Flýtilyklar
UPPLIFÐU NORÐURLAND
HEIMAMENN MÆLA MEÐ
-
Bæir og þorp
Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt.
Ferðabloggið
VIÐBURÐIR
Norðurland - kyrrð, orka, töfrar
Hvítserkur
Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu. Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin.
Heimskautsgerði
Heimskautsgerðið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessum vangaveltum kom hugmyndin að nota dvergatal Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi, gerði skissur og líkan sem stuðst er við.
Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál, 6 metra há hlið vísa til höfuðáttanna. Í miðju hringsins er 10 metra há súla á fjórum stöplum, sem áform eru uppi um að skarti kristaltoppi sem brýtur sólarljósið og varpar geislum sólar um allt Gerðið. Fjórir skúlptúrar eru inní Gerðinu hvert með sínu sniði. Pólstjörnubendir sem vísar á Pólstjörnuna. Hásæti sólar þar sem birtan í ákveðinni stöðu boðar sumarkomu. Geislakór er rými á milli hárra stöpla þar sem hægt verður að setjast niður, tæma hugann og endurnýja orku sína. Altari elds og vatns sem virkjar frumkraftana.
Inni Gerðinu verður árhringur dverga, steinar sem hver um sig tákna ákveðinn dverg. Þessir dvergar eru alls 72 talsins og er getið í íslenskum fornbókmenntum. Með þeim fjölda á hver dvergur sitt "vik" í árinu, ef miðað er við 5 daga viku. Með því að tengja nöfn dverganna við árstíðir, eins og til dæmis nafnið Vetrarfaðir á fyrsta vetrardag þá ganga nöfnin upp eftir því hvar í árinu þeir lenda sem myndar 72 vikur. Árhringur dverga er þannig orðinn einskonar almanak, þar sem hver dvergur ræður 5 dögum. Til dæmis Várkaldur í viku vors, Bjartur í viku sumars þegar nætur eru bjartar og Dvalinn í haustviku þegar allt leggst í dvala fyrir veturinn. Enginn hefur getað útskýrt tilurð eða hlutverk dverganna í Völuspá nema þeirra Austra, Vestra, Norðra og Suðra, sem halda uppi himninum. Í hugmyndafræði Heimskautsgerðisins hefur öllum dvergum verið gefið hlutverk og þeir verið persónugerðir. Þannig er hægt að tengja dvergana við afmælisdaga og mynda tengsl við þá. Dvergarnir eru svo hluti af tímabilum goðanna sem eru gömlu mánuðirnir. Þegar á árið er litið sést að það eru 6 dvergar sem tilheyra hverjum (gamla) mánuði og hver mánuður tilheyrir ákveðnu goði. Hliðin, Austri, Vestri, Norðri og Suðri, á milli stöplanna vísa mót höfuðáttunum, þannig að miðnætursólin sést frá suðurhliði gegnum miðsúlu og norðurhlið, á sama hátt og sólarupprás sést frá vesturhliði í gegn um miðsúlu og austurhlið. Samspil ljóss og skugga sýnir eyktamörkin.
Nánari upplýsingar um hugmyndafræði Heimskautsgerðisins er að finna á heimasíðunni www.heimskautsgerdi.is.
Heimskautsgerðið er 50 km frá Kópaskeri, 54 km frá Þórhöfn og 154 km frá Húsavík. Hér má sjá leiðina.
Kolugljúfur
Þegar ekið er fram Víðidal kemur maður að Kolugili sem stendur við Víðidalsá. Rétt neðan við bæinn rennur áin friðsæl niður í stórbrotið gljúfur sem heitir Kolugljúfur og þar eru fossar sem kenndir eru við tröllkonuna Kolu og heita Kolufossar.
Það er afar áhrifamikið að ganga út á útsýnispallinn við gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum. Sýn sem lætur engan ósnortinn.
Borgarvirki
Borgarvirki á Vatnsnesi er klettaborg úr 10-15 metra háu stuðlabergi. Virkið er gostappi og tilgáta er um að þar hafi verið héraðsvirki og barist til forna. Á Borgarvirki er útsýnisskífa og þar er mjög víðsýnt yfir stóran hluta héraðsins.
Einstakt náttúrufyrirbæri, endurbætt af mönnum fyrr á öldum.
Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss er talinn fegursti fossinn í Skjálfandafljóti. Fagrar stuðlabergsmyndanir ramma inn fossinn og þar er líka að finna marga skessukatla.
Vegur liggur alla leið að honum vestan Skjálfandafljóts.
Drangey
Drangey rís sæbrött fyrir miðjum Skagafirði. Frá henni er víðsýni mikið um byggðir fjarðarins. Hún er að mestu úr móbergi, hrikalegt hamravígi. Er hennar fyrst getið í Grettis sögu en þar hafðist útlaginn við seinustu ár sín ásamt bróður sínum Illuga og þrælnum Glaumi og þar var hann veginn, helsjúkur, í skála sínum af Þorbirni öngli og mönnum hans. Það mun hafa verið nær veturnóttum árið 1031.
Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þótt mest beri þar á svartfuglategundum: stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því. Lundinn grefur sér aftur á móti holur á brúnunum. Auk þess verpa rita og fýll í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar einnig griðland.
Daglegar ferðir eru í Drangey frá Sauðárkróki, frá 20. maí til 20. ágúst, en þess utan eftir samkomulagi við Drangey Tours.
Hveravellir
Hveravellir er jarðhitasvæði norðan undir Kjalhrauni, eitt af stærstu hverasvæðum landsins. Frægasti útilegumaður Íslands, Fjalla Eyvindur, dvaldist þar um skeið ásamt Höllu konu sinni. Á Hveravöllum er að finna náttúrulegan heitan pott.
Goðafoss
Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðadal. Hann er 12 metra hár og 30 metra breiður. Goðafoss er meðal stærstu fossa landsins og er jafnframt talinn einn sá fallegasti. Goðafoss skartar sínu fegursta allan ársins hring.
Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. Goðafoss á líka merkilegan sess í Íslandssögunni en Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði hinum heiðnu goðum í fossinn eftir að hafa ákveðið að Íslendingar skyldu taka upp kristindóm og hafna heiðnum siðum, svona opinberlega að minnsta kosti. Goðafoss er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is
Ásbyrgi
Ásbyrgi er eitt helsta náttúruundur Íslands og er staðsett í Vatnajökulsþjóðgarði. Lagðir hafa verið göngustígar um svæðið og sett upp lítil upplýsingaskilti við þá. Í Ásbyrgi er mikið af fallegum gróðri og mikið fuglalíf. Það er upplifun fyrir alla fjölskylduna að virða fyrir sér tignarlega hamraveggi og njóta kyrrðarinnar. Það er ekki síður skemmtilegt að fara í Ásbyrgi á haustin, þar sem fallegir haustlitirnir setja skemmtilegan svip á þetta einstaka náttúruundur. Ásbyrgi er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is
Langanes
Langanes teygist næstum 40 km út í hafið til norðausturs. Á nesinu skiptast á mýrar, holt og melar. Allgrösugt er þar víða og sauðlönd góð. Við Langanes hafa verið gjöful fiskimið frá fornu fari og fiskveiðar stundaðar af krafti. Þar er fjölbreytt fuglalíf. Mikil hlunnindi hafa þar löngum verið af reka, æðarvarpi og bjargfuglatekju. Sjaldgæfar jurtir vaxa á Langanesi svo sem flétta sem kallast klettakróða.
Undir Skoruvíkurbjargi er klettadrangur sem heitir Stórikarl. Þar er mesta súluvarp á Norðurlandi og einnig verpa þar margar aðrar fuglategundir t.d. langvía, ryta og fýll.
Langanes er tilvalinn staður til að njóta kyrrðarinnar útí náttúrunni.
Askja
Askja er eldstöð, staðsett á hálendinu og er því aðeins aðgengileg yfir sumarmánuðina. Í Öskju er Öskjuvatn en það er dýpsta stöðuvatn á Íslandi og við hliðina á Öskjuvatni er gígurinn Víti. Vatnið í gígnum er enn um 22 gráður og er vinsælt að baða sig þar, enda mikil upplifun. Náttúran er stórbrotin á þessum afskekta stað uppá hálendi Íslands.
Friðlýst 1978. Askja tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði.
Vegur F88 liggur frá þjóðvegi 1 um Herðubreiðarlindir að Drekagili. Á leiðinni eru tvö vöð sem geta verið ófær minni jeppum. Frá Drekagili liggur vegur F894 að bílastæði nærri Öskju.
Dettifoss
Dettifoss er aflmesti foss í Evrópu. Hann er 44 metra hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þeir eru ófáir, staðirnir eins og þessi, þar sem maður upplifir smæð mannsins eins skýrt og við þennan mikilfenglega foss.
Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí.
Vestanmegin Jökulsár er vegur 862. Hann er fær öllum bílum að Dettifossi. Athugið að hluti af þessum vegi var áður flokkaður sem fjallvegur (frá Vesturdal að Dettifoss) en frá og með 2011 er vegurinn skilgreindur sem malarvegur og því fær öllum bílum. Vegfarendur þurfa þó að miðað ökuhraða við ástand vegarins hverju sinni.
Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður í lok maí/byrjun júní. Frá Dettifossi og áfram suður að þjóðvegi 1 er nýr, malbikaður vegur. Athuga þarf að þessi vegur er ekki í þjónustu frá 1.janúar til 30. mars. Dettifoss er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is