Fara í efni

Beint flug til Norðurlands

Fjögur flugfélög bjóða millilandaflug til og frá Akureyrarflugvelli.

Niceair flýgur til Kaupmannahafnar og Tenerife, og vorið 2023 bætast Alicante og Dusseldorf við leiðarkerfi félagsins. Sjá: www.niceair.is

Í maí 2023 mun þýska flugfélagið Condor hefja beint flug vikulega til Akureyrar frá Frankfurt. Félagið býður einnig vikulegt flug til Egilsstaða. Sjá: www.condor.com

Svissneska flugfélagið Edelweiss býður beint flug til Akureyrar frá Zurich, yfir sjö vikna tímabil sumarið 2023 eða frá 7. júlí til 18. ágúst. Sjá: www.flyedelweiss.com/en 

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel flýgur með farþega bæði á veturna og sumrin og það er flugfélagið Transavia sem sér um þær ferðir. Íslendingar geta keypt ferðir til Hollands hjá ferðaskrifstofunni Verdi. Sjá: www.verditravel.is 

NiceAir
Niceair er splunkunýtt flugfélag sem hefur sig til flugs frá Akureyri og flýgur beint til Kaupmannahafnar og Tenerife fyrst um sinn. Flogið verður tvisvar í viku til Kaupmannahafnar og einu sinni í viku til Tenerife. Vorið 2023 bætast Alicante og Dusseldorf við í leiðarkerfið. Nýju flugleiðirnar koma til með að opna margvíslega möguleika bæði fyrir íbúa Norður- og Austurlands og erlenda ferðamenn – en ekki síður fela þær í sér fjölmörg tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Beint flug til Akureyrar gerir ferðaþjónustufyrirtækjum hins vegar kleift að bjóða viðskiptavinum sínum nýja þjónustu, til að mynda styttri og ódýrari pakkaferðir um Norður- og Austurland, ferðir sem leggja áherslu á sérstöðu náttúru og menningar á svæðinu og ferðir með áherslu á minna troðnar slóðir og íslenskar náttúruperlur sem heimurinn á enn eftir að uppgötva.