Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Leyndarmál Norðurlands

Fólk í ferðaþjónustu fær oft spurningar frá sínum gestum um hvað þeim finnist sjálfum skemmtilegast að gera, hvaða staði þeim finnst best að heimasækja eða hvaða matur úr héraði sé þeirra uppáhalds. Nokkrir Norðlendingar í ferðaþjónustu deila hér leyndarmálum sem geta nýst ferðalöngum í leit að nýjum hugmyndum fyrir ferðalagið sitt um Norðurland. 

Merkigil í Austurdal

Ég heiti Ingibjörg Elín og starfa sem verkefnastjóri og leiðsögumaður hjá SBA-Norðurleið. Ég er fædd og uppalin í Skagafirði og því er mér sérstaklega ljúft að segja frá einum af mínum uppáhaldsstöðum þar sem er Merkigil í Austurdal. Staðurinn er magnaður, náttúran hrikaleg og sagan vitnar um harða lífsbaráttu fólksins sem þar bjó. Um hálftíma akstur er frá þjóðvegi 1 fram Kjálka eftir vegi 759. Vegurinn endar á bílastæði við upphaf gönguleiðarinnar sem liggur yfir gilið og heim að bænum Merkigili sem hefur verið í eyði frá árinu 1997. Frá bænum er hvort heldur sem er hægt að ganga sömu leið til baka eða halda áfram að brúnni yfir Austari-Jökulsá sem oft er kölluð Monikubrú. Á leiðinni er tilvalið að rifja upp sögu Moniku Helgadóttur húsfreyju á Merkigili en um einstaka ævi hennar má lesa í bókinni Konan í dalnum og dæturnar sjö sem Guðmundur G. Hagalín skrifaði og var gefin út árið 1954.
-----------------------------------------------------
SBA-Norðurleið er rótgróðið fyrirtæki í fólksflutningum sem er með yfir 80 hópferðabifreiðar í rekstri. Starfsemin er fjölbreytt og sumarið 2020 var bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á dagsferðir um perlur Norðurlands með leiðsögn á íslenska, en þær verða aftur í boði í sumar.

 

 

Heitir pottar á Hauganesi

Ég heiti Elvar Reykjalín og rek Ektafisk á Hauganesi. Það er opinbert leyndarmál að heitu pottarnir í fjörunni á Hauganesi eru hrein snilld. Í þeim rúmast 30 manns og þar gutlar aldan við þá á flóði. Sandfjaran nær alveg að pottunum og er mjög aðgrunn svo þægilegt er að fara í sjóinn og vaða eða synda.
-----------------------------------------------------
Ektafiskur er rótgróið fyrirtæki þar sem 5. ættliðurinn er farinn að taka til hendinni. Ektafiskur sérhæfir sig í framleiðslu á útvötnuðum neytendavænum saltfiski tilbúinn í pottinn eða pönnuna.Fyrir 4 árum færðum við svo út kvíarnar og stofnuðum veitingahúsið Baccalá Bar.Samhliða því opnuðum við tjaldsvæði einungis 200 m frá veitingahúsinu.

Torfhús í Skagafirði

Ég heiti Evelyn Ýr, er leiðsögumaður og hef rekið ferðaþjónustu ásamt fjölskyldu minni á Lýtingsstöðum í Skagafirði í meira en 20 ár. Ég er svolítið gömul sál og lét drauminn minn um eigið torfhús verða að veruleika. Mér finnst rosalega gaman að taka á móti fólki, leiðsegja um torfhúsin okkar og leyfa þeim að upplifa þessa einstöku stemmningu sem skapast þegar hestar eru teknir inn í húsið.
-----------------------------------------------------
Á Lýtingsstöðum er boðið upp á hestaferðir fyrir vana og óvana, sveitaheimsóknir og gistingu í þremur gestahúsum. Innblásið af sögu bæjarins var hlaðið gamaldags hesthús, skemma og rétt úr torfi sem hægt er að skoða.

 

Póstleiðin í Siglufjarðarskarði

Gestur Þór heiti ég og er rekstrarstjóri Sóti Summits. Margir þekkja Skarðsveg sem er gamli vegurinn frá Fljótum yfir á Siglufjörð, en einnig er þar svo kölluð Póstleið. Færri hafa upplifað hið gífurlega útsýni sem er þar yfir Norður-Íshafið en einnig er landslagið mjög fjölbreytilegt, allt frá hraunhólunum og yfir í heiðarlandslag Tröllaskagans.
-----------------------------------------------------
Sóti Summits er nýtt fyrirtæki á Tröllaskaganum, en við höldum úti ferðaskrifstofu sem og hágæða gistingu á Sóta Lodge.

