Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

>

Norðurland er þekkt fyrir merkilega sögu og ferðaþjónustan þar er menningartengd. Möguleikar á að skoða fornar slóðir merkra Íslendinga eru
margir og anda þeirra má finna svífa yfir viðkomandi stöðum.
Á Norðurlandi eru fjölmörg söfn og fræðasetur sem mörg hver hafa vakið verðskuldaða athygli bæði innanlands og erlendis. Sem dæmi má nefna söfn eins og Textílsafnið á Blönduósi, Síldarminjasafnið á Siglufirði, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Hvalasafnið á Húsavík, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Nonnahús á Akureyri auk fjölda byggðasafna og listasafna. Öll eru söfnin óþrjótandi uppspretta fróðleiks, fegurðar og skemmtunar.

Sjón er sögu ríkari. Komdu, sjáðu, skoðaðu og umfram allt njóttu alls þess besta sem Norðurland hefur upp á að bjóða!

Upplifðu menningu með fjölskyldunni

Það er öllum hollt að ferðast með börnum og kenna þeim um mismunandi menningarheima, eða jafnvel sína eigin menningarheima. Þau horfa oft á hlutina öðrum augum en fullorðna fólkið og þess vegna verður heimsókn á safn öðruvísi upplifun þegar börn eru með í för. Kynnið börnum fyrir lífinu á Íslandi eins og það var hér á árum áður fyrir tíma snjallsíma og samfélagsmiðla, hvernig samgöngutæki hafa breyst í gegnum tíðina ásamt því að sýna þeim fjölbreytt dýralíf sem er að finna við norðurströnd Íslands.  

Handverk og hönnun

Íslenskt handverk á sér langa sögu. Íslenska lopapeysan er orðin þekkt um allan heim og aðrar vörur sem unnar eru úr íslensku ullinni. Íslenska hönnun er að finna víða um Norðurland, þar sem innblásturinn er sóttur í þjóðararf okkar og menningu.
Við Íslendingar erum ekki síður þekkt fyrir bókmenntasögu okkar, tungumálið, torfbæina og þjóðlegar hefðir. Við eigum ríka menningararfleifð sem við getum verið stolt af.  

Dýralíf

Náttúra Norðurlands er rík af dýralífi. Þar svamla hvalir og selir í sjónum, fuglar fljúga um og njóta sín vel í eyjum, klettum eða vötnum. Íslenski hesturinn finnst víða í sveitunum og er gaman að sjá hvernig feldurinn hans breytist eftir því sem kólnar í veðri. Hægt er að fara í ferðir til að upplifa þessi stórkostlegu dýr í sínu náttúrulega umhverfi en einnig eru fjölmörg áhugaverð söfn á Norðurlandi sem segja sögu dýranna og mismunandi hlutum sem tengjast þeim.  

Byggða- og minjasöfn

Getur þú ímyndað þér hvernig var að alast upp án þess að hafa rafmagn og rennandi vatn?
Að ganga um safn sem hefur að geyma minjar um horfna menningu, fær mann til að þakka fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugina. Samanburður við líf fólks frá upphafi byggðar á Íslandi er erfiður en jafnframt ótrúlega skemmtilegur og fræðandi, eitthvað sem hver einasti Íslendingur ætti að kynna sér!

 

Kirkjur á Norðurlandi

Það eru rúmlega 100 kirkjur á Norðurlandi, hver og ein með sinn sjarma og svo sannarlega þess virði að staldra við og skoða betur.
Saga kristni á Íslandi er jafn gömul byggð í landinu og tóku Íslendingar kistni árið 1000. Biskupsstóll var stofnaður á Hólum í Hjaltadal árið 1106. Þjóðkirkjan er opinbert trúfélag á Íslandi og rúm 60% landsmanna tilheyra henni.
Það er gamall siður að þegar fólk fór á fætur á morgnan gekk það út undir bert loft, sneri sér til austurs og signdi sig. Kallaðist þetta að sækja daginn. Á sama hátt hafa kirkjur frá fornu fari snúið í austur.