Bílaleiga Akureyrar – Höldur er rótgróið norðlenskt fyrirtæki. Upphafið má rekja aftur til ársins 1966, en fyrirtækið Höldur var stofnað þann 1. apríl 1974 og hefur gegnum tíðina stundað ýmiskonar þjónustustarfsemi, m.a. rekstur veitingastaða og verslana og bensínstöðva svo eitthvað sé nefnt. Starfsemin hefur þróast mikið gegnum tíðina, en síðan 2003 hefur bílaleiga og bílaþjónusta verið í forgrunni. Langstærsti hluti starfseminnar í dag snýst um bílaleigu, en einnig rekur fyrirtækið alhliða bílaverkstæði, dekkjaverkstæði, bílaþvottastöð og bílasölu á Akureyri. Bílafloti og starfsmannafjöldi hefur vaxið jafnt og þétt og í dag starfa rétt tæplega 300 starfsmenn hjá fyrirtækinu og flotinn telur um 8000 bifreiðar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri, en einnig eru reknar starfsstöðvar í Reykjavík og Keflavík, auk afgreiðsluútibúa vítt og breitt um land.
Forsaga stefnumótunar hjá fyrirtækinu
„Áherslur fyrirtækisins snúast fyrst og fremst um að veita framúrskarandi þjónustu í sátt við umhverfi og samfélag“, segir Jón Gestur Ólafsson, gæða,- umhverfis og öryggisstjóri Hölds. Vegferð stefnumótunar hjá fyrirtækinu hófst í kringum 2006, þegar fyrirtækið fór í gegnum það ferli að fá vottun í umhverfis og gæðamálum. Fyrirtækið fékk síðan ISO 14001 vottun í umhverfismálum og ISO 9001 vottun í gæðamálum árið 2010. Umhverfisstefna var á þessum tíma mótuð og innleidd út frá greindum umhverfisþáttum og áherslum fyrirtækisins. Stefnan þróaðist svo með tímanum og áhersla á sátt við samfélagið og umhverfið í held var innleidd í stefnuna árið 2016. Sú breyting var í raun upphafið að stefnumótun um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð, sem hefur svo verið leiðandi í starfsemi fyrirtækisins undanfarin ár.