Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Breyting á stjórn og upptaka frá aðalfundi

Ný stjórn Markaðsstofu Norðurlands var kosin á aðalfundi sem haldinn var þann 11. maí síðastliðinn. Eins og á síðasta ári var aðalfundurinn haldinn á í fjarfundi á Zoom vegna samkomutakmarkana.

Ný stjórn Markaðsstofu Norðurlands var kosin á aðalfundi sem haldinn var þann 11. maí síðastliðinn. Eins og á síðasta ári var aðalfundurinn haldinn á í fjarfundi á Zoom vegna samkomutakmarkana.

Á fundinum var kosið um breytingar á skipulagsskrá en Markaðsstofa Norðurlands er nú orðin áfangastaðastofa, eins og aðrar markaðsstofur landshlutanna. Samningar um rekstur áfangastaðastofu var undirritaður í apríl, við SSNE og SSNV. Smelltu hér til að lesa meira um þá og markmiðið með breytingunni. Í kjölfar þessara breytinga á skipulagsskrá var sætum í stjórn fjölgað úr fimm í sjö en þar af eiga SSNV og SSNE sitthvort sætið, auk varamanna.

Fundarstörf gengu vel fyrir sig og hér að neðan má sjá upptöku frá kynningu framkvæmdastjóra á störfum MN árið 2020. Einnig má smella hér til að skoða glærurnar.

Venju samkvæmt var kosið í lausar stöður í stjórn MN, en nú voru það staða aðalmanns á Norðurlandi eystra og einnig eitt sæti varamanns.

Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna við Mývatn, varð hlutskarpastur í kjörinu um aðalmann og kemur inn í stjórn til tveggja ára. Þorbjörg Jóhannsdóttir varð hlutskörpust í kjörinu um varamann.

Úr stjórn fór Edda Hrund Guðmundsdóttir, en hún hafði sagt sig úr stjórn MN fyrr í vetur þar sem hún hafði látið af störfum sem hótelstjóri Hótel Laxár og starfaði ekki áfram í ferðaþjónustu. Einnig lét Þórdís Bjarnadóttir frá Höldi af störfum, en hún hafði verið varamaður og svo aðalmaður eftir að Edda Hrund sagði sig úr stjórn. Þeim eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Ný stjórn er því eftirfarandi: Viggjó Jónsson frá Drangeyjarferðum, Örn Arnarson eigandi Hótel Laugarbakka, Heba Finnsdóttir eigandi Striksins, Sigrún Hulda Sigmundsdóttir hótelstjóri Icelandair hótel Akureyri, Guðmundur Þór Birgisson framkvæmdastjóri Jarðbaðanna við Mývatn, Hilda Jana Gísladóttir fyrir hönd SSNE og Álfhildur Leifsdóttir fyrir hönd SSNV.

Varamenn eru Þorbjörg Jóhanssdóttir sölustjóri hjá Höldi, Tómas Árdal eigandi Arctic Hotels, Axel Grettisson fyrir hönd SSNE og Ingibjörg Huld Þórðardóttir fyrir hönd SSNV.