Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Starf Markaðsstofu Norðurlands árið 2024

Sókn á erlendum mörkuðum



Stór þáttur í starfi Markaðsstofu Norðurland eru ferðasýningar og vinnustofur á lykilmörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Stærstu viðburðirnir eru Vestnorden, World Travel Market í London og ITB í Berlín. Árið 2024 tók MN þátt í eftirfarandi viðburðum:

  • Vestnorden í Færeyjum
  • WTM í London
  • ITB Berlín
  • Vinnustofur í London, Hollandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi
  • Birdfair í Bretlandi

Í janúar 2024 var fulltrúum frá breskum ferðaskrifstofum og ferðatímaritum boðið í móttöku vegna nýs flugs í sendiráði Íslands í London. Ráðherra ferðamála og framkvæmdastjóri Íslandsstofu flugu til London í gegnum Akureyri að þessu tilefni. Sjá https://www.northiceland.is/is/moya/news/nordurland-kynnt-i-islenska-sendiradinu-i-london 

Að auki var sérstakur viðburður haldinn í Manchester í tengslum við beint flug easyJet til Akureyrar, sem var haldinn undir merkjum Nature Direct verkefnisins hjá Íslandsstofu. Þangað komu fulltrúar frá 20 ferðaskrifstofum til að kynnast Norðurlandi að vetri.

Mikil áhersla var lögð á að kynna Norðurland á Bretlandi vegna easyJet og Chris Hagan var starfsmaður Markaðsstofu Norðurlands á Bretlandsmarkaði árið 2024. Hann var í reglulegu sambandi við ferðaskrifstofur og fór á vinnustofur og sýningar. Þá veitti hann einnig ráðgjöf til samstarfsfyrirtækja MN, hélt kynningar um tækifærin og stöðuna á breska markaðinum.

Á árinu var einnig staðfest að Vestnorden 2025 mundi fara fram á Akureyri. Markaðsstofan sótti mikið í að fá sýninguna og við ákvarðanatöku spiluðu aukin umsvif á millilandaflugi og mikil uppbygging á svæðinu sterkt inn. 

Kynnisferðir um Norðurland

Ferð með íslenskar ferðaskrifstofur um Norðurland vestra - sjá frétt

Á undanförnum áratug hefur reglulega verið farið í dagsferð þar sem íslenskum ferðaskrifstofum er boðið að prófa skíðasvæði á Norðurlandi. Árið 2024 tókst þessi ferð með eindæmum vel þar sem veðrið lék við þátttakendur og nýr snjór var yfir öllum svæðunum. 

Kynnisferðir frá Manchester og London - Farin var stór ferð með endursöluaðila frá Manchester 12. nóvember 2024. Manchester er stórt markaðssvæði en upptökusvæðið Manchester flugvallar er um 20 millijónir. Einnig voru fulltrúar endursöluaðila frá London boðnir í sérstakar ferðir. 

Ferðalög um Norðurland

  Bílaleigubílar
Hversu oft MN leigði bíl
  Dagar
Á ferðlagi um Norðurland

Áfangastaðaáætlun og sjálfbærni

Áfangastaðaáætlun

Efni áfangastaðaráætlunar var yfirfarið og staða lykil markaðsáherslna og þróunarverkefna uppfærð. Unnið var með sveitarfélögunum að því að uppfæra lista yfir uppbyggingarverkefni á þeirra vegum sem sett hafa verið í forgang. Stöðugreiningar og talnaefni áætlunarinnar var uppfært á árinu.

Unnið var að uppsetningu sérstaks vefsvæðis fyrir áfangastaðaáætlanir allra landshluta. Verkstjórn á höndum MN. Vefurinn var opnaður í janúar 2025. Samstarf við áfangastaðastofur annarra landshluta hélt áfram með reglulegum fundum, samráði, samnýtingu verkfæra og samræmingu áætlunargerðar.

Smelltu hér til að skoða nýjan vef Áfangastaðaáætlunar

Sjálfbær ferðaþjónusta á Norðurlandi

Markmið verkefnisins: að auka sjálfbærni í ferðaþjónustu á Norðurlandi og koma henni betur á framfæri. Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Sjónum er sérstaklega beint að efnahagslegri sjálfbærni og því hvernig megi með ákveðnum aðgerðum stuðla að bættum hagi heimamanna af ferðaþjónustunni og auknum heilsárstekjum í greininni.

