Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Áfangastaðaáætlun

Ábyrg þróun ferðaþjónustu á Norðurlandi

Áfangastaðaáætlun Norðurlands er unnin af Markaðsstofu Norðurlands (MN) í samstarfi við Ferðamálastofu og nær yfir allt starfssvæði MN, eða frá Hrútafirði yfir á Bakkafjörð.

Hagsmunaaðilar DMP

Í áfangastaðaáætlun (e. Destination Management Plan – DMP) felst heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila og tiltaka beinar aðgerðir. Fyrsta áfangastaðaáætlunin fyrir Norðurland, sem gefin var út árið 2018, var samkvæmt forskrift Ferðamálastofu, en Ferðamálastofa leiddi verkefnið og samdi við markaðsstofur landshlutanna um að halda utan um vinnslu áætlananna. Í tengslum við vinnslu fyrstu áætlunarinnar var unnin greiningarvinna, sem lagði grunn að stefnu um þróun ferðaþjónustu á Norðurlandi, skilgreiningu lykilverkefna og aðgerðaáætlun. Enn er byggt á áætluninni frá 2018, en við síðari uppfærslur hefur uppsetningin verið betrumbætt, verkefnastaða verið uppfærð sem og talnagreiningar.

Fyrir hverja er áfangastaðaáætlun?

Lykilhagaðilar eru ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög á Norðurlandi. Aðrir hagaðilar eru þeir sem hafa beinan eða óbeinan hag af ferðaþjónustu á viðkomandi svæði. Áfangastaðaáætlun getur nýst hagaðilum innan svæðis en einnig aðilum utan svæðis. Í gegnum áfangastaðaáætlun geta fulltrúar stjórnvalda og stoðkerfis fengið skýra mynd af starfsemi ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og áherslum og verkefnum MN.

Um forgangsverkefni sveitarfélaga

Í nýjustu útgáfu áætlunarinnar hverju sinni er settur fram listi verkefna sem forsvarsfólk sveitarfélaga setur í forgang á sínu svæði. Verkefnin eru misstór og byggja á þörfum hvers sveitarfélags en eiga það sammerkt að bæta aðgengi að áfangastöðum eða búa til nýja, þar sem bæði er gætt að því að byggja upp grunnþjónustu og að því að bæta upplifun ferðamanna.

Hér að neðan má sjá tengingar inn á forgangsverkefni sveitarfélaganna. Hægt er að kynna sér verkefnin með því að smella á nafn hvers sveitarfélags.

 

 

Forgangsverkefni 2024

Fréttir af verkefninu

  • Forgangsverkefni sveitarfélaga uppfærð í Áfangastaðaáætlun

    Áfangastaðaáætlun fyrir Norðurland hefur nú verið uppfærð og birt á vef MN, en hún byggir á fyrri útgáfu, þar sem lagður var grunnur að stefnu um þróun ferðaþjónustu á Norðurlandi og skilgreiningu lykilverkefna. Í þessari útgáfu hafa talnagögn verið uppfærð, sem og verkefnastaða. Einnig er lagður fram listi yfir forgangsverkefni sveitarfélaga.
  • Vinnufundur um áfangastaðaáætlun Norðurhjara

    Undanfarna mánuði hefur Markaðsstofa Norðurlands unnið að áfangastaðaáætlun fyrir Norðurhjarasvæðið. Markmið verkefnisins er að móta sameiginlega sýn svæðisins fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu.
  • Nýr verkefnastjóri markaðs- og áfangastaðaþróunar

    Elín Aradóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri markaðs- og áfangastaðaþróunar hjá Markaðsstofu Norðurlands, en starfið var auglýst í sumar. Verkefnastjóri vinnur í nánu samstarfi við ferðaþjónustuaðila og sveitarfélög á öllu Norðurlandi að þróun og markaðssetningu áfangastaðarins. Hún kemur til starfa hjá MN um miðjan september.
  • Samtal um aðgerðaáætlun ferðamála til 2030 - fundir 14. og 15. febrúar

    Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra býður til opinna umræðu- og kynningarfunda um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Fundirnir eru haldnir víðs vegar á landinu og má sjá dagskrá hér fyrir neðan. Fyrstu viðkomustaðir í hringferð ráðherra er Akureyri og Sauðárkrókur.