Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Samstarfsfyrirtæki Markaðsstofu Norðurlands taka þátt í samstarfi fyrirtækja og sveitarfélaga á Norðurlandi í ferðamálum í samræmi við samstarfssamning og greiða árgjald til MN. Einungis fyrirtæki sem hafa öll tilskilin leyfi frá Ferðamálastofu og öðrum yfirvöldum til rekstrar í atvinnugreininni geta orðið samstarfsfyrirtæki MN.

Við teljum að það sé hagur fyrirtækjanna, starfsgreinarinnar og leið til öflugrar markaðssetningar að sem allra flest starfandi ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi séu með, því þá verður slagkraftur okkar mestur. Með samstilltu átaki okkar allra munum við auka vægi Norðurlands enn frekar í tengslum við markaðssetningu Íslands, fjölga ferðamönnum á Norðurlandi allt árið og síðast en ekki síst lengja dvöl þeirra á Norðurlandi. 

Hægt er að fylgjast með starfi MN á Facebook og á vefsvæðinu www.northiceland.is/is/mn

Skráning í samstarf

Hvað felst í samstarfinu?

Birting sem samstarfsfyrirtæki í þjónustulista á vefsíðu MN, www.nordurland.is og www.northiceland.is. Þar geta samstarfsfyrirtæki verið með 3 myndir og texta um sig, auk beins tengils á vefsíðu fyrirtækjanna, tengingu inn við umsagnir á Trip Advisor og tengingu á samfélagsmiðla. Einnig er mögulegt að vera með sérstakan texta fyrir mismunandi flokka sem fyrirtækið er skráð í.

MN sinnir kynningum til bæði neytenda og fyrirtækja í gegnum rafræna miðla. Allir helstu samfélagsmiðlar eru nýttir í takti við þau markaðssvæði sem sótt er á. Vefsíðu er skipt upp í takti við áherslur í kynningu á hverju ári ásamt því að sérvefir halda utan um stærri verkefni. MN kynnir samstarfsfyrirtæki sín á ferðasýningum og vinnusmiðjum hérlendis og erlendis. Einnig vinnum við með samstarfsfyrirtækjum að móttöku blaðamanna og ferðaskrifstofa sem koma norður. 

Samstarfsfyrirtæki MN geta leitað eftir ýmsum upplýsingum og fengið leiðbeiningar hjá starfsmönnum markaðsstofunnar um markaðssetningar- og kynningarmál. Einnig fá þau afslátt af þáttökugjöldum á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar, námskeiðum, fundum og ráðstefnum sem haldið er á vegum Markaðsstofunnar.

MN starfar náið með Íslandsstofu, Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöð Ferðamála og öðrum þeim aðilum sem vinna að eflingu ferðaþjónustu, atvinnuuppbyggingar og jákvæðrar ímyndar Norðurlands. Fundir eru haldnir reglulega með ferðamálafulltrúum á Norðurlandi. Samstarfsfyrirtæki hafa hag af samstarfi Markaðsstofunnar við alla helstu kynningaraðila íslenskrar ferðaþjónustu. Markaðsstofan aðstoðar meðlimi sína við að finna samstarfsaðila bæði innan starfssvæðisins og utan þess. MN hvetur til og leitast við að styðja nýsköpun í ferðaþjónustu á starfssvæði sínu í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækin, ferðamálafulltrúa svæðanna, atvinnuþróunarfélögin, sveitarfélögin og stjórnvöld.

Árgjald

Fyrirtæki Samtals greitt á ári
1-2 ársverk 60.325 kr.
3-4 ársverk 91.258 kr.
5-6 ársverk 153.257 kr.
7-10 ársverk 199.724 kr.
11 ársverk eða fleiri 292.496 kr.


Verðskrá gildir frá 1. febrúar 2024.

Tekið skal fram að reikningar eru sendir í rafrænni birtingu nema óskað sé eftir öðru. Greiðslu er skipt niður í 4 hluta yfir árið sem greiðast í febrúar, maí, ágúst og nóvember. Fyrir aðra tilhögun eða spurningar skal beina samskiptum á bokhald@nordurland.is. 

Ársverk eru reiknuð miðað við hverja 12 mánuði sem einstaklingar skila samanlagt í vinnu. Margt starfsfólk getur því skilað einu ársverki. Dæmi 1 stöðugildi í 12 mánuði og 8 stöðugildi í 3 mánuði gerir þá 36 mánuðir og því 3 stöðugildi. Ekki er hægt að hafa minna en 1 stöðugildi.

