Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

„Við viljum vera með allt á hreinu“

Bílaleiga Akureyrar – Höldur er rótgróið norðlenskt fyrirtæki. Upphafið má rekja aftur til ársins 1966, en fyrirtækið Höldur var stofnað þann 1. apríl 1974 og hefur gegnum tíðina stundað ýmiskonar þjónustustarfsemi, m.a. rekstur veitingastaða og verslana og bensínstöðva svo eitthvað sé nefnt. Starfsemin hefur þróast mikið gegnum tíðina, en síðan 2003 hefur bílaleiga og bílaþjónusta verið í forgrunni. Langstærsti hluti starfseminnar í dag snýst um bílaleigu, en einnig rekur fyrirtækið alhliða bílaverkstæði, dekkjaverkstæði, bílaþvottastöð og bílasölu á Akureyri. Bílafloti og starfsmannafjöldi hefur vaxið jafnt og þétt og í dag starfa rétt tæplega 300 starfsmenn hjá fyrirtækinu og flotinn telur um 8000 bifreiðar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri, en einnig eru reknar starfsstöðvar í Reykjavík og Keflavík, auk afgreiðsluútibúa vítt og breitt um land.

Forsaga stefnumótunar hjá fyrirtækinu

„Áherslur fyrirtækisins snúast fyrst og fremst um að veita framúrskarandi þjónustu í sátt við umhverfi og samfélag“, segir Jón Gestur Ólafsson, gæða,- umhverfis og öryggisstjóri Hölds. Vegferð stefnumótunar hjá fyrirtækinu hófst í kringum 2006, þegar fyrirtækið fór í gegnum það ferli að fá vottun í umhverfis og gæðamálum. Fyrirtækið fékk síðan ISO 14001 vottun í umhverfismálum og ISO 9001 vottun í gæðamálum árið 2010. Umhverfisstefna var á þessum tíma mótuð og innleidd út frá greindum umhverfisþáttum og áherslum fyrirtækisins. Stefnan þróaðist svo með tímanum og áhersla á sátt við samfélagið og umhverfið í held var innleidd í stefnuna árið 2016. Sú breyting var í raun upphafið að stefnumótun um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð, sem hefur svo verið leiðandi í starfsemi fyrirtækisins undanfarin ár.

Byggt á grunni rótgróinna gilda

Mótun stefnu um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð snérist fyrst og fremst um að taka saman gögn um áherslur og verklag sem hafði lengi tíðkast hjá fyrirtækinu. Upplýsingar voru teknar saman á skipulagðan hátt og settar inn í viðeigandi ramma og tengdar við nýja hugtakanotkun. Stefnumótunin byggir því á traustum grunni og rótgrónum gildum sem höfðu lengi verið leiðarljós starfseminnar.

„Við vorum í raun að vinna eftir ákveðinni stefnu og vorum að gera alla þessa hluti, en með því að tengja nýja hugtakanotkun inn í þetta, náum við að setja þetta fram á skýran hátt á formi yfirlýstrar stefnu. Við höfum í raun alltaf staðið fyrir að koma vel fram, hlíta öllum lögum og reglugerðum og vera ábyrgt fyrirtæki“, segir Jón Gestur.

Smelltu hér til að lesa meira

Samstaða um sjálfbæra ferðaþjónustu

Markaðsstofa Norðurlands hefur síðan 2022 unnið að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að hvetja til aukinnar vitundar um sjálfbærni í ferðaþjónustu. Í kjölfar greiningarvinnu sem unnin var með aðkomu Kontiki ráðgjafafyrirtækisins (sjá samantekt hér) var ákveðið að leggja höfuðáherslu á samfélags- og hagræna þætti í áframhaldandi umræðu um viðfangsefnið. Dregnar voru út tvær megináherslur:

1) Aukinn hagur heimamanna (benefits local communities)

2) Auknar heilsárstekjur (increases local creation, all year round).

Mörg ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi hafa tileinkað sér gildi sjálfbærar þróunar. Þau eiga það sameiginlegt að hafa innleitt áherslur og/eða verkefni sem eru til þess fallin að efla sjálfbærni, m.a. með bættan hag nærsamfélagsins að leiðarljósi. MN hefur nú tekið saman frásagnir af starfi nokkurra þessara fyrirtækja. Tilgangur þessa er m.a. að auka vitund forsvarsaðila annarra ferðaþjónustufyrirtækja um sjálfbærni og hvetja þá til góðra verka.

Efnið sem birtist hér er tekið saman með stuðningi úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra.