Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Tvö hundruð mættu á vinnustofu með Condor

Þriðjudaginn 24. janúar stóð þýska flugfélagið Condor fyrir rafrænni vinnustofu, með Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú

Þriðjudaginn 24. janúar stóð þýska flugfélagið Condor fyrir rafrænni vinnustofu, með Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú. Á vinnustofuna komu tæplega 200 manns frá þýskum ferðaskrifstofum. Landshlutarnir voru kynntir í sitt hvoru lagi en auk þess kynnti Condor sínar áætlanir og hvað félagið mun bjóða upp á í sumar. Sem kunnugt er verður flogið frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða, einu sinni í viku á hvorn áfangastað. Í framhaldinu má svo búast við frekari samskiptum við þýskar ferðaskrifstofur, bæði beint við Markaðsstofu Norðurlands en einnig við samstarfsfyrirtæki sem bjóða upp á vörur sem henta hverri ferðaskrifstofu.

Condor á nú þegar í samstarfi við ferðaskrifstofurnar Opodo og Canusa, sem eru þessa dagana að auglýsa Norðurland og Austurland eftir sínum boðleiðum. Auk þess nýtir flugfélagið sínar eigin leiðir við markaðssetningu. 

Til að fá nánari upplýsingar um samskipti við ferðaskrifstofur, hvort sem það tengist Condor eða öðrum, má alltaf hafa samband við MN á netfanginu info@nordurland.is eða með því að slá á þráðinn - 462 3300.