Það er einstök tilfinning að ganga um grasi gróna eyjuna í norðri, horfa út yfir óravíddir Íslandshafsins í norðri og sjá bjarma fyrir hæstu tindum nyrstu stranda Íslands í suðri. Á fáum stöðum er eins auðvelt að finnast eins og maður sé einn í heiminum jafnvel þótt hér eigi um 70 manns lögheimili sitt. Fuglabjargið ómar, lundar stinga höfði upp úr holum sínum og ærnar eru á beit. Grímsey er engu lík.

Ferðalagið út í eyju er í sjálfu sér dálítið ævintýri. Annaðhvort er flogið í um 20 mínútur með Norlandair frá Akureyri eða siglt í um 3 klst. með ferjunni Sævari frá Dalvík. Sumir stansa hér aðeins dagpart en aðrir kjósa að láta líða almennilega úr sér, komast í tengsl við almættið og vinda ofan af allri streitu með lengri dvöl. Í Grímsey er að finna tvö gistiheimili sem eru opin allan ársins hring en vissara er að panta pláss með nokkrum fyrirvara, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Í þorpinu er einnig að finna litla verslun með allar helstu nauðsynjavörur.

Eitt helsta aðdráttarafl Grímseyjar er lundinn en hann sest upp í björgin um miðjan apríl og hverfur að jafnaði aftur til hafs í byrjun ágúst. Norðurheimskautsbaugurinn er ekki síður magnað aðdráttarafl og leggja margir leið sína til Grímseyjar með það fyrir augum að stíga norður fyrir hann. Árið 2017 var vígt nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey og vakti athygli víða um heim. Um er að ræða steinsteypta kúlu, Orbis et Globus, sem er um 3 metrar í þvermál, vegur nærri 7 tonn, og er færð úr stað á hverju ári svo hún fylgi hreyfingu heimskautsbaugsins fram og aftur um nyrsta hluta Grímseyjar.

Það er gaman að heimsækja Grímsey þegar sumarið er í blóma og lundinn fyllir björgin, en það er ekki síður einstakt að koma þangað yfir vetrartímann þegar myrkrið er algjört, einangrunin nánast áþreifanleg og norðurljósin dansa um dimman himininn.

acw_grimsey_469.jpg
Grímsey
GPS punktar N66° 32' 46.546" W18° 0' 14.935"
Póstnúmer

611

Vefsíða www.grimsey.is

Grímsey - ferðaupplýsingar

Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands

Aðrir

Krían veitingastaður
Veitingahús
  • Grímsey
  • 611 Grímsey
  • 467-3112, 898-2058
Gallerí Sól
Kaffihús
  • Sólberg
  • 611 Grímsey
  • 467-3190, 467-3150
Náttúra
Orbis et Globus

Listaverkið Hringur og kúla / Orbis et Globus / Circle and Sphere er nýtt kennileiti fyrir heimsskautsbauginn eftir Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda sem vígt var árið 2017 eða 300 árum frá því að baugurinn kom fyrst inn á eyjuna.

Kúlan er 3 metrar í þvermál og er hugmynd listamannanna sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsíns þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.

Tillaga Kristins og Studio Granda sigraði í samkeppni um nýtt kennileiti sem efnt var til undir lok ársins 2013.

Listaverkið hefur vakið mikla athygli, bæði á Íslandi og erlendis. Hér að neðanverðu má finna hlekki á umfjallanir um það frá íslenskum og erlendum fjölmiðlum.

Göngutúr frá höfninni að listaverkinu er um 3.7 km og frá flugvellinum um 2.5 km. Reikna má með um 3 klst. í gönguna (fram og tilbaka) og mælt er með því að dvelja yfir nótt því hefðbundin stopp hjá ferjunni og áætlunarfluginu eru í knappasta lagi til að njóta og sjá það helsta í eyjunni. Meðal annars er mælt með því að rölta um þorpið, koma við hjá Fiskeminnismerkinu og lesa söguskiltin, líta við á veitingastaðnum Kríunni og/eða minnsta kaffihúsi Íslands á gallerí Gullsól. Einnig er mælt með að ganga suður að Vitanum og rölta meðfram strandlengjunni á suðvestur hluta eyjarinnar og skoða fallegt stuðlaberg auk minja um gamlar sjóbúðir. Á þeirri leið má einnig finna "Aldarsteinana" sem sýna staðsetningu heimskautsbaugsins árið 1717, 1817 og 1917. Á meðan á aðal fuglatímanum stendur, en hann er frá lokum apríl til byrjun ágúst, er gott að reikna með góðum tíma til fuglaskoðunar því það er sannarlega ríkulegt og heillandi í Grímsey.

Náttúra
Stuðlaberg í Grímsey

Í Grímsey eru margar fallegar stuðlabergsmyndanir. Þær fegurstu má finna á suðvesturhorni eyjarinnar m.a. Emelíuklappir

Basalt myndast við eldgos og ef það kólnar við ákveðin skilyrði myndast þessi sérstöku sexkanta kristallar sem kallast stuðlaberg.

Saga og menning
Grímseyjarkirkja

Miðgarðar er nyrsti kirkjustaður á Íslandi. Jón biskup Ögmundsson vígði kirkju í eyjunni snemma á elleftu öld. Var hún helguð Ólafi, þjóðardýrlingi Norðmanna, og skyldu þjóna við kirkjuna tveir prestar og syngja messu á hverjum degi en tvær messur á dag á sérstökum helgidögum. Síðan hefur dregið úr helgihaldi en þekkt eru nöfn 50 presta sem þar hafa þjónað. Eyjunni er nú þjónað af presti Dalvíkurprestakalls. Kirkjan er byggð 1867 en stækkuð og endurbætt árið 1932. Altaristaflan er gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og er eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci.

Miðgarðakirkja var byggð árið 1867 úr rekaviði. Kirkjan stóð þá nær Miðgarðabænum en var færð um lengd sína árið 1932 vegna eldhættu og um leið var byggður við hana kór og forkirkja með turni. Gagngerar endurbætur á kirkjunni fóru fram 1956 og hún var endurvígð.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði þjóðminjalaga.

Nánari upplýsingar um kirkjuna má sjá á gardur.is og í gögnum húsafriðunarnefndar.

Saga og menning
Grímseyjarviti

Grímseyjarviti er staðsettur á suðaustur horni eyjarinnar og er á meðal merkustu byggingum eyjarinnar. Í upphafi var honum stjórnað með gaslampa sem þurfti að kveikja og slökkva á með handafli. Nú til dags er vitinn rafvæddur og er sjálfvirkur.
Vitinn er 9,6 m að hæð, var byggður árið 1937 samkvæmt teikningu Benedikts Jónassonar verkfræðings. Ljóshúsið er sænskt.

Ferðamenn komast ekki inn í vitann en frá honum er þó gott útsýni yfir klettana og ríkulegt fuglalíf á austurströnd eyjunnar auk þess sem hann er vinsælt viðfangsefni ljósmyndara.

Hegranesviti og Raufarhafnarviti eru byggðir eftir sömu teikningu og Grímseyjarviti.

Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)
Sjá lista Sjá kort

Norðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar til útivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi. 

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

Skoða meira

Map Akureyri Eyjafjarðarsveit Grímsey Raufarhöfn Kópasker Þórshöfn Bakkafjörður Húsavík Mývatn Laugar Svalbarðseyri Grenivík Hjalteyri Hauganes Árskógssandur Dalvík Hrísey Ólafsfjörður Siglufjörður Hofsós Hólar Varmahlíð Sauðárkrókur Skagaströnd Blöndós Hvammstangi Laugarbakki Borðeyri