Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Gott aðgengi í ferðaþjónustu

Gott aðgengi fyrir fólk með fötlun leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla.

Í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörgu og ÖBÍ réttindasamtök hefur Ferðamálastofa sett af stað fræðslu-og hvatningarverkefni undir nafninu Gott aðgengi. Með verkefninu vilja samstarfsaðilar bregðast við því sem lengi hefur verið kallað eftir, en það er að bæta aðgengi fyrir fatlaða í ferðaþjónustu.

Smelltu hér til að lesa um verkefnið á vef Ferðamálastofu.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu á þessum mikilvæga málaflokki og aðstoða ferðaþjónustuaðila við að taka á öruggan og ábyrgan hátt á móti hreyfihömluðum og fötluðum einstaklingum þannig að aðstaða og þjónusta sé í samræmi við þarfir þeirra.

  1. Verkefnið, sem er sjálfsmat og verkfæri fyrir ferðaþjónustuaðila, byggir á trausti og vilja til að sýna ábyrgð í verki til að þjóna þessum markhópi sem best.
  2. Verkefninu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að sýna með áþreifanlegum hætti að þeim er umhugað um alla gesti og gera sitt besta til að taka vel á móti þeim.
  3. Ferðaþjónustuaðilar sem telja sig uppfylla allar lágmarkskröfur um aðgengismál í sjálfsmatinu fá viðeigandi merki verkefnisins. Í boði eru þrjú merki; aðgengi fyrir fatlaða/ hreyfihamlaða, aðgengi fyrir sjónskerta og blinda og aðgengi fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa.
  4. Viðmið fyrir fatlaða/hreyfihamlaða eru grunnviðmið. Allir sem taka þátt í Góðu aðgengi þurfa a.m.k. að uppfylla lágmarkskröfur sem þar eru settar fram. Til viðbótar eru sérstök viðmið vegna aðgengis fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa og fyrir sjónskerta og blinda sem eru valkvæð.
  5. Sýnum að Ísland er tilbúið að taka á móti öllum gestum sínum af fagmennsku og ábyrgð!

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) búa um 15% jarðarbúa (1 milljarður manna) við einhvers konar fötlun. Aðgengi fyrir alla að aðstöðu og þjónustu í ferðaþjónustu er mannréttindamál og ætti að vera hluti af ábyrgri og sjálfbærri starfsemi fyrirtækja. En gott aðgengi er ekki bara mannréttindi. Það er einnig viðskiptatækifæri fyrir áfangastaði og fyrirtæki að geta tekið vel á móti öllum gestum, hvort sem þeir eru fatlaðir, hreyfihamlaðir, aldraðir eða með aðrar sérstakar þarfir.

„Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra.“

Kynningarfundir 10. nóvember og 15. nóvember

Ferðamálastofa upp á ókeypis kynningar á þessu nýju verkfæri. Kynningarnar eru haldnar í fjarfundi og miðað við að hafa 10-12 þátttakendur í hvert sinn. Næstu kynningar verða haldnar 10. nóvember og 15. nóvember og skráning er hér að neðan:

Skráning 10. nóvember: https://tinyurl.com/yfk7jjab

Skráning 15. nóvember: https://tinyurl.com/5xjtceds

Smelltu hér til að lesa um verkefnið á vef Ferðamálastofu