Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fjölbreyttir valmöguleikar til baðferða

Hvergi á Íslandi er jafn fjölbreytt úrval af böðum og á Norðurlandi. Ferðamenn geta baðað sig upp úr heitum sjó – og auðvitað köldum líka, heitu hveravatni beint úr borholum og síðast en ekki síst, heitum bjór!

Hvergi á Íslandi er jafn fjölbreytt úrval af böðum og á Norðurlandi. Ferðamenn geta baðað sig upp úr heitum sjó – og auðvitað köldum líka, heitu hveravatni beint úr borholum og síðast en ekki síst, heitum bjór!

Jarðböðin í Mývatnssveit voru formlega opnuð í júní árið 2004, við Jarðbaðshóla skammt frá Reykjahlíð. Þar hafa þó heit jarðböð verið stunduð til mun lengri tíma, enda varð örnefnið til löngu áður. Samkvæmt heimasíðu Jarðbaðanna nær sagan allt aftur til 13. aldar þegar biskupinn Guðmundur góði vígði gufuholu sem notuð var til gufubaða. Reyndar má finna leifar af gömlu gufubaði sem bændur í sveitinni byggðu ofan í lítilli gjá, og helli þar sem gufan stígur upp og út úr veggjunum, ekki langt frá böðunum sjálfum. Kunnugir leiðsögumenn geta vísað á þann helli, en auðveldara er þó að finna Grjótagjá þar sem böð voru stunduð langt fram á síðustu öld. Í Kröflueldum varð breyting á hitastiginu í vatninu og nú er það of heitt til að hægt sé að fara ofan í. Það er þó engu að síður afar skemmtilegt að skoða gjánna og ummerki eftir jarðhræringar sem sjást svo vel þar.

Á Húsavík er að finna GeoSea sjóböðin, nánar tiltekið á Húsavíkurhöfða. Þar hafa innfæddir baðað sig upp úr heitum sjó í langan tíma, en nú geta ferðamenn gert slíkt hið sama allan ársins hring eftir að GeoSea var opnað. Forsagan er sú að borað var eftir heitu vatni í höfðanum, en vatnið sem kom upp reyndist vera heitur sjór sem var of steinefnaríkur til að henta til húshitunar. Til að það færi nú ekki allt til spillis var sett upp gamalt ostakar og vatnið látið streyma þar í gegn svo fólk gæti baðað sig í karinu. Steinefnin í vatninu eru talin hafa góð áhrif á húðina, meðal annars hafa psoriasis sjúklingar látið vel af sínum baðferðum. Árið 2018 var GeoSea svo formlega opnað en hönnun hússins og lauganna fellur einstaklega vel inn í umhverfið, en staðurinn er mikið ljósmyndaður og þá sérstaklega er tilkomumikið að sjá myndir teknar með drónum sem sýna hversu nálægt klettabjarginu sjálfar laugarnar eru. Útsýnið úr böðunum lætur engan ósnortinn, þar sem hægt er að njóta miðnætursólar eða norðurljósa og jafnvel sjá hvali gægjast upp fyrir yfirborðið í Skjálfandaflóa.

Bjórböðin á Ársskógssandi eru einstök á Íslandi og raunar er það frekar sjaldgæft á heimsvísu að geta baðað sig upp úr heitum bjór. Eftir nokkurra ára undirbúning voru Bjórböðin formlega opnuð sumarið 2017, en hugmyndin kom til stofnendanna þegar þau voru á ferðalagi um Tékkland og heimsóttu bjórböð þar í landi. Eigendur eru þeir sömu og að bruggverksmiðjunni Kalda. Í bjórbaði er notaður ungur bjór, óáfengur og með lágt pH gildi, sem kemur sér vel fyrir húðina. Humlar, bjórger, bjórolía, bjórsalt og svo auðvitað heitt vatnið hafa sömuleiðis góð áhrif á húðina en einnig slakandi áhrif á vöðva og líkama. Að sjálfsögðu er svo bjórdæla við hvert baðkar, þar sem tveir geta baðað sig saman í einu. Einnig er boðið upp á innrauða gufu, gufubað og útipotta.

Nýjasta viðbótin í flóru baðstaða á Norðurlandi eru Skógarböðin við Akureyri. Við rætur Vaðlaheiðar, umkringt skógargróðri og háum trjám er að finna fallegt baðlón og veitingastaðinn Skógar Bistró. Í lóninu eru tveir barir þar sem hægt er að panta sér kalda drykki, þar er köld laug og þurrsána fyrir þau sem vilja bæði mjög heitt og mjög kalt.




Hér eru ekki talin upp þeir fjölmörgu valmöguleikar sem bjóðast til sundferða í hefðbundnum sundlaugum, en sumar af glæsilegustu sundlaugum landsins er að finna á Norðurlandi. Nægir þar að nefna laugina á Hofsósi sem dæmi. Einnig er hér að finna náttúrulaugar á borð við Grettislaug og falin perla er svo heitu pottarnir á Hauganesi, þar sem ofurhugar geta líka svamlað um í köldum sjónum.