Mörg norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa þegar tileinkað sér gildi sjálfbærar þróunar og hafa innleitt ýmiskonar áherslur og/eða verkefni sem eru til þess fallin að efla sjálfbærni

Á árinu 2024 var unnið að því að taka saman frásagnir (sögur) af árangri þessara fyrirtækja. Tilgangur þessa er m.a. að auka vitund forsvarsaðila annarra ferðaþjónustufyrirtækja um sjálfbærni og hvetja þá til góðra verka.

Efnið birt á texta- og myndbandsformi á vef MN á vordögum 2025.

Smelltu hér til að skoða

Samtal og þróun

Samstarfsvettvangur ferðamálafulltrúa

MN bauð ferðamálafulltrúum og öðrum starfsmönnum sveitarfélaga, sem hafa með þróun áfangastaða og ferðamál almennt að gera, til reglulegra funda á árinu. Einnig var fulltrúum ferðamálafélaga/samtaka á Norðurlandi boðið að borðinu, sem og starfsfólki gestastofa í landshlutanum. Fundað var bæði á staðarfundum og fjarfundum. Að jafnaði komu um 20 manns á fundina, auk sérstakra gesta á hverjum fundi.

Tilgangur þessa samstarfsvettvangs er að auka samstarf og bæta upplýsingamiðlun milli lykilfólks í stoðkerfinu, sem kemur að uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Ferðamannaleið á Norðurlandi vestra

Hafinn var undirbúningur að mótun nýrrar skilgreindrar ferðaleiðar á Norðurlandi vestra, með áherslu á menningar og sögutengda ferðaþjónustu. Meginmarkmið er að efla ferðaþjónustu til lengri tíma í landshlutanum. Móta þarf þetta sem nýtt aðdráttarafl í ferðaþjónustu og leggja grunn að nýrri markaðssókn með kraftmikla ímyndarsköpun að leiðarljósi.

Byggt er á grunni þekktra áfangastaða, en umgjörð og markaðsáherslur færðar í nýjan og ferskan búning. Á árinu var grunnhugmynd verkefnisins mótuð og sótt um fjármagn til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra og í Sóknaráætlun Norðurlands vestra.

Ekki fékkst fjármagn í verkefnið 2024, en á vordögum 2025 leitaði SSNV til MN um að koma verkefninu af stað sem samstarfsverkefni MN og SSNV, stutt af fjármunum úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra.

 

Stöðugreiningar og aðgerðaáætlanir fyrir afmörkuð svæði á Norðurlandi

Á árunum 2023-2024 var verkefnið Áfangastaðaáætlun Norðurhjarasvæðisins skilgreint sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Norðurhjarasvæðið nær frá Kelduhverfi í vestri til Bakkafjarðar í austri.

Vinnsla verkefnisins var á höndum MN og fór fram á árinu 2024 í nánu samstarfi við sveitarfélög og hagaðila á svæðinu. Afurð verkefnisins var ítarleg skýrsla sem kom út í árslok. Hún geymdir stöðugreiningu fyrir ferðaþjónustu á svæðinu sem og tillögur að aðgerðum til frekari framþróunar ferðaþjónustu.

