Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðalag uppá hálendið er ólíkt öllu öðru, að ganga upp að Öskjuvantni eða fara um hinar stórkostlegu Herðubreiðarlindir með Herðubreið í bakgrunninum. Til að komast uppá hálendið þarf að vera á vel útbúnum bílum eða nýta tækifærið og fara í skipulagða ferð með leiðsögumanni sem þekkir svæðið vel. Það er skemmtilegt að ferðast um þetta fjarlæga svæði með manneskju sem kann sögur af útlögum, smölum og þeim ævintýrum sem oft á tíðum áttu sér stað svo fjarri mannabyggðum. 

Kverkfjöll
Kverkfjöll erul megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls. Fjöllin eru nefnd eftir kverkinni sem skriðjökullinn Kverkjökull rennur niður úr. Í honum er stórfenglegur íshellir. Á svæðinu eru mjög áhugaverðar gönguleiður um eitt mesta háhitasvæði landsins. Frá svonefndri Austurleið (F910) liggur Kverfjallaleið (F902) suður til Kverkfjalla. Skammt austar liggur Hvannalindaleið (F903) suður í Hvannalindir og áfram þar sem hún kemur inn á veg F902. Vegir að Kverkfjöllum eru einungis opnir á sumrin frá lok júní til loka ágústs. Einungis er fært jeppum, hægt að sjá frekari upplýsingar á www.vegagerdin.is. .
Bárðarbunga
Bárðarbunga í Vatnajökli er stór og öflug megineldstöð.   Er hún jafnframt víðáttumesta eldstöð landsins, talin vera nálægt 200 km. löng og allt að 25 km. breið.  Eldstöðin er hulin ís og í henni leynist gríðarmikil jökulfyllt askja.  Önnur megineldstöð er í kerfinu, það er Hamarinn.  Vegna þess hve fjarri eldstöðin var byggðu bóli þá var fremur lítið var vitað um Bárðarbungu lengi vel en smámsaman varð mönnum ljóst að undir þessari miklu íshellu í norðvesturjaðri Vatnajökuls leyndist eitt öflugasta og hættulegasta eldfjall Íslands.   Hæsti blettur Bárðarbungu er 2009 metra hár og hún er því næsthæsta fjall landsins. Askjan í Bárðarbungu er um 70 ferkílómetrar , allt að 10 km. breið og um 700 metra djúp.  Umhverfis hana rísa barmarnir í allt að 1850 metra hæð en botninn er víðast í um 1100 metra hæð.  Askjan er algjörlega jökulfyllt. Mörg gjóskulög sem upphaflega voru eignuð öðrum eldstöðvakerfum í Vatnajökli hafa við síðari tíma rannsóknir reynst vera úr Bárðarbungu.  Einnig leiddi Gjálpargosið 1996 í ljós að samspil getur átt sér stað milli Bárðarbungu og Grímsvatna.  Þá hleypti kröftugur jarðskjálfti í Bárðarbungu, um 5 á Richter, af stað gosi á milli eldstöðvanna en kvikan var ættuð úr Grímsvatnakerfinu. Mikil jarðskjálftavirkni hefur lengi verið viðvarandi í Bárðarbungu án þess að til goss hafi komið.  Skjálftarnir staðfesta að þarna er bráðlifandi eldfjall.
Hveravellir
Hveravellir er jarðhitasvæði norðan undir Kjalhrauni, eitt af stærstu hverasvæðum landsins. Frægasti útilegumaður Íslands, Fjalla Eyvindur, dvaldist þar um skeið ásamt Höllu konu sinni. Á Hveravöllum er að finna náttúrulegan heitan pott.
Arnarvatnsheiði
Á Arnarvatnsheiði er óteljandi fjöldi vatna og er góð veiði í mörgum þeirra.
Askja
Askja er eldstöð, staðsett á hálendinu og er því aðeins aðgengileg yfir sumarmánuðina.  Í Öskju er Öskjuvatn en það er dýpsta stöðuvatn á Íslandi og við hliðina á Öskjuvatni er gígurinn Víti. Vatnið í gígnum er enn um 22 gráður og er vinsælt að baða sig þar, enda mikil upplifun. Náttúran er stórbrotin á þessum afskekta stað uppá hálendi Íslands.  Friðlýst 1978. Askja tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Vegur F88 liggur frá þjóðvegi 1 um Herðubreiðarlindir að Drekagili. Á leiðinni eru tvö vöð sem geta verið ófær minni jeppum. Frá Drekagili liggur vegur F894 að bílastæði nærri Öskju.
Möðrudalur
Möðrudalur liggur hæst bæja á Íslandi, 469 m.y.s. Ein landmesta jörð landsins. Þar hefur meira og minna verið í byggð frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Í Möðrudal er kirkja sem Jón Stefánsson (1880-1971) bóndi reisti á eigin kostnað til minningar um konu sína. Kirkjan var vígð árið 1949. Jón sá um alla smíði og málaði altaristöfluna er sýnir Krist halda Fjallræðuna. Taflan þykir mjög sérstæð. 
Herðubreiðarlindir
Við rætur Herðubreiðar eru Herðubreiðarlindir sem eru af mörgum taldar einn fegursti bletturinn á öræfum landsins, einkum þó vegna útsýnis og andstæðna náttúrunnar sem þar koma fram. Vegurinn að Herðubreiðarlindum er einungis fær yfir sumartímann.
Herðubreið
Fjallið Herðubreið er svo tignarlegt að það gengur undir nafninu drottning íslenskra fjalla. Fjallið er svo reglulegt, hreint í línum og fagurskapað að vart finnst líki þess í íslenskri fjallagerð.Vegurinn að Herðubreið er einungis fær yfir sumartímann.
Laugafell
Laugafell (879 m y.s.) og Laugafellshnjúkur (997 m y.s.) nefnast tvö fjöll úr móbergi, norðaustur af Hofsjökli. Í ás norðvestur frá Laugafelli eru laugarnar sem það er kennt við. Aðdráttarafl Laugafells felst í heita vatninu sem þar sprettur upp en öll hús á svæðinu er hituð upp með því. Heitustu uppspretturnar eru tæplega 50ºC. Þar er alger draumur að skríða í ylinn eftir skemmtilegan dag á fjöllum. Stutt er frá Laugafelli í aðra áhugaverða staði og má til dæmis nefna vötnin norðan við Hofsjökul þar sem upplagt er að skella sér í silungsveiði. Vegurinn er ekki fær fólksbílum.