Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Takk fyrir Vestnorden 2025!

Gleðin var við völd á Akureyri í síðustu viku þegar fertugasta Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í Íþróttahöllinni og Hofi. Fagmennska, nýsköpun, framsækni og samvinna var einkennandi fyrir norðlenska ferðaþjónustu.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands skrifar:

„Gleðin var við völd á Akureyri í síðustu viku þegar fertugasta Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í Íþróttahöllinni og Hofi. Fagmennska, nýsköpun, framsækni og samvinna var einkennandi fyrir norðlenska ferðaþjónustu. Hvort sem um var að ræða í ferðum fyrir og eftir Vestnorden, kynningarstarfinu sjálfu á fundarborðunum eða í kynnisferðunum sem norðlensku ferðaþjónustufyrirtækin buðu upp á. Allir þátttakendur fóru heim með góð kynni af Norðurlandi, sterkari sambönd við fólk á svæðinu og nýjar hugmyndir um aukin viðskipti.

Kærar þakkir til NATA fyrir að velja Akureyri og Norðurland fyrir Vestnorden 2025, það skiptir gríðarlega miklu máli að fá slíkan viðburð til okkar. Einnig fær Akureyrarbær miklar þakkir fyrir að taka vel á móti viðburðinum og öllu sem honum fylgir, aðstoðina við skipulagninguna og stuðninginn.

Yfir 550 þátttakendur komu til að kynna sína ferðaþjónustu eða til að kynnast henni betur hjá öðrum og skipuleggja framtíðarferðir til Íslands, Grænlands og Færeyja. Þar af voru um 160 fulltrúar frá erlendum ferðaskrifstofum. Yfir 30 norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki voru á Vestnorden og nýttu tækifærið sem fólst í því að hafa viðburðinn hér fyrir norðan. Vinna ykkar, samstarfsfyrirtækja MN, lagði grunninn að góðum viðburði og endurspeglaði styrk norðlenskrar ferðaþjónustu.

Starfsfólk Markaðsstofu Norðurlands spilaði stórt hlutverk í undirbúningi og framkvæmd Vestnorden, þar sem Íslandsstofa er í forsvari og leiðir verkefnið. Gott samstarf þar á milli er lykilatriði í því að allt gangi sem best og að hægt sé að tækla hin ýmsu mál sem þarf oft að leysa með hraði. Takk fyrir ykkar vinnu og metnað, sem skein í gegn í öllu sem við kom Vestnorden 2025.“