaskoðunarbátur. Hvammstangi er tilvalinn áfangastaður ferðamanna og er þar mjög góð sundlaug, gott tjaldsvæði í skjólgóðum hvammi með þægilegu þjónustuhúsi og tengingum fyrir tjald- og húsvagna.

Jafnframt er á Hvammstanga gistihús, verslun, veitingastaður, bankaþjónusta, heilsugæsla, bensínstöð, bílaverkstæði og önnur nauðsynleg þjónusta.

Selasetur Íslands veitir upplýsingar um seli og Vatnsnes, auk þess er þar almenn upplýsingamiðstöð ferðamanna.

Ólafsfjörður

Mikil náttúrufegurð er í Ólafsfirði og margar góðar gönguleiðir eru á svæðinu.  Ólafsfjörður hefur síðustu ár orðið sífellt vinsælli áningarstaður ferðalanga, enda er hann rómaður fyrir fegurð, kyrrð og ró.

Á veturna er Ólafsfjörður sannkölluð vetrar- og skíðaparadís og draumur útivistarmannsins og á sumrin eru það fjöllin, sjórinn, Ólafsfjarðarvatn og svört sandfjaran sem heilla.

Í stórbrotnu landslagi fjarðarins má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró.  Yfir sumartímann er hægt að horfa á miðnætursólina dansa á sjóndeildarhringnum áður en hún rís að nýju og á vetrum eru norðurljósin stórfengleg.

Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi.  Í Ólafsfirði er 9 holu golfvöllur, sundlaug, glæsilegt náttúrgripasafn, fjöldi  gallería, tvo veitingahús, hótel, gistiheimili og verslun.

Dalvík

Fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar frá fyrstu hendi er Dalvík í Dalvíkurbyggð tilvalinn áfangastaður en sveitarfélagið liggur við náttúruparadísina Tröllaskaga auk þess að hafa frábært aðgengi að sjó.

Í Dalvíkurbyggð er fjölmargar gönguleiðir að finna, styttri og lengri. Af lengri gönguleiðum má nefna gömlu þjóðleiðina yfir Heljardalsheiði milli Svarfaðardals og Hóla í Hjaltadal og einnig liggja þrjár gamlar þjóðleiðir yfir til Ólafsfjarðar, Reykjaheiði, Grímubrekkur og Drangar, sem gaman er að ganga.

Frá Dalvíkurhöfn siglir ferjan Sæfari milli Dalvíkur og Grímseyjar og á Dalvík má einnig finna glæsilega sundlaug, byggðasafnið Hvol, einstakt skíðasvæði, 9 holu golfvöll, sjóstangveiði og hvalaskoðun, hestaferðir og margt, margt fleira.

Það er tilvalið að skella sér á Dalvík og upplifa kyrrðina, öryggið og dásamlegt útsýnið.

Láttu sjá þig í Dalvíkurbyggð og þú munt ekki sjá eftir því!

Akureyri

Það er einhver annar bragur yfir Akureyri en öðrum bæjum á Íslandi. Þar finnur þú alla þá þjónustu sem hugurinn girnist í þægilegu umhverfi. Menningin blómstrar í bænum, þar er nægt úrval gisti- og veitingastaða, og líka hægt að kíkja í búðir þá sjaldan að veðrið er til vandræða.

Gestir bæjarins hafa stundum á orði að þeim finnist þeir vera komnir til útlanda þegar þeir koma til Akureyrar. Það er eitthvað öðruvísi við höfuðstað Norðurlands: Gömlu húsin í Innbænum bera danskri fortíð fagurt vitni, tignarleg fjöllin blasa við allt um kring, mannlífið er afslappað og ef þú lendir á rauðu ljósi þá brosir við þér rautt hjarta í götuvitanum.

Það búa aðeins um 19.000 manns á Akureyri. Umferðin er stresslaus og fáheyrt að argir bílstjórar flauti hverjir á aðra. Einhvern tímann var komist að þeirri vísindalegu niðurstöðu að á Akureyri taki aldrei meira en sjö mínútur að fara á milli staða. Í rauninni er óþarfi að nota bílinn innanbæjar og hægt að fara allt á tveimur jafnfljótum.

Á Akureyri finnur þú borgarlandslag í námunda við náttúruna. Það er kjörið að hafa bækistöð í bænum og skjótast í dagsferðir til austurs eða vesturs að skoða ýmsar helstu náttúruperlur landsins, svo sem Goðafoss, Hvítserk, Drangey, Dettifoss og Mývatn. Gönguleiðir í næsta nágrenni eru magnaðar, hægt að komast á hestbak, fara í hvalaskoðun, leigja kajak, fara í golf eða brettasiglingar. Það er eitthvað öðruvísi við Akureyri. 

