Hvort sem þú ert að leita að afþreyingu sem fær hjartað til að slá örar af spenningi eða afþreyingu aðeins í rólegri kanntinum, þá finnur þú það sem þú leitar að, hér á Norðurlandi.
Hér finnur þú göngu-, hjóla- og hlaupaleiðir sem liggja um friðsæla náttúru, fjölbreytta golfvelli, hellaferðir og að sjálfsögðu hestaferðir.

Stóraukin þjónusta við göngufólk hefur verið áberandi í ferðaþjónustu á Norðurlandi á síðustu árum. Mikill fjölbreytileiki er í gönguleiðum á Norðurlandi. Þannig má bæði finna þægilegar gönguleiðir fyrir alla fjölskylduna, t.d. í nágrenni Sauðárkróks, og krefjandi gönguleiðir, t.d. í nágrenni Hóla í Hjaltadal og víðar á Tröllaskaga. Í Fjörðum og víðar má skynja sögu horfinna byggða og víða í Húnavatnssýslum má rekja sig um slóðir fornsagna, t.d. Grettissögu. Við gönguferð má síðan auðveldlega tengja stangaveiði, safnaskoðun, siglingu, hvalaskoðun, selaskoðun, flúðasiglingar, hestaferð eða eitthvað annað. Reimaðu á þig gönguskóna, ævintýrin bíða þín fyrir norðan!

Golf nýtur mikilla vinsælda og fjöldi karla og kvenna í öllum aldurshópum sem stundar golf fer vaxandi. Á Norðurlandi hefur verið lögð mikil áhersla á að byggja upp góða golfvelli sem henta bæði byrjendum og einnig þeim sem eru lengra komnir. Jaðarsvöllurinn á Akureyri er 18 holu golfvöllur og er nyrsti golfvöllur heims í fullri stærð. Þar eru haldin mörg golfmót á hverju ári eins og Arctic open o.fl. Á Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, í Eyjafirði og á Húsavík eru 9 holu golfvellir og í Reykjahlíð í Mývatnssveit er 6 holu völlur. Allir hafa þessir vellir sína sérstöðu með tilliti til legu og landslags og útiveran og hreyfingin endurnærir sál og líkama. Að leika golf í miðnætursólinni á Norðurlandi á síðsumarskvöldum er engu líkt.

Sumstaðar er boðið upp á hjólaferðir með leiðsögn, sem er bæði fróðleg og umhverfisvæn leið til að kynnast landinu. Margir kjósa líka að hjóla á eigin vegum, ýmist á eigin farskjótum eða á leigðum hjólum.

Á Norðurlandi er gríðarlega sterk hefð fyrir hrossarækt og hestamennsku. Skagafjörður hefur oft verið nefndur Mekka hestamennskunnar á Íslandi en í Húnavatnssýslum er einnig mikil hrossarækt enda eru þar víðáttumikil og grösug beitarlönd. Því er engin tilviljun að hvergi er betra úrval af hestaferðum um heillandi reiðleiðir en á Norðurlandi.
Við Mývatn eru í boði hestaferðir í óviðjafnanlegri náttúru sem hafa verið mjög vinsælar hjá erlendum gestum. Að fara á hestbak er frábær afþreying og þú upplifir náttúruna og menninguna mjög sterkt. Ótal ferðir, bæði styttri og lengri, eru í boði fyrir vana og óvana. Enginn ætti að ferðast um Ísland án þess að njóta gæða íslenska hestsins í hans náttúrulega umhverfi.

Ýmsir ferðaþjónustuaðilar sérhæfa sig í jeppaferðum af ýmsu tagi. Jeppaferð upp á jökul með stórfenglegu útsýni er ógleymanleg lífsreynsla.

Fuglalíf á Norðurlandi er afar fjölskrúðugt og á svæðinu er að finna margvísleg búsvæði fugla og fjölbreytileiki fuglafánunnar er óvíða meiri hér á landi. Votlendi er mikilvægt búsvæði margra íslenskra varpfuglategunda og á Norðausturlandi er að finna nokkur slík svæði sem fræg eru fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Má þar nefna Mývatns- og Laxársvæðið en þar er að finna flestar andategundir í heiminum. Önnur votlendissvæði eru t.d. óshólmar Eyjafjarðarár og Svarfaðardalur. Á Norðurlandi eru nokkur þekkt fuglabjörg og má þar nefna Grímsey, Rauðanúp og Langanes og í Lundey á Skjálfanda og Mánáreyjum eru stórar lundabyggðir. Einnig er töluvert af lunda við utanvert Tjörnes þar sem auðvelt er komast í návígi við hann og skoða.
Á Langanesi eru heimkynni fjölda fuglategunda. Bjargfuglinn, langvía, rita og fýll, verpir þar í Skoruvíkurbjargi og víðar þar sem fótfestu er að fá í björgum. Súlan er einkar tígnarlegur fugl og stundum nefnd drottning Atlantshafsins. Á klettadranginum Stórakarli undir Skoruvíkurbjargi er annað mesta súluvarp landsins. Meðan byggð var á utanverðu nesinu var eitt mesta kríuvarp á landinu í Skoruvík en krían er farin þaðan eins og fólkið. Enn er mikið um kríu um mitt nesið.