Ferðamannaleiðir

Norðurstrandarleið

  • Héldum vinnustofu með Auði Ösp fyrir meðlimi leiðarinnar þar sem áhersla var lögð á sögur og frásagnarlist. Á Norðurstandarleið eru sögur og upplifanir við hvert fótmál og klárlega eitthvað sem við þurfum að nýta okkur miklu betur. Allir elska góðar sögur og oftar en ekki eru það sögurnar sem við heyrum og fólkið sem við hittum á ferðalögum sem standa uppúr og við munum helst eftir.
  • Markaðsstofan, ásamt Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra, fengu styrk úr Uppbyggingarsjóð SSNV fyrir því að setja upp listaverk á Norðurstrandarleið. Var þetta verkefni unnið í samstarfi við listafólk frá Úkraínu sem búsett eru hér á landi. Hugmyndin af þessu verkefni var að nýta sagnaarf svæðisins til að glæða Norðurstrandarleið enn frekara lífi og koma henni betur á framfæri. Þrír staðir urðu fyrir valinu: Hvammstangi, Sauðárkrókur og Skagaströnd.
  • Haustfundur Norðurstrandarleiðar er haldinn í nóvember ár hvert. Það er mikilvægt að fyrirtækin þekki hvort annað, læri hvort af öðru og skiptist á hugmyndum. Við viljum að ferðamennirnir dvelji lengur á svæðinu og það felast tækifæri í því að geta bent ferðamönnum á að heimsækja staði sem þeir myndu mögulega ekki annars vita af. Í ár var Íslandsstofa með erindi á fundinum um sýningar og vinnustofur.
    Uppfærsla á GIS landfræðilega gagnagrunninum hefur verið í vinnslu síðustu mánuði í samstarfi við sveitarfélögin.
  • Innviðir eru lykilatriði fyrir þróun Norðurstrandarleiðar og ánægju ferðamanna. Meginhlutverk innviðauppbyggingar er að auka náttúruupplifun með þarfir ferðamanna að leiðarljósi. Þetta eru t.d. örugg bílastæði, merktar gönguleiðir að náttúruundrum, upplýsingagjöf og fleira. Markmiðið er að hægt sé að njóta hvers staðar til fullnustu en takmarka umhverfisáhrif. Vel skipulagðir innviðir skipta því miklu máli og árið 2024 voru sett upp nokkur upplýsingaskilti víðsvegar á leiðinni. Við fögnum því, en betur má ef duga skal og hvetjum við sveitarfélögin til að hafa í huga að það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa leiðina merkta og áhugaverða staði á leiðinni sýnilega með skilvirkum upplýsingum.
  • Almenn kynning á leiðinni á sýningum og vinnustofum hér heima og erlendis. Uppfærum söluhandbókina árlega og er hún send á alla okkar tengiliði.
  • Minnum á að meðlimir leiðarinnar nýti sér útgefið efni í tengslum við þróun upplifana og annað sem tengist vörumerkinu. Þar á meðal hvernig við tölum um vörumerkið og markhópa. Þetta er orðið vel þekkt vörumerki – nýtum okkur það enn betur!
    Einnig að fyrirtækin noti vörumerki leiðarinnar á sitt markaðsefni og heimasíðu.
    Áframhaldandi vinna við að koma vörumerkinu á framfæri auk samstarfs við meðlimi leiðarinnar og sveitarfélög.

 

 

Demantshringurinn:

  • Almenn kynning á sýningum og vinnustofum hér heima og erlendis.
  • Uppfærsla á söluhandbókinni árlega og hún send á alla okkar tengiliði innanlands og erlendis. Hvetjum öll fyrirtæki sem eru á Demantshringnum til að kynna sér söluhandbókina vel.
  • Mjög gott samstarf við Mývatnsstofu og Húsavíkurstofu.
  • Áframhaldandi vinna að koma vörumerkinu enn betur til skila og samstarf við fyrirtækin á svæðinu, Húsavíkurstofu og Mývatnsstofu.

Umfjöllun í fjölmiðlum

  • Blaðamenn frá Bretlandi komu í janúar í samstarfi easyJet, easyJet Holidays, Íslandsstofu og MN - Sjá umfjöllun
  • Blaðamenn frá Hollandi komu í mars í samstarfi við Voigt Travel
  • Í nóvember komu blaðamenn frá London og Manchester, í samstarfi Nature Direct verkefnisins
  • Svörum fyrirspurnum frá erlendum fjölmiðlum um ýmislegt, veitum þeim aðgang að myndabanka og tengjum við rétta aðila á svæðinu
  • Fréttir á Íslandi tengdar Markaðsstofu Norðurlands voru 120 á árinu
  • 52 fréttir skrifaðar frá MN á vefinn

Tölfræði um fjölmiðlaumfjöllun

  þúsund
Hversu margar greinar innihéldu orðin North Iceland árið 2024
  milljarðar
Fjöldi lesenda á greinum sem fjölluðu um North Iceland
  þúsund
Deilingar á samfélagsmiðlum
  milljónir
Virði umfjallana í krónum talið ef þær hefðu verið keyptar sem auglýsingar

Samfélagsmiðlar og vefsíða

  • 60 þúsund heimsóknir á vefsíðuna í mánuði og eykst með hverjum mánuði
  • Áhrif gervigreindar að koma í ljós og vefurinn í sífelldri endurskoðun til að tengjast henni betur
  • Stór hluti nýtir vefinn á Íslandi en Bretar og Bandaríkjamenn fjölmennustu þjóðerni gesta á vefnum
  • Færslur á samfélagsmiðlum birtust um 4 milljón sinnum
  • Áhersla lögð á vetur og fjöll í samhengi við aukna vetrarferðamennsku
  • Mikið um endurbirtingar frá samstarfsfyrirtækjum, ljósmyndurum sem bæði búa hér og voru á ferðalagi
  • 200 myndum bætt inn í Brandcenter
  • Travel Trade myndband uppfært

Flugklasinn



Áþreifanlegasti árangurinn af starfi Flugklasans birtist í sívaxandi millilandaflugi um Akureyrarflugvöll.