 

Hvalvík á Melrakkasléttu

Ég heiti Hildur og er nýbyrjuð að reka gistiheimili á Kópaskeri. Ég er oft spurð að því hvað sé markvert og skemmtilegt að skoða á svæðinu og þá svara ég alltaf fyrst: "Farið ofan í Hvalvík." Hér rétt fyrir utan þorpið, austar á Melrakkasléttunni er falleg fjara sem heitir Hvalvík. Aka þarf austur fyrir Snartarstaðanúp í ca 10 mínútur þar til komið er að bílaplani sem merkt er með gulum steinum. Ganga þarf síðan stuttan spöl áður en farið er ofaní fjöruna. Þar er að sjá fallegan klett með gati í gegn, fallega steina, stuðlaberg, fuglalíf og fleira. Dásamlegt að dvelja þarna í hvaða veðri sem er og njóta orkunnar út við ysta haf.
-----------------------------------------------------
Gistiheimilið Melar er fjölskyldurekið gistihús á Kópaskeri, litlu þorpi við Öxarfjörð norður við heimskautsbaug. Húsið, sem er elsta íbúðarhús þorpsins, hefur verið gert upp frá grunni en það var upprunalega byggt árið 1930.Á sjávarkambinum við gistiheimilið Mela eru heitir pottar, Bakkaböðin, en þar býðst gestum að fara í heita potta og sjóböð við óviðjafnanlegar aðstæður. Úr pottunum má ganga niður í fallega sandfjöru með þéttum svörtum sandi. Í fjörunni spígspora sandlóur og tjaldar. Þarna er kjörin aðstaða til að skella sér í sjóinn.

 

Aldeyjarfoss í Bárðardal

Ég heiti Ana og hef unnið hjá Ferðaskrifstofunni Nonna Travel í 26 ár. Minn leynistaður er í nokkurri fjarlægð frá Akureyri. Á hverju sumri fer ég í bíltúr austur að Goðafossi og í gegnum Bárðardal sem skartar sínu fegursta í haustskrúða og að Aldeyjarfossi, sem er minn uppáhaldsfoss, á mörkum hálendis. Þaðan er einnig gaman að ganga upp eftir ánni að Ingvararfossi. Sjón er sögu ríkari!
-----------------------------------------------------
Ferðaskrifstofan Nonni Travel var stofnuð 1988 og er þar með orðin að einni af elstu ferðaskrifstofum landsins. Nonni Travel hefur allt frá upphafi sérhæft sig í skipulagningu ferðapakka um allt Ísland og bætt síðar við ferðum til Grænlands og Færeyja.

 

Eyjafjarðarsveit

Ég heiti María og Hælið á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Hér innar í firðinum er Dyngjan hennar Höddu en þangað er ævintýralegt að koma. Svo er Smámunasafn Sverris Hermannssonar magnað fyrirbæri og ég hvet alla mína gesti til að leggja leið sína þangað. Svo er hér rétt fyrir ofan Hælið, dásamlegur göngustígur um Kristnesskóg og það er alveg tilvalið að týna sér í honum.
-----------------------------------------------------
Á Hælinu segjum við sögu berklanna á áhrifaríkan hátt. Hér er bæði sýning um þennan faraldur sem lagði allt of marga að velli sem og huggulegt kaffihús í anda liðins tíma þar sem hjónabandssælan og partarnir eru í sérflokki.

 

Álfar í Arnarnesi

Ég heiti Eygló og leyndarmálið mitt er að ég tala við álfa, huldufólk og aðra náttúruvætti. Á Arnarnesi tek á móti hópum í álfagöngur og fræðslur. Er með álfakort sem er hægt að kaupa og gestir geta farið í sína eigin ævintýraferð í hulduheima. Ég er einnig með skipulagðar helgar þar sem er áhersla er á hvíld, heilun og jóga og álfar koma og heila gesti.
-----------------------------------------------------
Arnarnes Paradís er í Eyjafirði. Við rekum ferðaþjónustu með gistingu fyrir 14 - 16 mans. Hægt að panta mat fyrir hópa bæði morgunmat og kvöldmat. Hér er hægt að njóta dásamlegra náttúru og léttra gönguleiða í fjöru, ef þú ert heppin þú getur séð hvali og seli leika sér. Í Arnarnesi Paradís er lögð áhersla á heilsusamlegan mat úr héraði.

Brúnir í Eyjafjarðarsveit

Ég heiti Hugrún og bý á Brúnum í Eyjafjarðarsveit. Úr salnum okkar er frábært útsýni, þar má sjá hæsta fjall á Norðulandi eða Kerlingu sem er 1538m y.s. Hún er talin 8-9 milljón ára gömul, hluti fornrar megineldstöðvar. Stutt er í góðar gönguleiðir til dæmis upp á Kerlingu, Uppsalahnjúk og Bryðjuskál sem skemmtileg þjóðsaga fjallar um.
---------------------------------------
Brunirhorse er lítið fjölskyldufyrirtæki sem rekur listaskála og kaffihús. Á neðri hæðinni er vinnustofa listamanns og sýningasalur. Boðið er upp á hestasýningar fyrir hópa og mat frá býli og héraði eins og kostur er.