Flýtilyklar
Norðurstrandarleið
Þegar ferðast er um Norðurstrandarleið, er farið úr alfaraleið og þannig má kynnast minna þekktum stöðum Norðurlands – til verða ný ævintýri á hinni 900 kílómetra löngu leið ekki fjarri Norðurheimskautsbaugnum.
Á leiðinni eru sex skagar og nes, gullfallegar sandfjörur og ægilegir klettar, jökulsárgljúfur, mikilfenglegir firðir og fjallstindar sem teygja sig hátt til himins. Jafnvel er hægt að fara út í eyjarnar og yfir heimskautsbauginn sjálfan. Hver lítill bær, hvert lítið þorp, hefur sína sögu að segja um það hvernig lífið hefur verið – og er – svo nálægt norðurheimskautsbaugnum.
Farfuglarnir koma á vorin og syngja inn sumarið. Á Norðurstrandarleið eru sumir af bestu fuglaskoðunarstöðum landsins og með því að fara í siglingu getur þú átt ógleymanlegar stundir með hvölum og selum.
Þröngir vegir, oft malarvegir, hlykkjast eftir strandlengjunni þar sem hafið nær svo langt sem auga eygir. Á sömu stöðum er jafnvel hægt að finna vegi sem leiða mann upp á fjöllin blá. Ferðalangar munu finna fyrir krafti hafsins og áhrifum þess á síbreytilegt veðrið. Í roki og rigningu getur verið huggulegt að koma sér fyrir á kaffihúsi með heitan bolla, en þegar sólin skín verður berfættur göngutúr um sandfjörur jafnvel enn betri hugmynd.
Það er mögulegt að keyra alla leiðina í einum rykk – en það er engin þörf fyrir slíkt. Ferðalangar sem fara Norðurstrandarleið eru hvattir til þess að fara hægt yfir, sökkva sér í söguna, menninguna og þá afþreyingu sem er í boði hverju sinni. Norðurstrandarleið lítur heldur ekki alltaf eins út, því upplifunin getur verið ótrúlega breytileg eins og árstíðirnar.
-21 sjávarþorp eða bæir frá Hvammstanga til Bakkafjarðar
-nyrsti punktur Íslands og eini staðurinn á landinu þar sem hægt er að fara yfir Norðurheimskautsbaug
-frábærir staðir til að sjá miðnætursól og norðurljós
-ferjur til 6 eyja
-hvala-, sela- og fuglaskoðun á heimsmælikvarða
-tilkomumiklar gönguleiðir um fjöll og alls kyns afþreying í útivist
-18 sundlaugar eða náttúrulaugar
-ýmsir viðburðir
Til þess að fá frekari upplýsingar er hægt að heimsækja ferðasíðu Norðurstrandarleiðar www.nordurstrandarleid.is