Bræðrafell er gönguskáli í um 7 km beinni loftlínu vestur af Herðubreið, byggður 2016. Skálinn stendur í 720 m hæð yfir sjó suðaustan við samnefnt fell syðst í Kollóttudyngju. Gistirými er fyrir 16 manns, svefnpokapláss er í kojum. Í skálanum eru eldhúsáhöld, sólóvél og gashella. Kamar.
220 v rafmagn (inverter) fyrir hleðslu á símum, myndavélum og tölvum. Ekkert vatnsból er á staðnum en regnvatni safnað af þaki skálans í brúsa yfir sumartímann (júlí og ágúst). Fólki er þó ráðlagt að hafa drykkjarvatn meðferðis í ferðum um Ódáðahraun.
Athugið að skálinn er læstur. Því þarf að vera búið að panta gistingu og fá talnakóða að lyklaboxi við útidyrnar frá skrifstofu FFA eða hjá skálavörðum í Drekagili áður en ferð hefst. Frá jeppaslóð sem endar við uppgöngu á vestanverðri Herðubreið er greiðfær stikuð gönguleið, um 8 km í vestur að skálanum. Um 19 km stikuð gönguleið liggur milli Herðubreiðarlinda og Bræðrafells og frá Bræðrafelli er um 20 km stikuð gönguleið suður í Drekagil.
Opið er fram frá byrjun júlí fram í miðjan ágúst. Ef veður leyfir er hægt að fá gistingu utan þess tíma en þá þarf að hafa samband við skrifstofu FFA, ffa@ffa.is eða í síma 462 2720.
GPS: N65°11,31 W16°32,29