Fara í efni

Áfangastaðaáætlun 2021-2023 er komin út

Áfangastaðaáætlun fyrir Norðurland, sem gildir frá 2021-2023 hefur nú verið gefin út og má skoða hana hér á vefnum.

Áfangastaðaáætlun fyrir Norðurland, sem gildir frá 2021-2023 hefur nú verið gefin út og má sjá hlekk á hana hér neðst. Áætluninni er ætlað að gefa skýra mynd af ferðaþjónustunni, markmiðum hennar og uppbyggingarþörf ásamt því að leggja áherslu á þarfir og væntingar ferðamanna í öllum verkefnum. Áfangastaðaáætlun getur því nýst hagsmunaaðilum innan svæðis en ekki síður aðilum utan svæðis enda fá stjórnvöld hér skýra mynd af starfsemi ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og áherslum og verkefnum MN næstu þrjú árin. Sérstaklega er farið yfir þarfir í innviðauppbyggingu enda eru þau verkefni gríðarlega mikilvæg fyrir sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar og eru þau verkefni skilgreind í samstarfi við sveitarfélögin og ferðaþjónustuna. 

Það er von MN að við lok þessara þriggja ára tímabils sem hér er sett fram hafi góður árangur náðst í verkefnunum. Innviðir séu fjármagnaðir og komnir í framkvæmdaferli auk þess sem ferðaþjónustan hafi færst nær þeirri framtíðarsýn að vera öflug heilsársferðaþjónusta með trygga innviði, greiðar samgöngur, fjölda heilsársstarfa og aukna framlegð. Til þess að svo megi verða þurfa allir hagsmunaaðilar að taka höndum saman, fyrirtækin, sveitarfélögin og stjórnvöld. Tryggja þarf fjármögnun verkefna og skilning á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir uppbyggingu Norðurlands. Vinna þarf í sátt við íbúa enda er ferðaþjónustan mikilvægur hlekkur í bættum lífsgæðum og aukinni þjónustu sem nýtist bæði ferðamönnum og íbúunum sjálfum.

 

Smelltu á myndina til að skoða skjalið.