Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Á Norðurlandi er að finna marga fossa, en þó eru kannski tveir þeirra sem eru þekktari en aðrir. Annar þeirra er nátengdur sögu kristni á Íslandi en hinn er sá aflmesti í Evópu, Goðafoss og Dettifoss. Aldeyjarfoss er einn fallegasti foss landsins og afar vinsæll til ljósmyndunar, og Kolufossar eru minna þekktir en þó einhver sú mesta náttúruperla sem hægt er að finna á Norðurlandi með þröngt og fallegt gljúfur vel falið í landslaginu ekki langt frá þjóðvegi 1. Hið sama má segja um Reykjafoss, að hann sé vel falinn í Skagafirði skammt frá Vindheimamelum.

Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss er talinn fegursti fossinn í Skjálfandafljóti. Fagrar stuðlabergsmyndanir ramma inn fossinn og þar er líka að finna marga skessukatla.  Vegur liggur alla leið að honum vestan Skjálfandafljóts.
Dettifoss
Dettifoss er aflmesti foss í Evrópu. Hann er 44 metra hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þeir eru ófáir, staðirnir eins og þessi, þar sem maður upplifir smæð mannsins eins skýrt og við þennan mikilfenglega foss. Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí. Vestanmegin er malbikaður vegur frá þjóðvegi 1 og alla leið að Ásbyrgi. Athuga þarf að þessi vegur er ekki í þjónustu frá 1.janúar til 30. mars. Dettifoss er hluti af Demantshringnum. 
Selfoss
Fossinn Selfoss er í ánni Jökulsá á Fjöllum og er einungis nokkur hundruð metrum sunnan við Dettifoss. Hann er 10 metra hár en mjög breiður. Tilvalið er að leggja á bílastæðinu við Dettifoss og taka auðvelda göngu að fossunum tveimur. Fleiri fallegar náttúruperlur eru í Jökulsárgljúfrum svo sem Hljóðaklettar og Hólmatungur.  
Reykjafoss
Reykjafoss er einn fallegasti foss í Skagafirði, staðsettur um 7 km. frá Varmahlíð. Reykjafoss er vel falinn frá veginum og oft talað um fossinn sem falinn fjársjóð. Leiðin að Reykjafossi: Keyrt er frá hringvegi 1 og beygt inn á veg númer 752. Frá vegi 752 er beygt inn á veg númer 753. Keyrt er yfir brúna og beygt til hægri þar á eftir. Keyrt er þangað til komið er að litlu bílastæði. Þaðan tekur við um fimm mínútna ganga að Reykjafossi.
Goðafoss
Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðadal. Hann er 12 metra hár og 30 metra breiður. Goðafoss er meðal stærstu fossa landsins og er jafnframt talinn einn sá fallegasti. Goðafoss skartar sínu fegursta allan ársins hring. Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. Goðafoss á líka merkilegan sess í Íslandssögunni en Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði hinum heiðnu goðum í fossinn eftir að hafa ákveðið að Íslendingar skyldu taka upp kristindóm og hafna heiðnum siðum, svona opinberlega að minnsta kosti. Goðafoss er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is 
Kolugljúfur
Þegar ekið er fram Víðidal kemur maður að Kolugili sem stendur við Víðidalsá. Rétt neðan við bæinn rennur áin friðsæl niður í stórbrotið gljúfur sem heitir Kolugljúfur og þar eru fossar sem kenndir eru við tröllkonuna Kolu og heita Kolufossar. Það er afar áhrifamikið að ganga út á útsýnispallinn við gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum. Sýn sem lætur engan ósnortinn. Góðar gönguleiðir eru meðfram gilinu sitthvoru megin, fara verður þó með varúð og hætta sér ekki of nærri gilinu. Þvergil lokar leið að vestanverðu svo ekki er hægt að ganga hringleið niður á Víðidalsbrúna.
Hvammsfoss
Vatnsdalur er 25 km langur dalur í Austur-Húnavatnssýslu. Í dalnum nam Ingimundur gamli Þorsteinsson land samkvæmt því sem segir í Landnámu, og bjó hann á Hofi. Skammt frá Hofi er að finna foss er nefnist Hvammsfoss, Hjallafoss, Lóufoss eða Mígandi - fer eftir því hver er spurður.  Hægt er að leggja bílnum við veginn og ganga uppað fossinum, sem er umlukinn stórkostlegu stuðlabergi.