Verkefni 1: Heimskautsgerðið á Raufarhöfn
Að ljúka uppbyggingu Heimskautsgerðisins sem hefur verið í byggingu hátt í tvo áratugi. Fullklárað verk getur haft mikið aðdráttarafl líkt og Stonehenge í Bretlandi og skipt sköpum fyrir byggð á Raufarhöfn og nágrenni. Markmið er að ljúka uppsetningu þriggja skúlptúra, en búið er að reisa einn af fjórum næstu skúlptúrum umhverfis miðju verksins.
Helstu verkliðir: Skúlptúrar innan gerðisins, helluleggja gólfflötinn, hlaða vegg utan um gerðið og ganga betur frá móttökuaðstöðu fyrir ferðamenn.
Verkefni 2: Gönguparadísin Húsavík, viðhald göngustíga og merkingar
Gönguparadísin Húsavík, viðhald á göngustígum og merkingar í takt við gönguleiðakort á heimasíðu Norðurþings. Markmið verkefnisins er að viðhalda stígagerð sem ráðist var í af miklum myndarskap í kringum aldamót. Mikill áhugi er hjá ferðafólki á að nýta gönguleiðir í bland við stóraukna notkun heimafólks.
Helstu verkliðir: Breikkun á gönguleiðum og lagning efnis í gönguleiðir, auk merkinga.
Verkefni 3: Kópasker, göngustígar og merkingar
Breikkun og lagning malarefnis í gönguleiðir á Kópaskeri, auk merkinga. Markmið verkefnisins er að merkja og viðhalda stígum í og við þorpið. Kópasker býður upp á mjög fallegar gönguleiðir, sem merkja þarf betur fyrir íbúa jafn sem ferðamenn á svæðinu.
Helstu verkliðir: Breikkun stíga og lagning malarefnis þar sem við á. Stígar utan við þorpið verða merktir betur svo notendur eigi auðveldara með að fylgja fyrirfram ákveðinni gönguleið. Uppsetning skilta innan þorpsins á völdum stöðum þar sem fram koma tegundir fugla, sela og annarra dýra sem koma má auga á við gönguleiðina. Tengja nýlegt Fuglaskoðunarskýli frá Fuglastíg á Norðausturlandi við núverandi gönguleiðir.
Verkefni 4: Veggurinn, áningarstaður í Kelduhverfi
Uppbygging áfangastaðar í Kelduhverfi. Styrking á afþreyingu á Demantshringnum og einnig á Norðurstrandarleið (Arctic Coast Way). Markmið verkefnisins er að koma upp áfangastað við Vegginn í Kelduhverfi, en þar má sjá glögg merki flekaskilanna sem einkenna landið.
Helstu verkliðir: Að útbúa bílastæði, setja upp skilti með jarðfræðiupplýsingum, borð og bekki. Að merkja gönguleið undir Veggnum.
Verkefni 5: Norðurljósaslóð Húsavík
Markmið verkefnisins Norðurljósaslóð er að skapa heillandi og myndræna gönguleið í skógræktinni í Skálabrekku ofan Húsavíkur með lýsingu innblásinni af norðurljósum, sem lýsir upp leiðina í gegnum skóginn yfir vetrarmánuðina. Lýsingin verður hönnuð til að vera bæði örugg og umhverfisvæn án þess að raska náttúrunni eða eyðileggja upplifunina af kyrrð og myrkri. Norðurljósaslóð verður sjónræn upplifun sem fólk mun ljósmynda og deila og þannig skapa lífræna markaðssetningu fyrir Húsavík á samfélagsmiðlum.
Leggja þarf rafmagn úr byggðinni og upp á göngustíg því verkefnið er að lýsa með litakösturum á trjávegginn sem er til staðar meðfram gönguleiðinni. Kastararnir verða á tólf 3-5 m háum staurum sem verða settir niður með jöfnu millibili, rafmagn tengt á milli og stýring sett upp í tengiskáp.
Helstu verkliðir: Hönnun og undirbúningur, skurðgröftur, rafmagnslagnir, niðursetning staura, uppsetning lampabúnaðar, uppsetning tengiskáps og stýringar.