Fara í efni

Ítarefni um Norðurstrandarleið

Norðurstrandarleið er spennandi nýtt verkefni í ferðaþjónustu sem á að skapa nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi og kynna landshlutann sem einstakan áfangastað. Ferðamannavegir eru þekktir í ferðaþjónustu víða um heim, sem tæki til þess að beina ferðamönnum eftir ákveðnum leiðum um skilgreind svæði. Norðurstrandarleið fer um alla strandlengjuna, frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri. Til þess að taka þátt í verkefninu þurfa ferðaþjónustuaðilar, sveitarfélög og þorpin eða bæirnir á leiðinni að uppfylla ákveðin skilyrði. Á leiðinni eru sveitarfélögin 17 og þorp eða bæir 21 talsins.

Af hverju að skapa ferðamannaveg?
Heildarmarkmið ferðamannavegarins Norðurstrandarleiðar er að skapa betri tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki til að selja sínar vörur undir vörumerki Norðurstrandarleiðar og í leiðinni gera sig sýnilegri á innlendum og erlendum markaði.  Vegurinn mun einnig hjálpa til við að fá ferðamenn inn á jaðarsvæðin svo þeir fari ekki bara á þekktustu ferðamannastaði Norðurlands. Með því að þróa tækifæri fyrir ferðamenn til að upplifa eitthvað nýtt og skapa þannig minningar, er verkefninu einnig ætlað að stuðla að því að ferðamenn dvelji lengur á Norðurland og lengja ferðaþjónustutímabilið. Tilkoma Norðurstrandarleiðar verður einnig góður valkostur fyrir ábyrga ferðaþjónustu og þá ferðamenn sem vilja ná betri tengingu við óspillta náttúru meðfram strandlengjunni. Sömuleiðis geta þeir uppgötvað sjávarþorpin, fólkið sem þar býr og sögu þess og menningu sem sprettur upp úr hinu daglega amstri þeirra sem búa rétt við Norðurheimskautsbauginn.

Hverjir geta tekið þátt?
Verkefnið snýst um strandlengjuna og allt sem tengist henni. Það er kjarni þess sem ferðamannavegurinn býður upp á og í því sem við kynnum fyrir okkar gestum. Til að tryggja að það sé vel gefið til kynna, og til að tryggja áreiðanleika og gæði vörumerkisins, geta aðeins meðlimir í verkefninu tekið þátt og tengt sig við Norðurstrandarleið. Þeir þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur, sem skoða má hér.

Hvenær verður vegurinn opnaður formlega?
Það tekur tíma að skapa réttan ramma utan um verkefnið og það er ekki eitthvað sem verkefnastjórn Norðurstrandarleiðar eða Markaðsstofa Norðurlands getur gert alfarið upp á eigin spýtur. Allt verkefnið er unnið í mjög opnu og lifandi þróunarferli, og í samvinnu við sveitarfélög, samfélögin og ferðaþjónustufyrirtæki. 

Áætlað er að leiðin verði formlega opnaður á Degi Hafsins sumarið 2019.

Það er þó ekki þar með sagt að verkefnið verði fullunnið um leið og vegurinn verður opnaður, því verkefnið er hugsað til langtíma og alltaf þarf að halda þróunarferlinu lifandi. Alltaf má bæta innviði og upplifun ferðamanna, þannig að hún verði sem best og að orðsporið sem fari af þessari leið verði ávallt gott.

Innviðir og skilti
Sumarið 2017 hófst vinna við kortalagningu og skipulagningu innviða, og sömuleiðis við áætlun um notkun skilta fyrir Norðurstrandarleið. Mesta áherslan var lögð á að skoða hvaða innviðir eru nú þegar til staðar, svo sem bílastæði, áningarstaðir, salerni og upplýsingaskilti. Samtal er nú þegar komið í gang á milli verkefnastjórnar, Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um þessi mál

Í nóvember og desember 2017 voru opnir íbúafundir haldnir á öllum svæðum þar sem leitað var álits hjá íbúum um hvaða innviðir væru mikilvægastir eftir mismunandi svæðum á Norðurstrandarleið. Niðurstöður þeirra munu hafa áhrif á skipulagningu og hjálpa til við að skapa yfirsýn um hvað er nú þegar til staðar og hvað vantar.

Hvers vegna að fara í þróun á upplifun?
Þrátt fyrir að verkefnið snúist um að skapa ferðamannaveg, er markmiðið að Norðurstrandarleið snúist um upplifun ferðamanna. Sjálf leiðin er segullinn sem dregur þá að og beinir þeim um svæðin meðfram strandlengjunni, en markmiðið er að þeir eyði meiri tíma utan bílanna og nái betri tengingu við svæðin og séu þar lengur.

Vörumerkið Norðurstrandarleið skapar aðrar tilfinningar hjá ferðamönnum og gefur fyrirheit um eitthvað sem ekki finnst annars staðar, eitthvað sem aðgreinir það frá öðrum áfangastöðum. Þetta næst með því að hafa þróun á upplifun í forgrunni. „Vara er eitthvað sem þú kaupir, upplifun verður að minningu,“ eru einkunnarorð kanadíska ferðamálaráðsins, sem útskýrir vel hvað átt er við um þróun á upplifun.

Þróun á upplifun snýst þannig um að búa til skilaboð og loforð til ferðamanna, sem gefur þeim innblástur fyrir ferðalagið og tækin til þess að segja sínu sögu af ferðalaginu. Í þróuninni felst auðvitað sköpun á upplifuninni sem á að virka á öll skynfæri og tengja þau beint við staði og fólkið sem býr við strandlengjuna á Norðurlandi. Þessar upplifanir skapa minningar sem endast um alla ævi og búa til góðar sögur sem gestir okkur vilja segja vinum sínum og fjölskyldu og með því búa til nýja gesti sem koma hingað.

Ferðaþjónustuaðilar munu svo fá verkfæri frá Norðurstrandarleið sem hjálpar þeim að skapa sínar eigin upplifanir í takti við vörumerkið, sem auðveldar þeim að selja sína þjónustu.

Hver er að baki verkefninu?
Verkefnið er hýst hjá Markaðsstofu Norðurlands og verkefnastjórinn Christane Stadler stýrir því ásamt stýrihópi. Í hópnum eru 17 meðlimir frá öllu landsvæðinu, frá Hvammstanga að Bakkafirði. Verkefnið hefur hlotið styrki frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og -eystra, auk Grasrótarstyrkja frá bæði NV- og NE-landi. Í júní 2017 hófst annar áfangi verkefnisins. Við kunnum vel að meta þann stuðning sem verkefnið hefur hlotið frá sveitarfélögum á svæðinu, en einnig frá Stjórnstöð ferðamála og Íslandsstofu.