Sumarið 2024 jókst sætaframboð í beinu millilandaflugi um 20% samanborið við sumarið 2023, fór úr rúmlega 3.300 sætum (aðra leið) í rúmlega 4.000 sæti. Aukning skýrist af auknum umsvifum Edelweiss frá Zurich, sem fjölgaði brottförum úr 7 í 11. Voigt Travel flaug 14 ferðir frá Hollandi eins og sumarið á undan.

Veturinn 2024/25 jókst sætaframboð í beinu millilandaflugi um 93% samanborið við veturinn 2023/24. Aukningin skýrist af stærstum hluta af því að Manchester kom inn sem nýr áfangastaður. Síðasta vetur voru í boði samtals 106 flugferðir með 170-190 sæta vélum frá fjórum mismunandi áfangastöðum erlendis. Það þýðir tæplega 20.000 sæti í boði (aðra leið) samanborið við rúmlega 10.000 sæti árið áður.

Þessi aukna flugumferð gjörbreytir forsendum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi til þess að starfa á heilsársgrunni og ýtir undir vöruþróun og nýsköpun í vetrarferðaþjónustu.

Mikil vinna hefur farið í samstarf með þeim aðilum sem standa að baki millilandafluginu. Bæði áætlunarfluginu (easyJet frá London og Manchester og Edelweiss frá Zurich) og leigufluginu (Voigt Travel frá Hollandi sumar og vetur og vetrarflug Kontiki frá Sviss).

Einnig hefur verið markvisst unnið að því að styrkja það flug sem komið er og finna grundvöll fyrir frekari flugi. Í þeim tilgangi voru 6 ferðaskrifstofur í Hollandi og Belgíu heimsóttar í september. Að auki fundaði Flugklasinn með 2 ferðaskrifstofum í Þýskalandi, 1 í Frakklandi og 5 í Bretlandi sérstaklega vegna þátttöku í beinu flugi til Akureyrar. Samtals fundað með 13 ferðaskrifstofum vegna flugs.

Nature Direct samstarfið hélt áfram - vettvangur fyrir samtöl við flugfélög.

Innra starf

  • Flugklasinn stóð fyrir ráðstefnunni Flug til framtíðar í Hofi á Akureyri þann 18. Nóvember. Þar var rætt um Norðurland sem áfangastað og tækifærin sem beint millilandaflug til Akureyrar fela í sér. Sömuleiðis var rætt um uppbyggingu flugvallarins og efnahagsleg áhrif millilandaflugs. Flugklasinn fékk bæði innlenda og erlenda fyrirlesara og tókst ráðstefnan mjög vel í alla staði. Upptökur af ráðstefnunni má finna á heimasíðu MN á eftirfarandi slóð: https://www.northiceland.is/is/mn/frettir/upptaka-og-kynningar-fra-flugi-til-framtidar
  • Stækkuninni á flugstöðinni er lokið og var ný aðstaða formlega vígð 5. desember. Er það frábær áfangi í uppbyggingunni á flugvellinum og ber að fagna. Hins vegar er ljóst að frekari stækkun þarf til að þjóna flugfarþegum og þjónustuaðilum í framtíðinni.
  • Flugklasinn setti þrýsting á að ný GPS aðflug úr suðri verði tilbúið til notkunar sem fyrst. Stefnir í það gerist sumarið 2025. Þetta nýja aðflug mun auka verulega öryggi og nýtingarmöguleika flugvallarins.
  • Fjármögnun Flugklasans er ekki trygg til lengri tíma. Í nóvember 2024 tókst að tryggja fjármögnun frá ríkinu til tveggja ára (út árið 2026) en samningar við sveitarfélögin renna út í lok árs 2025. Samtal er í gangi við sveitarfélögin um næstu skref.

Útgáfa korta

Borðkortið gefið út í 80 þúsund eintökum

  • 2 x 40 þúsund

Samanbrjótanlega kortið gefið út í 50 þúsund eintökum

  • 2 x 25 þúsund

Kortum dreift um allan landshlutann

  • Mest fór í upplýsingamiðstöðina í Hofi

Samstarfsfyrirtæki geta sótt sér kort á upplýsingamiðstöðum og á skrifstofu MN

 

 

Uppskeruhátíð 2024

Farið var um Eyjafjörð og endað með kvöldverði á Laugaborg. Smelltu hér til að lesa um hátíðina.

  • Fyrirtæki ársins: Pólarhestar
  • Hvatningarverðlaun: Kakalaskáli
  • Störf í þágu ferðaþjónustu: Rúnar Óskarsson, Fjallasýn