Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Það eru rúmlega 100 kirkjur á Norðurlandi, hver og ein með sinn sjarma og svo sannarlega þess virði að staldra við og skoða betur. Saga kristni á Íslandi er jafn gömul byggð í landinu og tóku Íslendingar kristni árið 1000. Biskupsstóll var stofnaður á Hólum í Hjaltadal árið 1106. 
Það er gamall siður að þegar fólk fór á fætur á morgnana, gekk það út undir bert loft, sneri sér til austurs og signdi sig. Kallaðist þetta að sækja daginn. Á sama hátt hafa kirkjur frá fornu fari snúið í austur.

Bæjardyrahúsið á Reynistað
Á Reynistað í Skagafirði er bæjardyrahús sem er það eina sem varðveist hefur af bæ þeim sem Þóra Björnsdóttir lét reisa eftir mikinn bruna sem þar varð árið 1758. Þóra var ekkja Halldórs Brynjólfssonar Hólabiskups og hélt hún Reynistaðarklaustursumboð að manni sínum látnum 1753 og til dauðadags 1767. Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um. Bæjardyraportið er með stafverksgrind af þeirri gerð sem víða tíðkaðist hér á landi á 18. öld þegar áhrifa bindingsverks var tekið að gæta. Öll smíði ber þess vitni að vel hafi verið til hússins vandað í sinni tíð og eru margir viðanna prýddir strikum. Gömlu bæjarhúsin á Reynistað voru tekin niður skömmu eftir 1935 en þessu húsi var leyft að standa áfram. Um 1960 var það flutt til og byggð utan um það steinsteypt skemma. Í henni var portið fram til 1999 en þá voru viðirnir teknir niður og lagfærðir. Bæjardyraportið var síðan reist skammt frá upphaflegum stað og að því hlaðnir torfveggir og torf sett á þakið. 
Húsavíkurkirkja
Húsavíkurkirja er var vígð árið 1907 og stendur í miðbæ Húsavíkur. Turn kirkjunnar er 26 m hár og er hún frábrugðin öðrum kirkjum að því leyti, að enginn venjulegur predikunarstóll er í henni. Kirkjan er glæsileg timburkirkja og einhenni Húsavíkur.  
Hóladómkirkja
Hóladómkirkja er elsta steinkirkja á Íslandi. Kirkjan er byggð úr rauðum sandsteini úr fjallinu Hólabyrðu. Kirkjuna prýðir margt fallegra muna og reglulega er boðið upp á leiðsögn um hana. Kirkjuturninn er 27 metra hár og stendur við hlið kirkjunnar. Hann var reistur á 400 ára dánarafmæli Jóns Arasonar, sem var hálshöggvinn ásamt sonum sínum árið 1550, en Jón var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi.
Víðimýrarkirkja
Víðimýrarkirkja er ein af örfáum varðveittum torfkirkjum landsins. Í upphafi 20. aldar var tvísýnt um afdrif hennar, en síðar áttuðu menn sig á því að hér var um ómetanleg menningarverðmæti að ræða. Þjóðminjasafn Íslands hefur staðið fyrir viðgerðum á kirkjunni. Kirkjan var reist árið 1834, hún er með torfveggjum til hliðanna og torfþekju en timburstöfnum í bak og fyrir.
