Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinna við aðgerðaáætlun ferðaþjónustunnar hafin

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN, verður formaður eins starfshóps af sjö sem falið er að vinna tillögur að aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra hefur skipað sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar um á vorþingi 2024.

„Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag. Ég hef miklar væntingar til vinnu starfshópanna enda höfum við fengið til liðs við okkur fjölbreytt og öflugt fólk með víðtæka þekkingu og reynslu hvert á sínu sviði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra.

Hóparnir eru:

  1. Sjálfbærni og orkuskipti.
    Formaður: Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.
  2. Samkeppnishæfni og verðmætasköpun.
    Formaður: Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.
  3. Rannsóknir og nýsköpun.
    Formaður: Már Másson, framkvæmdastjóri Fossfall ráðgjafar.
  4. Uppbygging áfangastaða.
    Formaður: Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
  5. Hæfni og gæði.
    Formaður: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands.
  6. Heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónusta.
    Formaður: Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs-, og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins.
  7. Menningartengd ferðaþjónusta.
    Formaður: Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Hver starfshópur er skipaður sjö til níu sérfróðum aðilum, auk formanns. Miðað er við að hóparnir hafi víðtækt samráð við ferðaþjónustuna og aðra haghafa og skili fyrstu drögum að aðgerðum fyrir 1. október 2023. Þær tillögur fara í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Hóparnir skila lokatillögum til stýrihóps fyrir 15. desember 2023 sem samræmir aðgerðir í heildstæða aðgerðaáætlun og skilar til ráðherra.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu mikill kraftur hefur verið settur í undirbúning fyrir vinnu við aðgerðaáætlun nýrrar ferðamálastefnu. Ég hef fengið það hlutverk að leiða vinnu hóps um uppbyggingu áfangastaða þar sem áherslan verður meðal annars á áfangastaðaáætlanir, framkvæmdasjóð ferðamannastaða, samgöngumál, öryggi og aðgengi. Þetta verkefni er mjög brýnt og af mörgu að taka. Okkar áhersla verður á forgangsröðun aðgerða í góðu samtali við ferðaþjónustuna um allt land. Ég hlakka til að skila af okkur markvissum tillögum í haust og ekki síður þess að vinna með ferðaþjónustunni að okkar framtíðarsýn,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og formaður starfshóps um uppbyggingu áfangastaða.

Öll eru hvött til að hafa samband við Markaðsstofu Norðurlands um málefni sem tengjast þessari vinnu.

Smelltu hér til að lesa alla fréttina um um aðgerðaáætlunina á vef Stjórnarráðsins.