Flýtilyklar
Fuglar og villt dýr á Íslandi

Norðurland er einstök náttúruperla, dýralíf þar er mjög fjölbreytt og dýralífsskoðun er kjörin upplifun fyrir alla fjölskylduna. Hvali, seli og óteljandi fuglategundir er hægt að finna víða og einnig margbreytilegt plöntulíf.
Hvalaskoðun
Hvalaskoðun er ein helsta afþreying ferðamanna á Norðurlandi. Húsvíkingar og Eyfirðingar voru meðal þeirra fyrstu til að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir hér við land. Fjöldi hvalategunda, hagstætt veður og sjólag gera Norðurland að einu besta hvalaskoðunarsvæði landsins. Skjálfandaflói og Eyjafjörður eru skjólgóðir og einstaklega vel til þess fallnir að sigla um á fallegum sumardegi. Fuglalífið og náttúran skartar sínu fegursta meðan horft er á hrefnur, höfrunga, hnúfubaka og jafnvel steypireyðar leika sér.
Hvalaskoðun á Norðurlandi lætur engan ósnortinn.
Selaskoðun
Við Ísland kæpa tvær tegundir sela, landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus grypus). Fjórar tegundir í viðbót eru þekktar hér við land sem flækingar, en þær hafa ekki kæpt hér svo vitað sé. Þessar tegundir eru vöðuselur (Phoca groenlandica), kampselur (Erignathus barbatus), blöðruselur (Cystophora cristata) og hringanóri (Phoca hispida). Einnig hafa rostungar (Odobenus rosmarus) sést hér við land en þeir eru þó mjög sjaldséðir.
Fuglaskoðun
Fuglalíf á Norðurlandi er afar fjölskrúðugt og á svæðinu er að finna margvísleg búsvæði fugla og fjölbreytileiki fuglafánunnar er óvíða meiri hér á landi. Votlendi er mikilvægt búsvæði margra íslenskra varpfuglategunda og á Norðausturlandi er að finna nokkur slík svæði sem fræg eru fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Má þar nefna Mývatns- og Laxársvæðið en þar er að finna flestar andategundir í heiminum. Önnur votlendissvæði eru t.d. óshólmar Eyjafjarðarár og Svarfaðardalur. Á Norðurlandi eru nokkur þekkt fuglabjörg og má þar nefna Grímsey, Rauðanúp og Langanes og í Lundey á Skjálfanda og Mánáreyjum eru stórar lundabyggðir. Einnig er töluvert af lunda við utanvert Tjörnes þar sem auðvelt er komast í návígi við hann og skoða.
Á Langanesi eru heimkynni fjölda fuglategunda. Bjargfuglinn, langvía, rita og fýll, verpir þar í Skoruvíkurbjargi og víðar þar sem fótfestu er að fá í björgum. Súlan er einkar tígnarlegur fugl og stundum nefnd drottning Atlantshafsins. Á klettadranginum Stórakarli undir Skoruvíkurbjargi er annað mesta súluvarp landsins. Meðan byggð var á utanverðu nesinu var eitt mesta kríuvarp á landinu í Skoruvík en krían er farin þaðan eins og fólkið. Enn er mikið um kríu um mitt nesið.