Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Sagan um sveitir

Landnám Íslands hófst um 874 og á næstu áratugum og öldum flutti fjöldi fólks til Íslands. Landbúnaður hefur verið stór hluti af lifibrauði Íslendinga allt frá landnámi og byggðist landið að mestu leyti upp þar sem góð ræktunar- og búskaparskilyrði voru til staðar.

Komdu með okkur í ferðalag um sveitir Norðurlands.

Íslendingar voru meðal fátækustu þjóða heims á seinni hluta 19. aldar. Landbúnaður er, eins og gefur að skilja, viðkvæmur fyrir sveiflum í náttúrunni og hart árferði af völdum kulda eða náttúruhamfara hafði því oft hungursneyðir í för með sér. Allur þorri fólks bjó í sveitum og bóndabærinn var hornsteinn samfélagsins.
Með iðnvæðingu urðu fyrst breytingar á íslenskum samfélagsháttum, þegar vélvæðing fiskiskipaflotans hófst og farið var að flytja inn togara í byrjun aldarinnar. Þessu fylgdu breytingar á atvinnuháttum og búsetu. Fólk flutti úr sveitum í þorp til að stunda margvísleg störf tengd sjávarútvegi, en áður hafði vinna við fisk verið árstíðabundin.
Enn frekari breytingar urðu í atvinnu - og byggðaþróun með seinni heimsstyrjöldinni. Landið var hernumið af Bretum 1940 og Ameríkanar tóku svo við af þeim 1941. Hersetan hafði mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðina. Vegir voru lagðir, flugvellir byggðir o.s.frv., og margvíslega þjónustu þurfti að inna af hendi við herliðið. Þessar breyttu aðstæður höfðu áhrif á alla félagsgerð hins íslenska samfélags og fólksflutningar utan af landi til Reykjavíkur urðu meiri en nokkru sinni. Dreifbýlissamfélagið breyttist á skömmum tíma í borgarsamfélag og flestir Íslendingar búa nú í þéttbýli. Nú starfa aðeins tæp 3% þjóðarinnar við landbúnað en árið 1860 lifðu um 83% þjóðarinnar á landbúnaði.

Vegna einangrunar landsins hafa ekki orðið miklar breytingar á dýralífi þess. Flestar dýrategundir eru af erlendum uppruna og talið er að einungis ein spendýrategund, tófan, hafi haft hér búsetu á undan manninum. Aðrar spendýrategundir hafa komið með honum við landnám. Þeirra á meðal er sauðkindin, sem átti eftir að halda lífinu í mannfólkinu á erfiðleikatímum, og hesturinn sem er líklega þekktastur íslenskra dýra.

Upplifðu sveitalífið, klappaðu dýrunum og fáðu að kynnast sveitasælunni í kyrrð og ró.

Matarhættir Íslendinga breyttust mikið í lok nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu, í takt við aðrar breytingar á lífsháttum á borð við þéttbýlismyndun og innflutning matvöru. Nýjar geymsluaðferðir, fyrst niðursuða og síðan frysting, leystu þær gömlu af hólmi og þar með breyttist mataræðið.

Í dag framleiða íslenskir bændur fjölbreyttar búvörur sem eru þekktar fyrir gæði og ferskleika. Metnaður bænda stendur til þess að sjá þjóðinni fyrir sem mestu af þeim matvælum sem hún þarfnast og hægt er að framleiða innanlands. Landbúnaður er samofinn atvinnulífi víðast á landsbyggðinni og bændur eru þátttakendur í nýsköpun í atvinnulífi, uppgræðslu lands, skógrækt og svo má áfram telja.