Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fréttaskot í september

Vestnorden er á næsta leiti, sömuleiðis Uppskeruhátíðin og skráning meðlima í Arctic Coast Way hefst í október.

Uppskeruhátíð Markaðsstofu Norðurlands fer fram í Húnaþingi vestra fimmtudaginn 18. október, en þar fáum við kynningu á ferðaþjónustunni á því svæði og að venju verða veitt verðlaun til þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á síðastliðnu ári. Skráning stendur nú yfir og lýkur 13. október, en allar nánari upplýsingar um hátíðina og skráninguna má finna með því að smella hér.

VestNorden

VestNorden kaupráðstefnan verður haldin á Akureyri í október. Það verða 17 ferðir farnar um Norðurland í tengslum við ráðstefnuna með seljendur, kaupendur og blaðamenn. Um 500-600 manns koma sérstaklega á sýninguna og mun Markaðsstofa Norðurlands leggja sérstaka áherslu á það hve gott er að sjá Norðurljós á svæðinu, og ber uppfærður ímyndarbæklingur okkar þess merki sem sérstaklega var hannað fyrir þetta tilefni og sést hér til hliðar. 

Skráning í ACW hefst í október

Í október verður næsta stóra skrefið í þróun Arctic Coast Way stigið, þegar opnað verður fyrir skráningar meðlima. Því fyrr sem skráningar berast, því auðveldara verður að koma meðlimum á framfæri í markaðssetningu ACW. Sérstök heimasíða er í smíðum, gefin verða út kort og bæklingar og þar skiptir miklu að hafa sem flesta meðlimi með frá upphafi. Sömuleiðis verður markaðssetningin öflugri eftir því sem fleiri meðlimir taka þátt.

Superbreak og ILS

Þær ánægjulegu fréttir bárust nýverið að búið sé að fullfjármagna uppsetningu ILS búnaðar sem settur verður upp á Akureyrarflugvöll fyrir aðflug úr norðri. Tafir hafa orðið á verkefninu og mun búnaðurinn ekki verða kominn í gagnið fyrir flugferðir bresku ferðaskrifstofunnar Super Break í vetur, en engu að síður skiptir þessi búnaður miklu máli fyrir markaðssetningu flugvallarins erlendis gagnvart flugfélögum sem hafa sýnt því áhuga að fljúga til Akureyrar. 

Salan hjá Super Break á vetrarferðunum gengur vel og nú í september hófst hin eiginlega markaðssetning ferðaskrifstofunnar. Þar spilar sjónvarpsauglýsing, sem unnin var upp úr efni frá Markaðsstofunni, miklu máli en henni er sjónvarpað um allt Bretland og því mikil auglýsing sem Norðurland fær. Með því að smella hér má sjá auglýsinguna.