Sellátur

Sellátur er svæði nærri sjó þar sem selir kæpa. Sellátur er að finna víðast hvar þar sem selir halda sig og er Vatnsnesið eitt helsta selaskoðunarsvæði Norðurlands. Látur eru yfirleitt nærri flæðarmálinu og selirnir liggja þar á fjöru en svamla í sjónum á flóði. Í einu látri geta verið allt frá fáeinum dýrum upp í mörg hundruð.

Hvalir á Norðurlandi

Hvalskoðun er orðin ein vinsælasta afþreying þeirra ferðamanna sem ferðast um Norðurland. Þúsundir manna sigla á hverju ári með skipi út á rúmsjó í þeirri von að sjá hvölum bregða fyrir, enda er landið okkar einn besti hvalaskoðunarstaður í heimi. Fjölbreytileiki tegunda er hér meiri en víðast hvar annarstaðar í heiminum. Sú upplifun að sjá tegundir eins og steypireyð, hnúfubaka, háhyrninga, hrefnur og höfrungar leika sé saman í sjónum dregur að sér sífellt fleiri ferðamenn.

Hvalaskoðun á Skjálfanda eða í Eyjafirði á fallegum sumardegi er upplifun sem lætur engann ósnortinn.

Fuglaskoðun

Fuglalífið á Norðurlandi er afar fjölskrúðugt og á svæðinu er að finna margvísleg búsvæði fugla og fjölbreytileiki fuglafánunnar er óvíða meiri en hér á landi. Votlendi er mikilvægt búsvæði margra íslenskra varpfuglategunda og á Norðurlandi er að finna nokkur slík svæði sem fræg eru fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Má þar nefna Mývatns- og Laxársvæðið en þar er að finna samankomnar flestar andategundir í heiminum, t.d. húsönd og skúfönd. Í friðlandi Svarfdæla er einnig að finna mjög fjölskrúðugt fuglalíf.

Sjávarströndin er búsvæði sjófuglanna og eru á Norðurlandi nokkur þekkt fuglabjörg, má þar nefna Grímsey, Rauðanúp og Langanes.

Fuglar og villt dýr á Íslandi

Norðurland er einstök náttúruperla, dýralíf þar er mjög fjölbreytt og dýralífsskoðun er kjörin upplifun fyrir alla fjölskylduna. Hvali, seli og óteljandi fuglategundir er hægt að finna víða og einnig margbreytilegt plöntulíf.

Sauðárkrókur

Sauðárkrókur stendur við botn Skagafjarðar að suðvestan. Á Sauðárkróki er fjölbreytt þjónusta; sýningar, söfn, verslanir, veitingar, gisting, sjúkrahús, verkstæði, golfvöllur, skíðasvæði, íþróttavöllur, ærslabelgur, strandblakvöllur, sundlaug o.fl.

Í Aðalgötunni er verslun Haraldar Júlíussonar sem starfað hefur óslitið frá árinu 1919. Þar er einnig að finna ýmsar sérverslanir, veitingastaði og fyrsta flokks handverksbakarí. Tvær framúrskarandi sýningar eru í Aðalgötunni; Puffin & Friends og 1238 – Baráttan um Ísland. Þar er einnig að finna upplýsingamiðstöð. Stuttan spöl frá Sauðárkróki eru vinsælir ferðamannastaðir eins og Grettislaug og gamli bærinn í Glaumbæ. Daglegar ferðir eru farnar í Drangey frá smábátahöfninni á Sauðárkróki yfir sumartímann og eftir samkomulagi yfir vetrarmánuðina.

Brekkurnar fyrir ofan bæinn kallast Nafir og eru fornir sjávarkambar. Á Nöfunum er útsýnisskífa þar sem hægt er að njóta þess að horfa yfir fjörðinn. Einnig er golfvöllur upp á Nöfum. Ótal gönguleiðir er að finna á Sauðárkróki og nágrenni.

Sauðárkrókur er einn öflugasti byggðarkjarni landsbyggðarinnar þar sem saman fer öflug útgerð, úrvinnsla afurða af stóru landbúnaðarsvæði og þjónusta sem jafnast á við það besta sem býðst á landsbyggðinni.

Austan við Sauðárkrók er Borgarsandur, tæplega fjögurra kílómetra löng svört sandfjara. Þar er upplagt að labba um og njóta útsýnisins út fjörðinn þar sem eyjarnar Drangey og Málmey ásamt Þórðarhöfða blasa við. Við Áshildarholtsvatn er fjölskrúðugt fuglalíf en þar má finna upplýsingaskilti um fugla. Mikið fuglalíf er einnig við ósa Héraðsvatna og á Miklavatni.

Norðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar til útivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi. 

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

Skoða meira

Map Akureyri Eyjafjarðarsveit Grímsey Raufarhöfn Kópasker Þórshöfn Bakkafjörður Húsavík Mývatn Laugar Svalbarðseyri Grenivík Hjalteyri Hauganes Árskógssandur Dalvík Hrísey Ólafsfjörður Siglufjörður Hofsós Hólar Varmahlíð Sauðárkrókur Skagaströnd Blöndós Hvammstangi Laugarbakki Borðeyri