Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Fyrstu farþegarnir í beinu flugi frá Bretlandi lentir á Akureyri

Í hádeginu í dag lenti Boeing vél flugfélagsins Enter Air á Akureyrarflugvelli, með fyrstu bresku ferðamennina innanborðs sem koma með beinu flugi frá Bretlandi á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break.  Þetta markar tímamót í ferðaþjónustu á Norðurlandi því Super Break áformar að fljúga til Akureyrar áfram næstu misserin og að miklu leyti á þeim tíma ársins sem hingað til hefur verið rólegri í ferðaþjónustu. 

Bresku ferðamennirnir voru ánægðir þegar þeir lentu, en mikil ásókn hefur verið í þessar ferðir Super Break og hafa yfir 95 prósent flugsæta þegar verið seld. Slíkt telst mjög góður árangur! Isavia bauð þeim upp á pönnukökur og íslenskt vatn, sem vakti mikla lukku.

Aron Einar mætti á flugvöllinn í Cardiff

Á flugvöllinn í Cardiff mætti landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, Aron Einar Gunnarsson, en hann spilar semkunnugt er með knattspyrnuliði borgarinnar. Aron Einar tók þátt í fögnuði Super Break þar ytra, spjallaði við farþega og sagði þeim frá Bjórböðunum á Árskógssandi, en hann er einn af eigendum fyrirtækisins. Þá tók velskur kór nokkur falleg íslensk lög fyrir ferðalangana, eitt af þeim var Heyr himnasmiður, og hlaut lof fyrir.

„Sprettur af mikilli framsýni“

Markaðsstofa Norðurlands (Flugklasinn Air 66n), Isavia, breska sendiráðið og Akureyrarbær buðu til fögnuðar á Akureyrarflugvelli í tilefni af þessu, en á meðal ræðumanna var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra. Í ræðu sinni sagði hún að þessar 

flugferðir yrðu mikil lyftistöng fyrir fyrirtæki á svæðinu og að samfélagið í heild nyti góðs af þeim. „Uppskeran sem við verðum hér vitni að er alls ekki sjálfgefin. Hún sprettur af mikilli framsýni aðila hérna fyrir norðan, sem hafa haft skýra sýn og óbilandi trú á möguleikum á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll á hvaða árstíma sem er,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Bara byrjunin“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, var að vonum mjög ánægð með daginn. „Við erum búin að vinna að þessu verkefni frá stofnun Flugklasans Air 66N árið 2011 og höfum verið að kynna Norðurland markvisst fyrir breskum ferðaskrifstofum og flugfélögum. Þetta flug er bara byrjunin og við eigum eftir að sjá aukningu í beinu flugi til Akureyrar á næstunni. Þessi árangur hefur náðst vegna þess að ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög á öllu Norðurlandi hafa staðið saman í þessu verkefni og haft óbilandi trú á því að Norðurland sé eftirsóknarverður og spennandi áfangastaður.“


Norðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar til útivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi. 

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

Skoða meira

Map Akureyri Hrafnagil Grímsey Raufarhöfn Kópasker Þórshöfn Bakkafjörður Húsavík Mývatn Laugar Svalbarðseyri Grenivík Hjalteyri Hauganes Árskógssandur Dalvík Hrísey Ólafsfjörður Siglufjörður Hofsós Hólar Varmahlíð Sauðárkrókur Skagaströnd Blöndós Hvammstangi Laugarbakki Borðeyri