Verkefni 1: Kálfshamarsvík
Í Kálfshamarsvík á Skaga er heilmikil saga og sýnilegar minjar um þorp sem eitt sinn iðaði af lífi. Þar er viti sem er sterkt auðkenni fyrir svæðið og jafnframt einstakar stuðlabergsmyndanir, sem ásamt óviðjafnanlegu útsýni hafa gert staðinn að vinsælum viðkomustað. Með markvissri uppbyggingu á innviðum má bæði auka aðdráttarafl svæðisins, tryggja öryggi gesta og vernda náttúruna fyrir ágangi. Slík uppbygging styður einnig við þá framtíðarsýn að Kálfshamarsvík verði öruggur og aðgengilegur heilsársáfangastaður á Norðurlandi vestra.
Markmið: Markmið verkefnisins er að gera Kálfshamarsvík að aðlaðandi og aðgengilegum áfangastað fyrir alla, þar sem gestir geta upplifað náttúru og sögu svæðisins á öruggan og ábyrgan hátt. Með uppbyggingu innviða, svo sem útsýnispalla og aðgengilegra stíga, verður svæðið öruggara og upplifun gesta bætt, á sama tíma og sérkenni svæðisins og ásýnd þess eru varin og styrkt til framtíðar. Uppbyggingin mun jafnframt gera Kálfshamarsvík að heilsársáfangastað á Norðurlandi vestra og styðja við vetrarferðamennsku á svæðinu.
Helstu verkliðir: Leggja á stíga með aðgengi fyrir alla frá núverandi bílastæði að vitanum og styrkja þær gönguleiðir sem skilgreindar eru í deiliskipulagi. Í dag er víða ófullnægjandi aðgengi vegna bleytu, hliðarhalla og rofs af völdum aukinnar umferðar ferðamanna, sem kallar á aðgerðir sem fyrst. Jafnframt verður hannað og komið upp tveimur útsýnispöllum á völdum stöðum og bryggjan endurbyggð með viðeigandi öryggisviðmiðum, þannig að gestir geti notið svæðisins á öruggan og ábyrgan hátt. Að lokum er gert ráð fyrir hönnun og byggingu nýs bílastæðis og uppsetningu þjónustuhúss til að styðja við aðgengi, dvalartíma og góða upplifun gesta.
Verkefni 2: Þrístapar – Upplýstur og öruggur ferðamannastaður
Þrístapar eru sögulegur áfangastaður við þjóðveg 1 í Húnabyggð, þar sem síðasta aftaka á Íslandi fór fram árið 1830. Á svæðinu er í dag bílastæði, stígur, upplýsingaskilti og salerni – en engin lýsing. Verkefnið felur í sér uppsetningu raflýsingar við bílastæði, göngustíg, aftökustað og upplýsingarskilti á Þrístöpum. Með framkvæmdinni verður svæðið gert aðgengilegt og örugt fyrir gesti allt árið, óháð birtu eða árstíð. Lýsingin á svæðinu mun styrkja upplifun ferðamanna með því að gera sögusviðið sýnilegt og öruggt, og skapa þannig heilstæða, jákvæða, og eftirminnilega heimsókn á þennan sögulega stað.
Markmið: Markmið verkefnisins er að bæta öryggi, aðgengi, og upplifun gesta á Þrístöpum, sögulegum áfangastað þar sem síðasta aftaka á Íslandi fór fram árið 1830, með uppsetningu raflýsingar við bílastæði, göngustíg, aftökustað og upplýsingaskilti. Lýsingin tryggir að svæðið verði öruggt og aðgengilegt fyrir alla, allan sólarhringinn og allt árið, sem gerir ferðamönnum kleift að upplifa sögusvið Þrístapa á öruggan og upplýsandi hátt.
Með bættri lýsingu og aðstöðu verður Þrístapum jafnframt breytt í heilsársáfangastað á Norðurlandi vestra, sem styður við vetrarferðamennsku, aukin dvalartíma ferðamanna og aukinni aðsókn yfir árið. Staðsetning við þjóðveg 1, þar sem um 700.000 ökutæki fara árlega um, gerir verkefnið sérstaklega mikilvægt þar sem það nýtir tækifærið til að laða ferðamenn til viðkomu, hægja ferðinni og skapa jákvæða og eftirminnilega upplifun sem hefur ávinning bæði fyrir gesti og samfélagið á svæðinu.
Helstu verkliðir: Hönnun og uppsetning raflýsingar á bílastæði, meðfram sögustíg og við upplýsingarskilti.
Verkefni 3: Bakkar Blöndu – Örugg ferðamannaleið allt árið
Verkefnið snýst um uppbyggingu nýrrar göngu- og hlaupaleiðar sem byggir á eldri grunni og tengir saman helstu náttúru- og menningarperlur Blönduóss. Leiðin mun tengja Hrútey, friðlýsta eyju í Blöndu, við gamla bæjarkjarnann, ströndina með einstöku sólarlagi og aðra áhugaverða staði meðfram ánni. Með framkvæmdinni verður til samfelld og aðgengileg gönguleið meðfram bökkum Blöndu, og göngubrú yfir ósinn myndi gera leiðina heildstæða og skapa sterkari tengingu milli bæjarhlutanna sitt hvoru megin árinnar, sem styrkir flæði og upplifun svæðisins í heild. Í framhaldinu skapast jafnframt möguleikar á að þróa leiðir meðfram sjávarsíðunni til norðurs og suðurs.
Markmið: Markmið verkefnisins er að skapa samfellda og aðgengilega göngu- og hlaupaleið meðfram bökkum Blöndu og í Hrútey, sem tengir saman náttúru, sögu og byggð Blönduóss. Hönnun göngubrúar yfir ósinn tengir saman bæjarhlutana sitt hvoru megin Blöndu og gerir leiðina að samfelldri heild.
Markmiðið er einnig að styrkja vellíðan íbúa, auka útivist og dvalartíma gesta og vernda viðkvæmt svæði með skipulögðum og vel hönnuðum gönguleiðum, þannig að leiðin verði aðlaðandi og notadrjúg fyrir einstaklinga jafnt sem fjölskyldur, allt árið.
Helstu verkliðir: Öryggisúttekt á gönguleiðum við bakka Blöndu, hönnun, aðlögun og útfærsla göngustíga við Blöndu, hönnun göngubrúar við ósinn, gerð deiliskipulags fyrir Hrútey og göngubrú yfir á suðurbakkann og gerð deiliskipulags fyrir brúarstæði og gönguleiðir við ósinn.