Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Það er auðvelt að ganga upp að vitum sem standa við strandlengju Norðurlands. Þeir eru fjölbreyttir í útliti og oftar en ekki huggulegt að hlusta á sjávarniðinn og horfa á fuglalífið í leiðinni. 

Vitinn á Húsavík
Fallegur gulur viti. Hér er best að leggja bílnum við Sjóböðin á Húsavík og rölta svo nokkur skref að vitanum. 
Vitinn á Kópaskeri
Auðveld og falleg ganga frá þorpinu að vitanum þar sem hægt er að upplifa mikið fulgalíf og jafnvel sjá seli synda um. 
Digranesviti
Frá þorpinu á Bakkafirði liggur falleg gönguleið að Digranesvita. Gengið er á slóða alla leið. Vegalengd að vitanum er 3,5 km. Gott er að leggja upp í gönguna frá hliði skammt utan við þorpið og ganga að eyðibýlinu Steintúni og svo áfram eftir jeppaslóðanum. Gönguleiðin er falleg og útsýnið frá vitanum sömuleiðis en fara skal varlega þegar gengið er yfir klettabeltið að vitanum. Vitinn var byggður á árunum 1943-1947 og er ljóshæð hans 28 metrum yfir sjávarmáli. Hæð hans er 18.4 m. Frá Digranesvita er útsýnið yfir Bakkaflóann engu líkt.  
Vitinn á Raufarhöfn
Lítill vegur liggur frá Raufarhöfn og að vitanum sem stendur á háum klettum. Þar er bekkur svo hægt er að tilla sér og jafnvel njóta þess að borða nesti með stórkostlegu útsýni. 
Kálfshamarsvík
Kálfshamarsvík er lítil vík á norðanverðum Skaga. Þar eru sjávarhamrar úr fallega formuðu stuðlabergi er myndaðist fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára, sérkennileg náttúrusmíð. Í byrjun 20.aldar var útgerð og um 100 manna byggð í Kálfshamarsvík en um 1940 var byggðin komin í eyði.
Vitinn á Svalbarðseyri
Það er auðvelt að komast að vitanum þar sem hægt er að keyra að honum. Vitinn stendur í fjörunni á Svalbarðseyri sem er lítið þorp rétt utan við Akureyri. Hægt er að ganga meðfram strandlengjunni og er útsýnið yfir Eyjafjörð og Akureyri stórkostlegt. 
Grímseyjarviti
Vitinn er 9,6 m að hæð, var byggður árið 1937 samkvæmt teikningu Benedikts Jónassonar verkfræðings. Ljóshúsið er sænskt.Hegranesviti og Raufarhafnarviti eru byggðir eftir sömu teikningu og Grímseyjarviti. 
Fontur á Langanesi
Það er smá krókaleið sem þarf að fara til að komast að vitanum við Font á Langanesi. Það er vel þess virði að fara þessa krókaleið til að skoða vitann og að sjálfsögðu hið mikla fuglalíf sem er á Langanesi.  Vitinn er aðgengilegur á sumrin. 
Hraunhafnartangi
Hraunhöfn dregur nafn sitt af náttúrulegri höfn, sem þótti sæmilegt skipalægi áður fyrr og er hennar getið í heimildum frá 13. öld. Á Hraunhafnartanga er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu. Hraunhafnartangi og Rifstangi eru nyrstu tangar fastalands Íslands, aðeins rúmum kílómetra sunnan við norður heimskautsbaug. Gestir sem koma með mynd af sér við vitann geta fengið vottorð hjá þjónustuaðilum um að hafa komið á nyrsta odda landsins. Hafa þarf í hugsa að æðarfugl er alfriðaður á Íslandi og er öll umferð bönnuð í og við æðarvarpið frá 15.apríl til 14.júlí. 
Sauðanesviti
Sauðanesviti var byggður á árunum 1933-1934 og árið 1934 var hljóðvitinn jafnframt tekinn í notkun en hann sendi frá sér þrjú hljóðmerki í þoku og dimmviðri. Hljóðvitinn var tekinn úr notkun árið 1992. Vitarnir voru í í tveimur turnum; hljóðvitinn í þeim lægri en ljósvitinn í þeim hærri. Árið 1966 var fullt starf vitavarðar lagt niður. 
Selvíkurviti
Þegar keyrt er eftir vegi 76 í átt að Siglufirði er skilti merkt "Ráeyri" og þar er farið útaf veginum. Við endann á malarveginum er lítið bílastæði og hægt að ganga að vitanum. Selvíkurviti er aðgengilegur á sumrin.