Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fish&Chips Lake Mývatn í úrslit í alþjóðlegri samkeppni

Veitingastaðurinn Fish&Chips Lake Mývatn er kominn í úrslit í alþjóðlegum flokki í samkeppninni „The National Fish and Chips Award 2026“ en tilkynnt verður um sigurvegara í London þann 25. febrúar næstkomandi.

Veitingastaðurinn Fish&Chips Lake Mývatn er kominn í úrslit í alþjóðlegum flokki í samkeppninni „The National Fish and Chips Award 2026“ en tilkynnt verður um sigurvegara í London þann 25. febrúar næstkomandi. Samkeppnin þykir ein sú virtasta í Bretlandi í flokki sjávarrétta en fiskur og franskar er einn þeirra rétta sem Bretar eru hvað þekktastir fyrir að bjóða upp á. 

Á vefnum husavik.com er fjallað um tilnefninguna, en þar segir að til þess að komast svo langt í samkeppninni þurfi gögn um uppruna og meðferð hráefnis, gæði verkferla, hreinlæti og stöðugleika í framleiðslu. Veitingastaðurinn opnaði árið 2022 í Reykjahlíð og hefur verið opinn yfir sumartímann síðan þá, með góðum árangri. 

Íslenskur fiskur hefur gjarnan verið í stóru hlutverki í samkeppninni en árið 2025 var Seafood Iceland aðalstyrktaraðilum hennar. Sigurvegararnir fengu ferð til Íslands í vinnning, sem Íslandsstofa skipulagði í kringum Sjómannadaginn. Farið var til Siglufjarðar, Dalvíkur og á Hauganes, áður en haldið var áfram í Mývatnssveit og Möðrudal. Á meðal þess sem var á dagskrá var heimsókn á Fish&Chips Lake Mývatn. Ferðin endaði svo á Austfjörðum, en lesa má nánar um þá ferð hér.