Verðskrá uppfærist árlega. Miðað er við meðaltal ársbreytingar hvers mánaðar á vísitölu neysluverðs frá fyrra ári.

Hvað þarf til að koma í samstarf?

Skráðu fyrirtækið í samstarf hér 

• Upplýsingar um að þú viljir koma í samstarf og áætlaðan fjölda ársverka í fyrirtækinu.
• Nafn fyrirtækis, kennitölu, tengilið, vefsíðu, netfang, símanúmer og heimilisfang.
• 3 góðar myndir af fyrirtækinu þínu og öðru sem lýsir starfseminni.
• Lýsandi texta um starfsemina á íslensku og ensku.

Fyrirtæki þurfa að vera skráð í gagnagrunn hjá Ferðamálastofu til að birtast á heimasíðu MN. 

Hægt er að sjá upplýsingar um gagnagrunninn og skrá fyrirtækið í þar inn með því að smella hér.

Það er skrifstofa  Ferðamálastofu á Akureyri sem sér um skráningar á listann, sími 535-5510 og netfangið upplysingar@ferdamalastofa.is  

Merki samstarfsfyrirtækja

Merki samstarfsfyrirtækja má sjá hér að neðan og einnig má ná í þau á síðunni Merki og útgefið efni í fleiri gerðum.

Merki samstarfsfyrirtækja MN á íslensku Merki samstarfsfyrirtækja MN á ensku

Ljósmyndir og myndbönd 

Samstarfsfyrirtæki hafa aðgang að miklu efni sem MN hefur framleitt. Efnið er bæði formi ljósmynda og þá aðallega myndbanda af öllu svæðinu. MN hefur lagt mikla áherslu á að framleiða gæða efni sem nýtist fyrirtækjum á svæðinu við þeirra markaðsaðgerðir. Markaðsstofan nýtir vefinn Upplifðu.is til þess að vinna með efni. Samstarfsfyrirtæki fá aðgang að bakenda á vefnum þar sem hægt er að klippa saman myndefni eftir þörfum.

Einnig er hægt að fá aðgang að myndabanka. Myndabankinn er hýstur í kerfi Brandcenter, brandcenter.io/north, og samstarfsfyrirtæki geta sótt um aðgang með því að smella hér. 

Hvernig getur þú fengið sem mestan ávinning af samstarfinu?

Mættu á fundi og viðburði á vegum MN og taktu virkan þátt í umræðum. Láttu okkur vita af þeim málum sem þú vilt að sé lögð áhersla á í markaðssetningu á Norðurlandi og hagsmunabaráttu fyrir svæðið. Sendu rafræna bæklinga á info@nordurland.is í hvert sinn sem þú uppfærir efnið þitt.  Láttu okkur vita um allar nýjungar hjá þér. Leyfðu okkur reglulega að heyra í þér hverjar eru helstu áherslur í þínum rekstri. Farðu yfir hvernig fyrirtækið þitt birtist á vefnum nordurland.is og northiceland.is amk einu sinni á ári. Láttu okkur vita ef þú vilt breyta texta eða uppfæra myndir. Settu samstarfsmerki MN á heimasíðuna þína og bæklinga. Sameiginlega næst góður árangur í að kynna Norðurland. 

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er árleg ferðakaupstefna sem haldinn er af Markaðsstofum landshlutanna.

Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni.

Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamótum gefst kostur á kynna sér það sem mismundi landshlutar eru að bjóða uppá.

Einungis samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna geta tekið þátt sem sýnendur í Mannamótum. Öllum er frjálst að mæta á viðburðinn og enginn aðgangseyrir er fyrir gesti.

Allar nánari upplýsingar um skráningu, til sýnenda og til gesta má finna með því að smella hér.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi hefur verið haldin árlega frá árinu 2005, að undanskildu 2020. Hátíðin er sett upp til þess að skapa tengsl og efla samstarf í norðlenskri ferðaþjónustu, sjá hvað aðrir eru að gera og hvernig þeirra starfsemi hefur gengið.

Öllum samstarfsfyrirtækjum MN gefst kostur á að taka þátt í hátíðinni, sem stendur yfir í heilan dag og endar með kvöldverði og skemmtun. Á hverju ári er farið í heimsókn til fyrirtækja innan ákveðins svæðis yfir daginn, þar sem starfsemi þeirra er kynnt og þátttakendur geta jafnvel fengið að prófa afþreyingu og upplifanir. Dagskráin er þó nokkuð þétt og yfirgripsmikil en gleðin er ávallt í fyrirrúmi.

