Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fossar á Norðurlandi

Á Norðurlandi er að finna marga fossa, en þó eru kannski tveir þeirra sem eru þekktari en aðrir.

Á Norðurlandi er að finna marga fossa, en þó eru kannski tveir þeirra sem eru þekktari en aðrir. Annar þeirra er nátengdur sögu kristni á Íslandi en hinn er sá aflmesti í Evópu, Goðafoss og Dettifoss. Aldeyjarfoss er einn fallegasti foss landsins og afar vinsæll til ljósmyndunar, og Kolufossar eru minna þekktir en þó einhver sú mesta náttúruperla sem hægt er að finna á Norðurlandi með þröngt og fallegt gljúfur vel falið í landslaginu ekki langt frá þjóðvegi 1. Hið sama má segja um Reykjafoss, að hann sé vel falinn í Skagafirði skammt frá Vindheimamelum.

Smelltu hér til að skoða myndirnar stærri

KolufossarKolugljúfurKolugljúfur

Sem fyrr segir er Kolugljúfur ekki langt frá þjóðvegi 1. Aðeins tekur um 5 mínútur að keyra þangað, en gljúfrið er í Víðidal. Árið 2018 var þar byggður myndarlegur útsýnispallur og nóg er af bílastæðum við gljúfrið sem er afar tilkomumikið að sjá – en ekki fyrr en komið er að gljúfrinu. Kolufossar falla í gilið, bæði háir og tignarlegir en líka beljandi og ógnarlegir. Fossarnir og gljúfrið er kennt við þjóðsöguna um tröllkonuna Kolu sem var sögð hafa búið í gilinu og sótt sér laxa undir fossana til að éta á fastandi maga.

ReykjafossReykjafoss

Reykjafoss í Skagafirði er lítt þekktur foss enda er ekki nokkur leið að koma auga á hann fyrr en maður er kominn alveg að honum. Lítið bílastæði er við upphaf gönguleiðar sem liggur að fossinum og gilinu sem hann fellur í, við Vindheimamela í um 7 kílómetra fjarlægð frá Varmahlíð. Hægt er að beygja til suðurs og fara eftir vegi 752 og svo 753 en þar eru lítil skilti sem vísa veginn að réttum stað.

GoðafossGoðafoss

Goðafoss í Skjálfandafljóti er við þjóðveg 1 og einhver allra vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Norðurlandi. Aðgengi hefur verið stórbætt á síðustu árum, með malbikuðum bílastæðum, göngustígum og útsýnispöllum. Sagan segir að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi gripið til þess ráðs að fleygja goðalíkneskjum sínum í fossinn til þess að staðfesta að hann hefði tekið upp kristni trú, en honum hafði verið falið það hlutverk að ná sáttum á milli kristinna og heiðinna manna. Talið er að nafnið Goðafoss hafi orðið til vegna þessarar sögu.

DettifossDettifoss

Aflmesta foss Evrópu, Dettifoss, má skoða frá tveimur hliðum. Hægt er að keyra að fossinum eftir vegi 864, austan megin við hann. Sá vegur er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverji sinni. Vestanmegin er malbikaður vegur og bílastæði, auk salernisaðstöðu. Þaðan liggja göngustígar að nokkrum útsýnisstöðum við fossinn og meðal annars að sérstökum útsýnispalli á besta stað. Þar finnur maður vel fyrir ógurlegum kraftinum og það má alveg gera ráð fyrir því flesta daga að finna vel fyrir úðanum frá fossinum. Um kílómeter sunnan við Dettifoss er Selfoss, sem er ekki hár foss en rúmlega 100 metra breiður og glæsilegur á að líta. Nokkru lengra norður við Dettifoss er svo að finna Hafragilsfoss, sem er í fallegu umhverfi Rauðhóla.

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss liggur nokkuð mikið sunnar í Skjálfandafljóti en Goðafoss, og þykir jafnvel fegurri. Hann er umkrindur stórbrotnu stuðlabergi og þangað er auðvelt að keyra á fólksbílum að sumarlagi eftir vegi 842 sem síðan breytist í hálendisveginn F26 – Sprengisandsleið en ekki þarf þó að keyra nokkra kílómetra eftir honum.

Hér hefur aðeins verið farið yfir helstu fossana á Norðurlandi – þeir eru auðvitað æði margir, suma er auðvelt að sjá en aðrir eru vel faldir eða á stöðum sem erfitt er að komast að. Ef þú lumar á fallegum myndum frá fossum á Norðurlandi hvetjum við þig til að deila þeim með okkur á Instagram með myllumerkinu #nordurland.

Mígandi/Hjallafoss í Vatnsdal