Bænahúsið á Gröf
Gísli Þorláksson Hólabiskup (1657-1684) mun hafa látið reisa Grafarkirkju eða a.m.k. gera á henni endurbætur á síðasta fjórðungi 17. aldar en jörðin var þá í hans eigu. Ekkja hans, Ragnheiður Jónsdóttir (d. 1715) gerði staðinn að miklu miklu menningarsetri í sinni tíð. Grafarkirkju má telja til elstu húsa sem enn standa á Íslandi. Húsið er lokað almenningi. Gröf er innsti bær á Höfðaströnd í Skagafirði, skammt sunnan Hofsóss. Þar var um skeið mikið menningarsetur. Kirkjan er að líkindum skreytt og e.t.v. einnig smíðuð af Guðmundi Guðmundssyni sem oft er kenndur við Bjarnastaðarhlíð. Hann smíðaði einnig hluta af Brynjólfskirkju í Skálholti og hjó út skírnarfontinn í Hóladómkirkju. Honum er ennfremur eignaður fjöldi fagurra smíðisgripa. Að byggingarlagi er Grafarkirkja fornfálegust þeirra íslensku torfkirkna sem varðveist hafa og timburgrind hennar hefur sérstöðu meðal torfkirkna. Grindin er með stafverki og kirkjan er í raun eina varðveitta stafkirkja landsins. Hún var aflögð þegar á seinni hluta 18. aldar og hafði verið notuð sem skemma um langa hríð þegar Matthías Þórðarson þjóðminjavörður tók að beita sér fyrir varðveislu hennar árið 1939. Vegna fjárskorts hófust viðgerðir ekki fyrr en undir 1950 og voru þá svo viðamiklar að öllum gömlu viðunum var skipt út en nýir voru sniðnir nákvæmlega eftir þeim gömlu. Form kirkjunnar er því eftir sem áður fornt og upphaflegar vindskeiðar eru geymdar á Þjóðminjasafninu. Kirkjan er sú eina á landinu sem er í hringlaga kirkjugarði. Garðurinn var endurhlaðinn um 1950 út frá sýnilegum veggleifum. Klukknaportið í garðinum er nýsmíði frá sömu viðgerð og er í stíl við kirkjuna. 
Þingeyrakirkja
Þingeyrar var fyrrum eitt kunnasta stórbýli í Húnaþingi og kirkjustaður. Frá Þingeyrakirkju er ein víðasta og fegursta útsýn í sýslunni. Talið er að enginn bær hafi verið eins stór og vel hýstur sem Þingeyrar enda sátu þar auðmenn og höfðingjar um aldir. Þingeyrarkirkja er byggð úr steini og var vígð árið 1877. Á Þingeyrum var fyrsta munkaklaustur Íslands stofnað árið 1133.
Akureyrarkirkja
Akureyrarkirkja var vígð árið 1940. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins. Í kirkjunni er meðal annars mjög sérstakur gluggi en lengi var talið að hann hafi upphaflega verið í dómkirkjunni í Coventry. Líklegra er þó að hann sé úr kirkju í Lundúnum eins og síðar rannsóknir hafa leitt í ljós.  Á svölum kirkjuskipsins eru lágmyndir eftir Ásmund Sveinsson. Skírnarfontur kirkjunnar er gerður eftir fyrirmynd Bertels Thorvaldsens.  Sumaropnun:  15. maí – 14. júní: 10-16  15. júní – 15. ágúst: 10-19 (mánudaga – fimmtudaga, föstudaga opið til 16)  Nánast undantekningarlaust er kirkjan lokuð þegar athafnireru í henni.  Vetraropnun:  16. ágúst – 15. september: 10-16  16. september – 14. maí: 10-15  Nánast undantekningarlaust er kirkjan lokuð þegar athafnireru í henni.  ATH!  Athygli skal vakin á því að kirkjan er lokuð þegar útfarir eða aðrar athafnir fara fram og er það auglýst sérstaklega á kirkjudyrunum.Fyrir frekari upplýsingar er hægt að skoða heimasíðu kirkjunnar akureyrarkirkja.is eða hafa samband í síma 462 7700 eða á netfangið akirkja@akirkja.is.  
Blönduóskirkja
Nýja kirkjan var vígð árið 1993 og eru munir úr gömlu kirkjunni sem prýða þá nýju. Hugmyndir að útlitinu eru sóttar í fjöllin og landslagið í umhverfinu. 
Þorgeirskirkja
Þorgeirskirkja við Ljósavatni var reist í minningu kristnitökunnar á Alþingi árið 1000 og til heiðurs Þorgeiri Ljósvetningagoða sem þá var lögsögumaður og olli mestu um það að hin nýja trú var lögtekin með friðsamlegum hætti. Kirkjan var vígð í ágúst árið 2000.