Hátíðin er haldin í seinnipart október og sem fyrr segir er hún einn dagur, en gestir eru hvattir til þess að nýta sér gistingu sem er í boði á svæðinu.


Smelltu hér til að lesa meira og sjá myndir

Sagan

Undirbúning að stofnun markaðsskrifstofunnar má rekja allt aftur til ársins 1999, og til eru gögn frá janúar 2001 þar sem er verið að funda, að frumkvæði Ferðamálasamtaka Norðurlands eystra um það hvernig staðið verði saman að sameiginlegri markaðssetningu landshlutans undir merkjum sérstakrar markaðs-og kynningarskrifstofu fyrir Norðurland. Þátttakendur eru fulltrúar sveitarfélaga, samtaka þeirra og ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Forsagan er sú að umræða hafði verið nokkuð lengi innan greinarinnar um samstöðuleysi á svæðinu og þörf á kröftugri aðkomu heimamanna að markaðs-og sölumálum greinarinnar. Haustið 2001 var, fyrir tilstuðlan Ferðamálasamtaka Norðurlands eystra og Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra ákveðið að fela Háskólanum á Akureyri að gera úttektarskýrslu um málið. Í október 2002 var ákveðið að hefjast handa við framkvæmd hugmyndarinnar, sem síðan var kynnt fyrir öllum hagsmunaaðilum á svæðinu frá Hrútafirði að Bakkaflóa, með kynningarfundum og dreifingu upplýsingarits. Verkefnið var einnig kynnt fyrir þingmönnum svæðisins, lykilmönnum í ferðaþjónustu og markaðsfólki hjá Ferðamálaráði og Flugleiðum og ferðaskrifstofum erlendis.
Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi (MFN) var formlega stofnuð 1.júlí 2003, sem hlutafélag í jafnri eigu Ferðamálasamstaka Norðurlands eystra og Ferðamálasamstaka Norðurlands vestra.

Gerðir voru þjónustusamningar við all-flest sveitarfélögin á Norðurlandi, auk þess sem hafist var handa við gerð samstarfssamninga við fyrirtæki í ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Markmið MFN sem sett voru fram við stofnun hennar:

 • Að styrkja ímynd Norðurlands sem vænlegs ferðamannasvæðis.
 • Að samræma markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og gera ferðaþjónustufyrirtækin á Norðurlandi sýnilegri.
 • Að vera vettvangur samstarfs og umræðu um ferðaþjónustu á Norðurlandi.
 • Að hvetja til nýsköpunar í ferðaþjónustu á svæðinu.
 • Að styrkja samstarf upplýsingamiðstöðvar á Norðurlandi og samræma upplýsingagjöf til ferðamanna.
 • Að halda vöku fyrir sveitarfélögin um nýjungar og þróun í ferðaþjónustu á hverjum tíma.
 • Að koma á samstarfi milli hins opinbera og einkaaðila um að móta stefnu fyrir svæðið og kynna það út á við.
 • Að leitast við að lengja ferðamannatímann, og styrkja fyrst jaðartímann.

Hlutverk/ Skilgreining á þjónustu:

 • Sjá um almenna kynningu á Norðurlandi sem ferðamannasvæðis í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækin og sveitarfélögin á svæðinu
 • Framleiða og dreifa kynningarefni um ferðaþjónustu á Norðurlandi.
 • Útbúa og annast vefsíðu fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og tengja inn á hana vefsíður sveitarfélaga eftir óskum þeirra.
 • Samræma stefnumótun í ferðaþjónustu fyrir Norðurland í samvinnu við ferðaþjónustufyrirtækin og sveitarfélögin á Norðurlandi.
 • Framleiða og dreifa kynningarefni, samræma og sjá um almenna kynningu á Norðurlandi sem ferðamannasvæði í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækin.
 • Samræma kynningarmál upplýsingastöðva á svæðinu.
 • Aðstoða hagsmunaaðila við að útbúa, setja saman og markaðssetja nýjungar og viðburði á svæðinu.

Þau gildi sem liggja til grundvallar allri starfsemi Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi eru:

 • Fagmennska
 • Samstarf
 • Framsýni

 

Starfsáætlun MN 2024

Hér að neðan er hlekkur á starfsáætlun Markaðsstofu Norðurlands fyrir árið 2024. Þar er farið yfir helstu verkefni og áherslur ársins.

Smelltu hér til að skoða starfsáætlun.