Saga gamla bæjarins á Blönduósi varðveitist í gömlum húsakosti og svipmóti byggðarinnar. Í gamla bænum má finna gististaði og veitingastað. Tilvalið er að ganga um svæðið og fræðast um sögu húsanna á upplýsingaskiltum sem þar eru að finna og njóta sjávarniðarins þar sem Blanda rennur um ósa sína til sjávar.
Flýtilyklar
Blönduós er fjölmennasti þéttbýlisstaðurinn við Húnaflóa og liggur við þjóðveg 1 og því mikill fjöldi bíla sem þar fer í gegn ár hvert svo fjölbreytta þjónustu má finna við þjóðveginn. Í gegnum bæinn rennur ein helsta jökulá landsins, Blanda og í henni miðri er eyjan Hrútey, ein af náttúruperlum svæðisins. Eyjan er friðlýst og lokuð allri umferð vegna fuglavarps frá 20.apríl til 20.júní en á öðrum tímum er hægt að ganga um brú yfir í eyjuna og eru þar gönguleiðir. Gangan meðfram Blöndu niður að ósnum er sérlega rómantísk með útsýni yfir hafið að Strandafjöllum.
Auk náttúruskoðunar er ýmsa aðra afþreyingu að finna á svæðinu, stórkostlega vel útbúin sundlaug er á Blönduósi þar sem allt er til staðar og himneskt er að njóta kaffibolla í heita pottinum á meðan börnin leika sér í vaðlauginni eða renna sér í brautunum. Í nágrenni við sundlaugina er stór ærslabelgur, staðsettur á lóð Blönduskóla en auk hans er að finna þar kastala, sparkvöll og hjólabrettapalla. Mikið er um veiði í ám og vötnum í nágrenni Blönduóss auk þess er þar golfvöllur.
Heimilisiðnaðarsafnið er einn af helstu seglum svæðisins en þar er að finna hluta af atvinnusögu þjóðarinnar og þar má sjá hvernig sjálfsþurftabúskapur og heimilisiðja mæta nútíma viðskiptabúskap á seinni hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Í gamla Kvennaskólanum á Blönduósi er Textílmiðstöð Íslands en Blönduósbær er mikill textílbær.
Gamli bærinn á Blönduósi stendur við opið haf en þar standa ennþá mörg af þeim upprunalegu húsum sem byggð voru þegar sá hluti bæjarins var í blóma á árum áður. Upplýsingamiðstöð ferðamála í Austur Húnavatnssýslu er staðsett í gamla bænum. Einnig má þar finna Hillebrandshús, eitt elsta timburhús á Íslandi, reist 1877 á Blönduósi en áður hafði það staðið á Skagaströnd í 130 ár.
Fjölbreyttir gistimöguleikar eru á svæðinu, hótel, gistiheimili, sumarhús með heitum pottum og sauna auk vel búnu tjaldsvæði sem liggur við Blöndu. Veitingar fást á grillstöðum, kaffi- og veitingahúsum.
Á Blönduósi fara fram fjölbreyttir viðburðir eins og Prjónagleði, Smábæjarleikarnir, þar sem ungir krakkar keppa í fótbolta og bæjarhátíðin Húnavaka.

Áhugaverðir staðir og afþreying
-
Gamli bærinn
-
Hrútey
-
Íþróttamiðstöðin á Blönduósi
-
Leikvöllur við Blönduskóla
Glæsilegur leikvöllur staðsettur á lóð Blönduskóla, stærsti ærslabelgur landsins, sparkvöllur, körfuboltavöllur, hjólabrettapallar, risakastali og aparóla.
-
Tjaldstæðið í Glaðheimum
Glaðheimar reka tjaldsvæði í Brautarhvammi þar sem einnig eru til staðar sumarhús, opið er allt árið um kring og stutt er í alla þjónustu.
-
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi
Blönduós - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands