Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Náttúra

Náttúrustaðir

Mikilfengleg náttúra Norðurlands skilur engan eftir ósnortinn. Þar er að finna stórkostleg gljúfur eins og Kolugljúfur og Jökulsárgljúfur, klettadrangar við strendur eins og Hvítserk og Stórakarl, ummerki eftir eldsumbrot í Mývatnssveit og staði á borð Ásbyrgi sem myndaðist við jökulhlaup fyrir þúsundum ára. Fossarnir eru margir og ber hæst að nefna aflmesta foss Evrópu, Dettifoss, hinn sögulega Goðafoss og hinn fallega Aldeyjarfoss. Fjöllin umkringja allt og fjallgöngufólk getur fundið sér gönguleiðir við sitt hæfi, svo allir geta notið náttúru Norðurlands.

Fossar á Norðurlandi

Á Norðurlandi er að finna marga fossa, en þó eru kannski tveir þeirra sem eru þekktari en aðrir. Annar þeirra er nátengdur sögu kristni á Íslandi en hinn er sá aflmesti í Evópu, Goðafoss og Dettifoss. Aldeyjarfoss er einn fallegasti foss landsins og afar vinsæll til ljósmyndunar, og Kolufossar eru minna þekktir en þó einhver sú mesta náttúruperla sem hægt er að finna á Norðurlandi með þröngt og fallegt gljúfur vel falið í landslaginu ekki langt frá þjóðvegi 1. Hið sama má segja um Reykjafoss, að hann sé vel falinn í Skagafirði skammt frá Vindheimamelum.

Hálendi Norðurlands

Ferðalag uppá hálendið er ólíkt öllu öðru, að ganga upp að Öskjuvantni eða fara um hinar stórkostlegu Herðubreiðarlindir með Herðubreið í bakgrunninum. Til að komast uppá hálendið þarf að vera á vel útbúnum bílum eða nýta tækifærið og fara í skipulagða ferð með leiðsögumanni sem þekkir svæðið vel. Það er skemmtilegt að ferðast um þetta fjarlæga svæði með manneskju sem kann sögur af útlögum, smölum og þeim ævintýrum sem oft á tíðum áttu sér stað svo fjarri mannabyggðum. 

Fjöll á Norðurlandi

Fjöllin á Norðurlandi er há og tignarleg. Þau eru misjöfn eins og þau eru mörg og er hægt að njóta þeirra allt árið. Móbergsstapar, sprengigígar og margra milljóna ára bergmyndanir setja svo sannarlega svip sinn á umhverfið. 

Eyjur

Það er auðvelt að ferðast til eyjanna fyrir utan norðurströnd Íslands. Taka sér tíma og upplifa menninguna, skoða dýralífið og slaka á í rólegu umhverfi.  

Fjörur á Norðurlandi

Það er fátt skemmtilegra en að finna barnið í sjálfum sér og leika í fjörunni. Þar er oftar en ekki að finna marga skemmtilega steina, gömul bein, rekavið og ef maður er heppinn gæti maður rekist á flöskuskeyti. Svo er auðvitað mikið fjör að leika sér í flæðarborðinu og sulla í vatninu. Það er um að gera að keyra aðeins útfyrir þjóðveginn og skoða fjörurnar á Norðurlandi.

Útivistarsvæði á Norðurlandi

Norðurland er kjörinn staður fyrir allskonar útivist og eru fjölmörg svæði sem bjóða uppá skemmtilega möguleika til útiveru. 
Göngustígar og hjólastígar, lítil rjóður, lækir og nestisbekkir, gljúfur og fjöll. Hér er fjölbreytnin mikil og allir ættu að geta átt frábæran dag í notarlegu umhverfi.  

Jarðhitasvæði

Á Norðurlandi eru mörg jarðhitasvæði og sum þeirra eru hreinustu gersemar frá náttúrunnar hendi. Hálendið og Mývatnssveit gefa þér tækifæri til að ganga um sprungubelti og heyra kraftinn koma frá iðrum jarðar.  Ekki gleyma að anda að þér hressandi brennisteinslyktinni um leið og þú virðir fyrir þér fallegt landslagið.

Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Með þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, tryggjum við rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru.