Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Mikilfengleg náttúra Norðurlands skilur engan eftir ósnortinn. Þar er að finna stórkostleg gljúfur eins og Kolugljúfur og Jökulsárgljúfur, klettadrangar við strendur eins og Hvítserk og Stórakarl, ummerki eftir eldsumbrot í Mývatnssveit og staði á borð Ásbyrgi sem myndaðist við jökulhlaup fyrir þúsundum ára. Fossarnir eru margir og ber hæst að nefna aflmesta foss Evrópu, Dettifoss, hinn sögulega Goðafoss og hinn fallega Aldeyjarfoss. Fjöllin umkringja allt og fjallgöngufólk getur fundið sér gönguleiðir við sitt hæfi, svo allir geta notið náttúru Norðurlands.

Hólmatungur
Hólmatungur er mjög gróskumikið svæði í Vatnajökulsþjóðgarði og þar eru margar fagrar stuðlabergsmyndanir. Göngusvæðið á milli Hljóðakletta og Hólmatungna meðfram Jökulsá á Fjöllum er með því allra fegursta á landinu. Óteljandi lindir spretta upp í Hólmatungum og vatnið fellur af stalli niður í Jöklu. Þar er einnig að finna Gloppuhelli í Gloppu, sem er sérstök náttúrusmíð.
Fjörður
Á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa eru mörg há og tignarleg fjöll, Kaldbakur er eitt þeirra. Á milli fjallanna eru iðjagrænir og gróskumiklir dalir, sem voru byggðir á fyrri öldum en eru allir komnir í eyði. Úti fyrir mynnum dalanna eru víkur fyrir opnu hafi og með undirlendinu sem fylgir þeim kallast þeir í einu lagi Fjörður.Vegurinn um Fjörður er 27 km langur og einungis fær jeppum á sumrin. 
Askja
Askja er eldstöð, staðsett á hálendinu og er því aðeins aðgengileg yfir sumarmánuðina.  Í Öskju er Öskjuvatn en það er dýpsta stöðuvatn á Íslandi og við hliðina á Öskjuvatni er gígurinn Víti. Vatnið í gígnum er enn um 22 gráður og er vinsælt að baða sig þar, enda mikil upplifun. Náttúran er stórbrotin á þessum afskekta stað uppá hálendi Íslands.  Friðlýst 1978. Askja tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Vegur F88 liggur frá þjóðvegi 1 um Herðubreiðarlindir að Drekagili. Á leiðinni eru tvö vöð sem geta verið ófær minni jeppum. Frá Drekagili liggur vegur F894 að bílastæði nærri Öskju.
Grjótagjá
Grjótagjá er lítill hellir í Mývatnssveit og var eftirsóttur baðstaður á árum áður. Við jarðhræringarnar á þessum slóðum á árunum 1975-1984 hækkaði hitastig vatnsins svo mjög að ekki hefur verið hægt að baða sig þar síðan. Virkilega skemmtilegt að kíkja ofaní hellinn og láta sig dreyma um að baða sig í þessum flotta helli.
Stuðlaberg í Grímsey
Basalt myndast við eldgos og ef það kólnar við ákveðin skilyrði myndast þessi sérstöku sexkanta kristallar sem kallast stuðlaberg. 
Jökulsárgljúfur
Jökulsárgljúfur tilheyra Vatnajökulsþjóðgarði og umhverfi þeirra hafa heillað margan ferðalanginn. Fossasamtæða Jökulsár á Fjöllum með Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss á sér fáa líka á jörðinni. Stórkostlegt umhverfi Jökulsárgljúfra er mótað af vatni, eldum og ís. Gífurleg hamfarahlaup eru talin hafa myndað og mótað gljúfur, gil, klappir og byrgi. Frægust þeirra er Ásbyrgi.
Flatey
Flatey á Skjálfanda er stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við Norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikiðfuglalíf og góð fiskimið allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942, bjuggu 120 manns á Flatey en síðan 1967 hefur engin verið fasta búsetu á eynni.Yfir sumartímann koma ferðamenn til eyjunnar og einnig fólk sem á ættir að rekja til Flateyjar. Ekki er boðið upp á gistingu í Flatey en hægt er að fara þangað sjóleiðina frá Húsavík.  
Höfði í Mývatnssveit
Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn. Útsýni er allgott af Höfðanum yfir Mývatn, voga þess og víkur og er kjörinn staður til fuglaskoðunar. Kálfastrandarvogur liggur meðfram Höfðanum og er sérstæður fyrir hraundrangamyndanir í voginum og við hann. Þessir drangar heita Klasar og Kálfastrandarstrípar en Kálfastrandarvogur og umhverfi Höfða þykir með fegurstu stöðum við Mývatn.
Héðinsfjörður
Héðinsfjörður er tæplega 6 km langur eyðifjörður nyrst á Tröllaskaga, á milli Hestfjalls að vestan og Hvanndalabyrðu að austan. Fyrir botni fjarðarins er ágætt veiðivatn, Héðinsfjarðarvatn, og er útrennsli úr því um Héðinsfjarðarós út í fjörðinn. Næsta byggð til vesturs er á Siglufirði og til austurs á Ólafsfirði. Inn af fjarðarbotninum er fagur dalur, 5-6 kílómetra langur. Stórt silungsvatn, 1,7 ferkílómetrar að stærð, prýðir dalinn, 3 metra yfir sjávarmáli. Það er vatnableikja og mikil sjóbleikja í vatninu, 1-5 pund. Hún gengur í það síðla sumars. Mikið dýralíf er við vatnið og fuglar spakir. Sögur eru til af rebba, sem hefur heimsótt veiðimenn alls óhræddur og sótt sér fisk fyrir lítið. Þetta vatn er ekki mikið stundað, en á þó sína áhangendur, sem sækjast eftir friði og góðri veiði. Veiðihús er við norðurenda vatnsins. Næga afþreyingu er að hafa við Héðinsfjörð og á Tröllaskaga hvort sem það er að vetri til eða sumri til; skíði, snjósleðaferðir, sjóferðir, golf, fótbolti, gönguferðir, hestaferðir, veiði, söfn og margt fleira.
Ánastaðastapi
Skilti merkt Ánastaðastapi við veg nr.711 sýnir hver bílastæðið er. Notið stigann til að fara yfir girðinguna og gangið stuttan spöl niður hlíðina, meðfram litlum læk og niður á strönd. Hér finnur þú fallegan sjóklett, Ánastaðastapa. Vinsamlegast athugið að þessi staður er lokaður fram í júlí vegna sauðburðar. 
Kolugljúfur
Þegar ekið er fram Víðidal kemur maður að Kolugili sem stendur við Víðidalsá. Rétt neðan við bæinn rennur áin friðsæl niður í stórbrotið gljúfur sem heitir Kolugljúfur og þar eru fossar sem kenndir eru við tröllkonuna Kolu og heita Kolufossar. Það er afar áhrifamikið að ganga út á útsýnispallinn við gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum. Sýn sem lætur engan ósnortinn. Góðar gönguleiðir eru meðfram gilinu sitthvoru megin, fara verður þó með varúð og hætta sér ekki of nærri gilinu. Þvergil lokar leið að vestanverðu svo ekki er hægt að ganga hringleið niður á Víðidalsbrúna.
Möðrudalur
Möðrudalur liggur hæst bæja á Íslandi, 469 m.y.s. Ein landmesta jörð landsins. Þar hefur meira og minna verið í byggð frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Í Möðrudal er kirkja sem Jón Stefánsson (1880-1971) bóndi reisti á eigin kostnað til minningar um konu sína. Kirkjan var vígð árið 1949. Jón sá um alla smíði og málaði altaristöfluna er sýnir Krist halda Fjallræðuna. Taflan þykir mjög sérstæð. 
Námafjall
Námafjall og umhverfi þess er háhitasvæði. Þétt sprungubelti liggur yfir allt Námafjallssvæðið, en meginuppstreymið er austan við fjallið og hefur það gengið síðustu ár undir nafninu Hverir. Á því svæði eru margir gufu- og leirhverir, en engir vatnshverir. Leirhverirnir eru stórir og áberandi, en gufuhverirnir eru margir borholur sem búið er að hlaða grjóti yfir. Jarðvegur er ófrjór og gróðurlaus á háhitasvæðinu og mjög súr vegna áhrifa hveraloftsins og brennisteins.
Hverfjall
Í Hverfjalli er stór, hringlaga sprengigígur, um 140 m djúpur og um 1000 m í þvermál. Hverfjall er í röð fegurstu og reglubundnustu sprengigígamyndana sem getur að líta á Íslandi og talið í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Telja má víst að gígurinn hafi myndast við sprengigos og er aldur þess áætlaður 2800-2900 ár.
Borgarvirki
Borgarvirki á Vatnsnesi er klettaborg úr 10-15 metra háu stuðlabergi. Virkið er gostappi og tilgáta er um að þar hafi verið héraðsvirki og barist til forna. Á Borgarvirki er útsýnisskífa og þar er mjög víðsýnt yfir stóran hluta héraðsins. Einstakt náttúrufyrirbæri, endurbætt af mönnum fyrr á öldum. Sagan segir að þar hafi Víga-Barði Guðmundsson í Ásbjarnarnesi verið á ferð. Hann deildi við Borgfirðinga eins og segir frá í Heiðarvíga sögu. Sagt er að óvinir hans hafi komið að sunnan með óvígan her en Barði barst af því njósnir og kom sér og sínum mönnum fyrir í Borgarvirki, þar sem ómögulegt reyndist að sækja að honum. Tóku Borgfirðingar á það ráð að ætla að svelta Barða og hans menn inni. Þegar matinn þraut tóku virkisbúar sig til og hentu síðasta mörsiðrinu (sláturkeppnum) út úr virkinu. Voru þá Borgfirðingar vissir um að Barði hefði nægar vistir og héldu heim á leið. Frábært útsýni er úr Borgarvirki og þar hefur verið sett upp útsýnisskífa. 
Laugafell
Laugafell (879 m y.s.) og Laugafellshnjúkur (997 m y.s.) nefnast tvö fjöll úr móbergi, norðaustur af Hofsjökli. Í ás norðvestur frá Laugafelli eru laugarnar sem það er kennt við. Aðdráttarafl Laugafells felst í heita vatninu sem þar sprettur upp en öll hús á svæðinu er hituð upp með því. Heitustu uppspretturnar eru tæplega 50ºC. Þar er alger draumur að skríða í ylinn eftir skemmtilegan dag á fjöllum. Stutt er frá Laugafelli í aðra áhugaverða staði og má til dæmis nefna vötnin norðan við Hofsjökul þar sem upplagt er að skella sér í silungsveiði. Vegurinn er ekki fær fólksbílum.
Dettifoss
Dettifoss er aflmesti foss í Evrópu. Hann er 44 metra hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þeir eru ófáir, staðirnir eins og þessi, þar sem maður upplifir smæð mannsins eins skýrt og við þennan mikilfenglega foss. Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí. Vestanmegin er malbikaður vegur frá þjóðvegi 1 og alla leið að Ásbyrgi. Athuga þarf að þessi vegur er ekki í þjónustu frá 1.janúar til 30. mars. Dettifoss er hluti af Demantshringnum. 
Rauðanes
Rauðanes í Þistilfirði er falleg og sérstæð náttúruperla. Um nesið er merkt gönguleið sem er um 7 km, liggur í hring og er auðfarin. Á nesinu er lyngmór allsráðandi en einnig er þar nokkurt graslendi.Í byrjun gönguleiðarinnar er gengið fram á Háabjarg sem er um 60 metra hátt og í því sést hvernig berglögin hafa hlaðist hvert ofan á annað í aldanna rás.  Útsýni af nesinu er mjög víðfeðmt.
Drangey
Drangey rís sæbrött fyrir miðjum Skagafirði.  Frá henni er víðsýni mikið um byggðir fjarðarins.  Hún er að mestu úr móbergi, hrikalegt hamravígi.  Er hennar fyrst getið í Grettis sögu en þar hafðist útlaginn við seinustu ár sín ásamt bróður sínum Illuga og þrælnum Glaumi og þar var hann veginn, helsjúkur, í skála sínum af Þorbirni öngli og mönnum hans.  Það mun hafa verið nær veturnóttum árið 1031.Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þótt mest beri þar á svartfuglategundum: stuttnefju, langvíu, álku og lunda.  Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því.  Lundinn grefur sér aftur á móti holur á brúnunum.  Auk þess verpa rita og fýll í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar einnig griðland. Daglegar ferðir eru í Drangey frá Sauðárkróki, frá 20. maí til 20. ágúst, en þess utan eftir samkomulagi við Drangey Tours.
Dimmuborgir
Dimmuborgir eru dramatískar og sundurtættar hraunborgir með gróðri og kjarri. Í Dimmuborgum gefur að líta hvers konar furðumyndir, gatkletta og smáhella, en sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing sem er opin í báða enda. Það er ekki síður mikil upplifun að fara í Dimmuborgir yfir vetrartímann og í desember er hægt að heimsækja jólasveinana sem búa þar.
Glerárdalur
Glerárdalur er fólkvangur sem liggur upp af Akureyri. Um dalinnrennur áin Glerá. Dalurinn hentar vel til útivistar og liggur um hann gönguleiðinn að Lamba, húsi Ferðafélags Akureyrar. Húsið var byggt árið 2014 og kom í staðinnfyrir eldri byggingu sem stóð á sama stað.  Hægt er að fara í skipulagðar göngur á vegum FerðafélagsAkureyrar (FFA) inn að Lamba en einnig er hægt að útvega sér kort m.a. hjá FFAeða Upplýsingamiðstöð Ferðamanna í Hofi og fara á eigin vegum. Frá vegi aðskálanum er stikuð gönguleið, 10-11 km. Gistirými er fyrir 16 manns í Lamba. Olíukabyssa og áhöld eru í skálanum. Lækurskammt sunnan skálans. Fjölbreyttar gönguleiðir frá skálanum um fjöll og dali áGlerárdalssvæðinu. Forstofa er opin en innriskáli er læstur svo panta þarfgistingu fyrirfram á skrifstofuFFA.Staðsetning skálans er: 65°34.880 - 18°17.770 og hæð yfir sjávarmáli720m. Sjá myndir af skálanum á vef FFA.  Kort af fólkvanginum.https://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Fridlyst-svaedi/Auglysingar/Glerardalur-folkvangur-10022014_LOKA.pdf  
Stórikarl
Undir Skoruvíkurbjargi á norðanverðu Langanesi, er klettadrangur sem heitir Stórikarl. Þar er annað stærsta súluvarp á Íslandi. Byggður hefur verið útsýnispallur yfir Stórakarl, 10 m út yfir bjargbrúnina, svo hægt er að virða fyrir sér súlubyggðina og umhverfið allt. Súlan er einkar tignarlegur fugl og stundum nefnd drottning Atlantshafsins. Hún er stærsti fugl . Hrífandi er að virða fyrir sér súluvarpið þar sem súlan svífur um í óendanleika himins og hafs. Í Stórakarli og björgunum umhverfis hafa líka búsetu aðrir bjargfuglar svo sem langvía, rita, fýll, svartfuglar og fleiri tegundir. Langanes er tilvalinn staður fyrir fuglaskoðara og þá sem vilja njóta kyrrðarinnar úti í náttúrunni.
Glerárgil
Glerárgil er með dýpstu og mikilfenglegustu árgiljum í Eyjafirði en jafnframt eitt hið gróðurríkasta. Það er grafið af Gleránni þar sem hún rennur fram úr mynni Glerárdals í um 200 m hæð yfir sjávarmáli og nær niður að Gleráreyrum. Þótt umhverfi gilsins hafi víða verið raskað til mikilla muna hefur gilið sjálft sloppið að mestu við breytingar af mannavöldum, enda á köflum lítt aðgengilegt.  Eðlilegt er að skipta Glerárgili í tvo hluta: Efra-Glerárgil og Neðra-Glerárgil. Eru mörkin á milli gilhlutanna um Réttarhvamm, sem var víður hvammur eða hvilft ofan við Rangárvallabrúna þar sem áin rennur á eyrum, enhvammur þessi hefur nú að mestu verið fylltur upp með jarðvegi. Gilhlutarnir eru á ýmsan hátt ólíkir og eiga sér ólíka sögu. Efra gilið er hrikalegt árgljúfur, allt að 80 m djúpt, og breitt að sama skapi, en neðra gilið er víðast fremur grunnt og þröngt enda greinilega yngra en efra gilið.  Góðir göngustígar eru meðfram gilinu allt frá ósum árinnar og upp að virkjunarlóninu og liggja all um 8 brýr liggja yfir ánna, sumt fyrir blandaða umferð eins og bíla og gangandi, á meðan aðrar eru eingöngu fyrir hjól og gangandi umferð.Með tilkomu nýju virkjunarinnar sem staðsett er við Réttarhvamm sem vígð var 2019 var byggt lón ofarlega í ánni og þangað liggur nýr göngu og hjólastígur sem einnig var tekin í notkun það ár. Í heild er vegalengdin um 12 km frá ós ogupp að virkjunarlóninu. Stígurinn fyrir neðan Réttarhvamm er að mestu leiti malbikaður á meðan sá hluti sem liggur frá virkjuninni og upp í dalinn að lóninu er grófur malarstígur. 
Skútustaðagígar
Skútustaðagígar eru gervigígar sem mynduðust við gufusprengingu þegar hraun rann yfir votlendi. Gígarnir eru vinsæll staður til fuglaskoðunar og eru þeir friðlýstir sem náttúruvætti.
Hljóðaklettar
Hljóðaklettar í Vatnajökulsþjóðgarði eru sérkennileg þyrping stuðlabergskletta í mynni Vesturdals niðri við Jökulsá á Fjöllum. Stuðlarnir hafa alls konar legu og er gaman að nota ímyndunaraflið þegar þeir eru skoðaðir. Vegurinn að Hljóðaklettum (862) er fær öllum bílum frá þjóðvegi 85 en er lokaður á veturna.
Ásbyrgi
Ásbyrgi er eitt helsta náttúruundur Íslands og er staðsett í Vatnajökulsþjóðgarði. Lagðir hafa verið göngustígar um svæðið og sett upp lítil upplýsingaskilti við þá. Í Ásbyrgi er mikið af fallegum gróðri og mikið fuglalíf. Það er upplifun fyrir alla fjölskylduna að virða fyrir sér tignarlega hamraveggi og njóta kyrrðarinnar. Það er ekki síður skemmtilegt að fara í Ásbyrgi á haustin, þar sem fallegir haustlitirnir setja skemmtilegan svip á þetta einstaka náttúruundur. Ásbyrgi er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is 
Vatnsdalshólar
Vatnsdalshólar eru einkennilegir ásýndum og lengi hefur verið óvíst um uppruna þeirra. Hólarnir eru margbreytilegir að lit og lögun. Sumir eru keilumyndaðir, aðrir sem bunkar eða kambar að lögun. Vatnsdalshólarnir ná yfir rúmlega fjögurra ferkílómetra svæði og hafa þeir verið taldir meðal þriggja náttúrufyrirbrigða á Íslandi sem væru óteljandi, hin tvö voru vötnin á Arnarvatnsheiði og eyjarnar á Breiðafirði.
Kverkfjöll
Kverkfjöll erul megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls. Fjöllin eru nefnd eftir kverkinni sem skriðjökullinn Kverkjökull rennur niður úr. Í honum er stórfenglegur íshellir. Á svæðinu eru mjög áhugaverðar gönguleiður um eitt mesta háhitasvæði landsins. Frá svonefndri Austurleið (F910) liggur Kverfjallaleið (F902) suður til Kverkfjalla. Skammt austar liggur Hvannalindaleið (F903) suður í Hvannalindir og áfram þar sem hún kemur inn á veg F902. Vegir að Kverkfjöllum eru einungis opnir á sumrin frá lok júní til loka ágústs. Einungis er fært jeppum, hægt að sjá frekari upplýsingar á www.vegagerdin.is. .
Hvítserkur
Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu. Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin. Sagan segir að Hvítserkur sé steinrunninn tröllkarl. Þjósaga er um Hvítserk að hann hafi í forneskju verið tröll sem bjó norður á Ströndum sem vildi brjóta niður kirkjuklukkur Þingeyraklausturskirkju. Leiðin var torsóttari en hann gerði ráð fyrir og þegar sólin reis um morguninn hafði honum ekki tekist að ljúka ætlunarverki sínu og breyttist hann því í stein er hann leit fyrstu sólargeislana.
Arnarvatnsheiði
Á Arnarvatnsheiði er óteljandi fjöldi vatna og er góð veiði í mörgum þeirra.
Vatnajökulsþjóðgarður - norðursvæði
Vatnajökulsþjóðgarður er víðfemur og nær yfir tæp 13% af Íslandi. Þó stór hluti þjóðgarðsins sé undir jökulhettu Vatnajökuls er landslag hans fjölbreytilegt. Má það helst þakka samspili eldvirkni, jarðhita og myndunar jökla, landmótun jökla og vatnsfalla.Vatnajökulsþjóðgarði er skipt í fjögur svæði og á norðursvæðinu má meðal annars finna náttúruperlur eins og Öskju, Herðubreiðarlindir, Dettifoss og Ásbyrgi.Sumum finnst Jökulsárgljúfur fegursti staður á landinu til gönguferða, bæði lengri og skemmri, og það má til sanns vegar færa. Gönguleiðum er vel lýst í bæklingi þjóðgarðsins. Áhugamenn um jarðfræði, flóru og fánu finna þar líka góðar lýsingar. Heimasíða þjóðgarðsins er www.vjp.is
Spákonufellshöfði
  Spákonufellshöfði er vinsælt útivistarsvæði skammt frá höfninni á Skagaströnd. Þar hafa verið merktar gönguleiðir og sett upp fræðsluskilti um fugla og gróður. Á björtum sumarkvöldum má sjá miðnætursólina setjast við hafasbrún í norðri. Raunar ganga heimamenn um Höfðann allan ársins hring og njóta þess sem hann býður upp á.
Kjarnaskógur
 Kjarnaskógur er eitt vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa, um800 hektara að stærð. Við upphaf skógræktar á svæðinu um 1950 var landiðskóglaust með öllu. Síðan þá hefur verið plantað um 1.5 milljónum plantna og erþar mikil gróðursæld og gott skjól. Trjágróður í Kjarnaskógi er afarfjölbreyttur og trjásýnistígur liggur um hjarta skógarins meðfram Brunná.   ​Í skóginum má m.a. finna:* Þrjú leiksvæði með fjölda leiktækja* Blakvelli og trimmtæki* Yfirbyggðar grillaðstöður sem hentar jafnt einstaklingum sem hópum* Stærsta skipulagða gönguskíðasvæði landsins (í skóglendi) með allt að 20 kmtroðnum brautum, þar af eru 6 km upplýstir. Hægt er að nálgast upplýsingarum færð gönguskíðasvæðisins hér ,en litirnir á kortinu gefa til kynna tímann frá því að síðast var troðið(grænt, appelsínugult og bleikt eru frá nokkrum klukkustundum upp í 48 klst,meðan ljósblátt, dökkblátt og grátt er frá 2 upp í fleiri en 14 sólarhringar).* Á veturna er einnig boðið upp á sleðabrekkur þegar hægt er og eru þær viðEinar skógarvörð og fyrir neðan Sólúrið á Kjarnatúni.* Sérhönnuðu fjallahjólabraut með tengingu við fjallahjólabrautina íHlíðarfjalli - sem samanlagt gerir x km og þarmeð lengstu fjallahjólabrautlandsinsssss.* Um 12 km af malarbornum stígum, þar af eru 6 km upplýstir, auk fjölda annarraskógarstíga. Sjá kort neðan á síðunni. * Snyrtingar og vatnsbrunnur* 4 bílastæði  Svæðið er í eigu Akureyrarbæjar en í umsjá SkógræktarfélagsEyfirðinga.  Skógræktarfélag EyfirðingaSími: 462 4047Netfang: ingi@kjarnaskogur.isHeimasíða: www.kjarnaskogur.is Kort af svæðinu:Kjarnaskógur - léttleiða korthttps://www.visitakureyri.is/static/files/2012-VISIT/pdf/kjarnasogur-lettleidir-1-.pdfKjarnaskógur - allar leiðar - stórt kort https://www.visitakureyri.is/static/files/2012-VISIT/pdf/kort-2018-stora-kortid-a-orva-a2.pdfHamrarhttps://www.visitakureyri.is/static/files/2012-VISIT/pdf/kort-2018-hamrar-lett-an-orva.pdfNaustaborgirhttps://www.visitakureyri.is/static/files/2012-VISIT/pdf/kort-2018-naustaborgir-lett-an-orva.pdfGönguskíðabrautirhttps://www.visitakureyri.is/static/files/2012-VISIT/pdf/gonguskidi.pdf 
Hveravellir
Hveravellir er jarðhitasvæði norðan undir Kjalhrauni, eitt af stærstu hverasvæðum landsins. Frægasti útilegumaður Íslands, Fjalla Eyvindur, dvaldist þar um skeið ásamt Höllu konu sinni. Á Hveravöllum er að finna náttúrulegan heitan pott.
Hvammsfoss
Vatnsdalur er 25 km langur dalur í Austur-Húnavatnssýslu. Í dalnum nam Ingimundur gamli Þorsteinsson land samkvæmt því sem segir í Landnámu, og bjó hann á Hofi. Skammt frá Hofi er að finna foss er nefnist Hvammsfoss, Hjallafoss, Lóufoss eða Mígandi - fer eftir því hver er spurður.  Hægt er að leggja bílnum við veginn og ganga uppað fossinum, sem er umlukinn stórkostlegu stuðlabergi.
Herðubreiðarlindir
Við rætur Herðubreiðar eru Herðubreiðarlindir sem eru af mörgum taldar einn fegursti bletturinn á öræfum landsins, einkum þó vegna útsýnis og andstæðna náttúrunnar sem þar koma fram. Vegurinn að Herðubreiðarlindum er einungis fær yfir sumartímann.
Staðarbjargavík
Staðarbjargavík er staðsett í fjörunni við Hofsós, en Staðarbjargavík er gríðarfallegt stuðlaberg sem er einstaklega skemmtilegt og fallegt að skoða. Sagt hefur verið að þar væri höfuðstaður álfabyggðar í Skagafirði. Gott aðgengi er að Staðarbjargavík frá bílastæðinu við sundlaugina á Hofsósi.
Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn á Íslandi, 37 km2 á stærð, mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Rykmý setur mjög svip sinn á umhverfi Mývatns og af því dregur vatnið nafn sitt. Mývatn er mjög grunnt og sólarljós nær alls staðar til botns. Það sem einkennir lífið í Mývatni öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga og lífríkið er ákaflega fjölbreytilegt og merkilegt. Á botninum er mikið af kísilþörungaskeljum, ofar syndir hin alþekkta Mývatnsbleikja innan um vatnagróður og á bökkum vatnsins og í hólmum vex safaríkur gróður.Á og við Mývatn er mikið og fjölbreitt fuglalíf. Einkum lifa þar vatna- og votlendisfuglar af ýmsum tegundum en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri við vatnið en á nokkrum öðrum stað á jörðinni.Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur.
Selfoss
Fossinn Selfoss er í ánni Jökulsá á Fjöllum og er einungis nokkur hundruð metrum sunnan við Dettifoss. Hann er 10 metra hár en mjög breiður. Tilvalið er að leggja á bílastæðinu við Dettifoss og taka auðvelda göngu að fossunum tveimur. Fleiri fallegar náttúruperlur eru í Jökulsárgljúfrum svo sem Hljóðaklettar og Hólmatungur.  
Kálfshamarsvík
Kálfshamarsvík er lítil vík á norðanverðum Skaga. Þar eru sjávarhamrar úr fallega formuðu stuðlabergi er myndaðist fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára, sérkennileg náttúrusmíð. Í byrjun 20.aldar var útgerð og um 100 manna byggð í Kálfshamarsvík en um 1940 var byggðin komin í eyði.
Hraunahafnartangi
Hraunhöfn dregur nafn sitt af náttúrulegri höfn, sem þótti sæmilegt skipalægi áður fyrr og er hennar getið í heimildum frá 13. öld. Á Hraunhafnartanga er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu. Hraunhafnartangi og Rifstangi eru nyrstu tangar fastalands Íslands, aðeins rúmum kílómetra sunnan við norður heimskautsbaug. Gestir sem koma með mynd af sér við vitann geta fengið vottorð hjá þjónustuaðilum um að hafa komið á nyrsta odda landsins. Hafa þarf í hugsa að æðarfugl er alfriðaður á Íslandi og er öll umferð bönnuð í og við æðarvarpið frá 15.apríl til 14.júlí. 
Goðafoss
Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðadal. Hann er 12 metra hár og 30 metra breiður. Goðafoss er meðal stærstu fossa landsins og er jafnframt talinn einn sá fallegasti. Goðafoss skartar sínu fegursta allan ársins hring. Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. Goðafoss á líka merkilegan sess í Íslandssögunni en Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði hinum heiðnu goðum í fossinn eftir að hafa ákveðið að Íslendingar skyldu taka upp kristindóm og hafna heiðnum siðum, svona opinberlega að minnsta kosti. Goðafoss er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is 
Orbis et Globus
Kúlan er 3 metrar í þvermál og er hugmynd listamannanna sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsíns þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst. Listaverkið hefur vakið mikla athygli, bæði á Íslandi og erlendis. Hér að neðanverðu má finna hlekki á umfjallanir um það frá íslenskum og erlendum fjölmiðlum.
Pollurinn
Pollurinn á Akureyri er skemmtilegt útivistarsvæði við hjarta bæjarins. Á sumrin iðar hann af lífi þegar skemmtiferðaskip streyma að með gesti frá öllum heimshornum, smábátar eru við veiðar, boðið er upp á siglingar og námskeið af ýmsu tagi hjá siglingarklúbbinum Nökkva og ferðaþjónustuaðilum. Pollurinn er einnig ar sinna siglingum af ýmsu tagi auk fjölbreytt dýra og fuglalíf. hvalir blása, ríkulegt fuglalíf og sjá má stöku sel. Á 17. öld tóku danskir kaupmenn að reisa búðir sínar á sjálfri Akureyri sem var ein af nokkrum eyrum sem sköguðu út í Pollinn. Þeir völdu staðinn vegna afbragðs hafnarskilyrða og einnig vegna þess að héraðið er og var gjöfult landbúnaðarsvæði en dönsku kaupmennirnir sóttust einkum eftir ull og kjöti. Dönsku kaupmennirnir bjuggu þó ekki á Akureyri allt árið á þessum tíma heldur læstu þeir húsum sínum og yfirgáfu staðinn yfir vetrartímann.  Standard er flak af skútu sem sökk í pollinum á Akureyri árið 1917. Flakið er úr tré og er það um 60 metrar að lengd. Skútan liggur á leirbotni á skjólgóðum stað og hefur það vafalaust átt þátt í varðaveita flakið. Enn er skrokkmynd á flakinu en viðurinn í skrokk skipsins er orðinn nokkuð gisinn. Skrokkur skipsins er þakinn sæfíflum.   https://www.kofun.is/k%C3%B6funarkort/sk%C3%BAtan/ 
Hestfall, klettar við Hvalsvík
Malarvegur nr.870 liggur eftir Merlrakkasléttu og með því að keyra aðeins norður en Kópasker er að finna bílastæði, merkt með máluðum steinum. Farið úr bílnum og gangið beint niður að klettinum Hestfalli, en farið varlega.  Á bakaleiðinni, gangið þá eftir ströndinni suður af bílastæðinu og þá blasa við fallegir klettar útí sjónum er nefnast Hvalvík. Vinsamlegast passið ykkur vel á ströndinni og ekki fara of nálægt sjónum þar sem öldurnar eru mjög kröftugar og hættulegar.  
Heimskautsgerði
Heimskautsgerðið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessum vangaveltum kom hugmyndin að nota dvergatal  Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi, gerði skissur og líkan sem stuðst er við. Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál, 6 metra há hlið vísa til höfuðáttanna.  Í miðju hringsins er 10 metra há súla  á fjórum stöplum, sem áform eru uppi um að skarti kristaltoppi sem brýtur sólarljósið og varpar geislum sólar um allt Gerðið.  Fjórir skúlptúrar eru inní Gerðinu hvert með sínu sniði. Pólstjörnubendir sem vísar á Pólstjörnuna.  Hásæti sólar þar sem birtan í ákveðinni stöðu boðar sumarkomu. Geislakór er rými á milli hárra stöpla þar sem hægt  verður að setjast niður, tæma hugann og endurnýja orku sína.  Altari elds og vatns sem virkjar frumkraftana. Inni Gerðinu verður árhringur dverga, steinar sem hver um sig tákna ákveðinn dverg.  Þessir dvergar eru alls 72 talsins og er getið í íslenskum fornbókmenntum.  Með þeim fjölda á hver dvergur sitt „vik“ í árinu, ef miðað er við 5 daga viku.  Með því að tengja nöfn dverganna við árstíðir, eins og til dæmis nafnið Vetrarfaðir á fyrsta vetrardag þá ganga nöfnin upp eftir því hvar í árinu þeir lenda sem myndar 72 vikur.  Árhringur dverga er þannig orðinn einskonar almanak, þar sem hver dvergur ræður 5 dögum.  Til dæmis Várkaldur í viku vors, Bjartur í viku sumars þegar nætur eru bjartar og Dvalinn í haustviku þegar allt leggst í dvala fyrir veturinn. Enginn hefur getað útskýrt tilurð eða hlutverk dverganna í Völuspá nema þeirra Austra, Vestra, Norðra og Suðra, sem halda uppi himninum.  Í hugmyndafræði Heimskautsgerðisins hefur öllum dvergum verið gefið hlutverk og þeir verið persónugerðir.  Þannig er hægt að tengja dvergana við afmælisdaga og mynda tengsl við þá. Dvergarnir eru svo hluti af tímabilum goðanna sem eru gömlu mánuðirnir.  Þegar á árið er litið sést að það eru 6 dvergar sem tilheyra hverjum (gamla) mánuði og hver mánuður tilheyrir ákveðnu goði.  Hliðin, Austri, Vestri, Norðri og Suðri, á milli stöplanna vísa mót höfuðáttunum, þannig að miðnætursólin sést frá suðurhliði gegnum miðsúlu og norðurhlið, á sama hátt og sólarupprás sést frá vesturhliði í gegn um miðsúlu og austurhlið.  Samspil ljóss og skugga sýnir eyktamörkin.Nánari upplýsingar um hugmyndafræði Heimskautsgerðisins er að finna á heimasíðunni www.heimskautsgerdi.is.  Heimskautsgerðið er 50 km frá Kópaskeri, 54 km frá Þórhöfn og 154 km frá Húsavík. Hér má sjá leiðina.
Herðubreið
Fjallið Herðubreið er svo tignarlegt að það gengur undir nafninu drottning íslenskra fjalla. Fjallið er svo reglulegt, hreint í línum og fagurskapað að vart finnst líki þess í íslenskri fjallagerð.Vegurinn að Herðubreið er einungis fær yfir sumartímann.
Hrútey
  Hrútey er skrautfjöður í hatti Blönduósbæjar, umlukin jökulánni Blöndu og skartar fjölbreyttum gróðri. Fuglalíf er auðugt og gæsin á griðland þar ásamt öðrum fuglum. Hrútey er í alfaraleið við þjóðveg nr. 1, góð bifreiðastæði eru við árbakkann og traust göngubrú út í eyjuna. Hrútey er tilvalin sem útivistar- og áningarstaður. Þar eru góðir göngustígar og rjóður með bekkjum og borðum.
Reykjafoss
Reykjafoss er einn fallegasti foss í Skagafirði, staðsettur um 7 km. frá Varmahlíð. Reykjafoss er vel falinn frá veginum og oft talað um fossinn sem falinn fjársjóð. Leiðin að Reykjafossi: Keyrt er frá hringvegi 1 og beygt inn á veg númer 752. Frá vegi 752 er beygt inn á veg númer 753. Keyrt er yfir brúna og beygt til hægri þar á eftir. Keyrt er þangað til komið er að litlu bílastæði. Þaðan tekur við um fimm mínútna ganga að Reykjafossi.
Stóra Víti
Stóra - Víti er gríðarstór sprengigígur um 300 m í þvermál. Gígurinn myndaðist við mikla gossprengingu við upphaf Mývatnselda árið 1724. Gosið stóð meira og minna samfellt í 5 ár en leirgrauturinn í Víti sauð í meira en heila öld á eftir. Víti er við Kröflu og er malbikaður vegur þar upp að frá þjóðvegi númer 1.
Illugastaðir
Illugastaðir, er frægur selaskoðunar- og sögustaður. Á Illugastöðum á vestanverðu Vatnsnesi hefur verið byggður upp góður selaskoðunastaður. Gott bílaplan er á staðnum og þjónustuhús með salernisaðstöðu. Lagðar hafa verið lagðar gönguleiðir með sjónum. Á skerjum fyrir utan og syndandi í sjónum má flesta daga ársins sjá fjölmarga seli. Einnig hefur verið reist selaskoðunarhús út í tanga. Þar eru upplýsingar um selina og góð aðstaða til að fylgjast með selunum á sundi og liggjandi í skerjum. Athugið! Vegna mikils æðarvarps sem er á Illugastöðum þá er selaskoðunasvæðið lokað frá 30. apríl til 20. júní ár hvert[6]. Morðin á Illugastöðum. Agnes Magnúsdóttir (fædd 27. október 1795, dáin 12. janúar 1830) varð síðasta konan til að vera tekin af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða ásamt Friðriki Sigurðssyni fyrir morð á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Þau voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830.[7]
Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss er talinn fegursti fossinn í Skjálfandafljóti. Fagrar stuðlabergsmyndanir ramma inn fossinn og þar er líka að finna marga skessukatla.  Vegur liggur alla leið að honum vestan Skjálfandafljóts.
Hringsbjarg
Hringsbjarg er staðsett á austanverðu Tjörnesi. Þaðan er stórbrotið útsýni yfir fjallgarð Öxafjarðar og heillandi svarta strönd sem er í nágrenninu og auðvelt að komast að. Við Hringsbjarg er stór útsýnipallur, gott bílastæði og upplýsingaskilti. Þetta er hinn fullkomni staður til að stoppa og teygja úr sér, anda að sér fersku sjávarloftinu og njóta útsýnisins og kyrrðarinnar. Í bjarginu er mikið fuglalíf sem gaman er að skoða.
Bárðarbunga
Bárðarbunga í Vatnajökli er stór og öflug megineldstöð.   Er hún jafnframt víðáttumesta eldstöð landsins, talin vera nálægt 200 km. löng og allt að 25 km. breið.  Eldstöðin er hulin ís og í henni leynist gríðarmikil jökulfyllt askja.  Önnur megineldstöð er í kerfinu, það er Hamarinn.  Vegna þess hve fjarri eldstöðin var byggðu bóli þá var fremur lítið var vitað um Bárðarbungu lengi vel en smámsaman varð mönnum ljóst að undir þessari miklu íshellu í norðvesturjaðri Vatnajökuls leyndist eitt öflugasta og hættulegasta eldfjall Íslands.   Hæsti blettur Bárðarbungu er 2009 metra hár og hún er því næsthæsta fjall landsins. Askjan í Bárðarbungu er um 70 ferkílómetrar , allt að 10 km. breið og um 700 metra djúp.  Umhverfis hana rísa barmarnir í allt að 1850 metra hæð en botninn er víðast í um 1100 metra hæð.  Askjan er algjörlega jökulfyllt. Mörg gjóskulög sem upphaflega voru eignuð öðrum eldstöðvakerfum í Vatnajökli hafa við síðari tíma rannsóknir reynst vera úr Bárðarbungu.  Einnig leiddi Gjálpargosið 1996 í ljós að samspil getur átt sér stað milli Bárðarbungu og Grímsvatna.  Þá hleypti kröftugur jarðskjálfti í Bárðarbungu, um 5 á Richter, af stað gosi á milli eldstöðvanna en kvikan var ættuð úr Grímsvatnakerfinu. Mikil jarðskjálftavirkni hefur lengi verið viðvarandi í Bárðarbungu án þess að til goss hafi komið.  Skjálftarnir staðfesta að þarna er bráðlifandi eldfjall.