Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Akureyri

Akureyri

Verkefni 1: Útivist allt árið – Hlíðarfjall

Styrkja Hlíðarfjall sem heilsársútivistarsvæði og nýta betur þá innviði sem eru til staðar. Hlíðarfjall er mest þekkt sem skíðasvæði en hefur á síðari árum einnig orðið vinsæll vettvangur fyrir fjallahjól, fjallaskíði og gönguferðir. Byggðar hafa verið fjölbreyttar hjólaleiðir á svæðinu og skíðalyfturnar hafa verið opnar á sumrin (júlí til byrjun september) frá 2018. Svæðið er íþróttavettvangur sem þróast hefur í að vera vinsælt útivistarsvæði.

Verkefni 2: Í faðmi hárra fjalla og jökla – Glerárdalur

Glerárdalur er fólkvangur í nágrenni við þéttbýli og því stutt í góða innviði. Svæðið tengist öðrum vinsælum útivistarperlum eins og Hlíðarfjalli, bæjarfjallinu Súlum, Kjarnaskógi og Naustaborgum. Á svæðinu er líka eitt dýpsta og hrikalegasta árgljúfur í Eyjafirði, Glerárgil. Með tilkomu nýrrar vatnsvirkjunar sem tekin var í notkun árið 2019 hefur aðgengi að sjálfum dalnum batnað mikið en þá var byggður göngu- og hjólastígur vestan megin í dalnum sem nefndur er Fallorkustígurinn. Sá stígur liggur frá virkjuninni við Hlíðarfjallsveg og upp að stíflunni við minni dalsins. Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða hefur undanfarin ár styrkt verkefni sem lítur að uppbyggingu göngu- og hjólastígs austan megin í dalnum inn að Lambánni og gerð nýrrar brúar yfir Lambánna en gamla brúin fór í leysingum fyrir nokkrum árum. Stígarnir austan og vestanmegin tengjast á nokkrum stöðum m.a. við stífluna inn í dalnum. Frá Lambánni eru um 3.4 km inn að Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar. Bæta aðgengi um dalinn með stígagerð, merkingum og fræðslu, hanna og byggja upp áfangastaði á svæðinu til að gera svæðið áhugaverðara, draga fleiri gesti á svæðið og hvetja til útivistar.

Verkefni 3: Pollurinn við hjarta bæjarins

Með tilkomu Strandstígsins meðfram Pollinum á Akureyri er mannlíf aftur orðið sýnilegt meðfram sjónum. Fjöldi heimamanna og gesta ganga/hlaupa/hjóla stíginn á degi hverjum, þar er siglingaklúbburinn Nökkvi með aðstöðu og í nágrenni hans leggja öll skemmtiferðaskipin sem koma til Akureyrar að og því mikið um ferðamenn á stígnum. Tækifærin sem liggja í Pollinum og nágrenni hans eru þó margfalt fleiri og er það markmið þessa verkefnis að þróa og byggja enn frekar við umhverfi Pollsins og laða þannig enn fleiri og fjölbreyttari markhópa. Verkefnið styrkir Akureyri sem áfangastað, bætir öryggi gesta og heimafólks, eykur fjölbreytni afþreyingar og styður við lýðheilsu, gerir aðkomuna að bænum meiri aðlaðandi og líflegri og styrkir menningarsögu bæjarins. Verkefnið getur þar að auki glætt íþrótta- og tómstundastarf bæjarins, t.d. starfsemi siglingarklúbbsins og áhugafólks um flotbretti, sjósund o.fl. sem aftur hefur jákvæð áhrif á atvinnustarfsemi eins og hvalaskoðun, skemmtiferðaskip o.fl. sem nýta sér svæðið. Markmiðið er skapa grunn fyrir enn fjölbreyttari afþreyingu fyrir ferðamenn í öruggu umhverfi með því að gera svæðið aðlaðandi og skemmtilegt. Verkefnið styrkir þar að auki menningar- og safnastarf í innbænum með því að leiða fólk í þá átt, dreifir ferðamönnum betur um bæinn en þegar mörg skemmtiferðaskip eru í höfn er mikilvægt að hægt sé að búa til fleiri áningarstaði innan bæjarins svo álag á íbúa og innviði verði dreifðara en það er í dag. Gamla Höefner-svæðið þar sem siglingaklúbburinn hafði aðstöðu áður er nú orðið autt og þarf að fara í endurskipulagningu og hönnunarvinnu til að finna því nýtt hlutverk. Hér var einnig miðpunktur athafnalífs hér á árum áður, með bryggjunum Höfners- og Tuliniusarbryggja, bátum, síldarsöltun, verslunum o.fl. Svæðið er við aðal innkomu bæjarins og er verkefnið því líklegt til að vekja athygli þeirra sem leið eiga um þjóðveg 1 og mögulega fá fólk til að staldra frekar við, njóta útivistar eða afþreyingar.

Verkefni 4: Veisluborð Hríseyjar – Þróun útivistarmöguleika

Flestir ferðamenn sem heimsækja Hrísey sækja í útivist. Flestir fara í gönguferð en nú síðari ár er vaxandi hópur hjólreiðamanna sem koma til eyjarinnar. Mikilvægt er að bæta aðgengi og merkingar, gera stígana aðgengilega bæði fyrir hjólandi og gangandi og þróa áningarstaði meðfram þeim. Alls eru skilgreindar 4 gönguleiðir í eyjunni. Unnið hefur verið að uppbyggingu gönguleiðanna og Háborðinu undanfarin ár en enn eru eftir ókláraðar leiðir og eftir að huga að uppbygging áningarstaða meðfram þeim.

Verkefni 5: Grímsey - söguslóð

Auka aðdráttarafl gönguleiða í Grímsey með því að þróa og byggja upp áningarstaði meðfram helstu leiðarinnar þ.e. frá vitanum sunnan megin á eyjunni og norður að Básavík. Bæta þannig innviði fyrir heimafólk og gesti með skjólveggjum, bekkjum, upplýsingaskilti og listaverkum og öðru. Draga fram sérstöðu eyjarinnar í eyjarinnar með því að nota rekavið, grjót og annað sem tengist fuglalífinu, sjósókn og menningu.