Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fjallabyggð

Fjallabyggð

Verkefni 1: Brimbrettaaðstaða - Brimnestunga í Ólafsfirði

Markmiðið er að skapa aðstöðu sem ekki er til staðar við Brimnestungu í Ólafsfirði en svæðið er tilvalið til að stunda brimbretti allt árið um kring. Einnig er svæðið tilvalið til að stunda sjósund, upplifa miðnætursólina, norðurljósin, fuglalífið, eða til fjöruferða. Aðstaðan á Brimnesbökkum mun efla og styrkja Ólafsfjörð sem ferðamannastað á heilsársgrundvelli. Notendur aðstöðunnar eru íbúar Fjallabyggðar, gestir, brimbrettafólk og náttúruunnendur. Verkefnið fellur undir heildarhugmynd hvað varðar þróun og uppbyggingu ferðamannastaða í Ólafsfirði en fjaran við Brimnes er vinsæl til útivistar. Ólafsfjörður er á Norðurstrandarleið sem áhugaverður áfangastaður. Á bökkunum verður reist aðstöðuhús með salerni, sturtu og búningsaðstöðu. Frá aðstöðuhúsi meðfram bökkunum og niður í rekabása (sem er grjótfjaran neðan við svæðið ) verður lagður göngustígur. Einnig verður gert bílastæði. Verkefnið er unnið með það fyrir augum að fara í frekari framkvæmdir á svæðinu á næstu árum en áform eru uppi um að ráðast í lagfæringar á aðkomu og aðstöðu í sjávarmáli með heitum og köldum potti. Fjallabyggð hefur samþykkt að fara í verkefnið og hefur lokið við deiliskipulagsuppdrátt.

Verkefni 2: Fuglaskoðunarhús í Fjallabyggð

Fjallabyggð er aðili að sameiginlegri umsókn um styrk í Uppbyggingasjóði Norðurlands eystra (SSNE) vegna hönnunar fuglaskoðunarhúsa á Eyjafjarðarsvæðinu. Styrkur fékkst úr sjóðnum í verkefnið. Samstarfsaðilar verkefnisins á Eyjafjarðarsvæðinu eru ásamt Fjallabyggð, Akureyrarbær og Hörgársveit. Markmið fuglaskoðunarhúsanna er að skapa aðstöðu fyrir áhugafólk til að fylgjast með og mynda það fjölbreytta fuglalíf sem getur verið bæði á tjörnunum og í fjörunni. Fjallabyggð er á Norðurstrandarleið sem áhugaverður áfangastaður. Vinna er þegar komin á fullt. Heimsókn arkitektanna frá Noregi gekk vel í sumar og tillögur að skýlum klárar. Með verkefninu verður ferðamennska í tengslum við fuglaskoðun á Norðurlandi styrkt. Á undanförnum árum hafa nokkur fuglaskoðunarskýli risið á Norðurlandi og hefur það þegar skilað auknum áhuga á þessari tegund ferðamennsku, sem er mjög vaxandi á landsvísu. Með hönnun og á síðari stigum byggingu þessara skýla á Eyjafjarðarsvæðinu er markmiðið að skapa sterkari heildar upplifun ferðamanna í fuglaferðamennsku á Norðurlandi og laða fleiri á svæðið, án þess að ganga á náttúruna.

Verkefni 3: Uppbygging útsýnisstaðar í Ólafsfjarðarmúla

Í Múla er að finna stórkostlegan stað fyrir miðnætursól að sumri og norðurljós að vetri vegna lítillar ljósmengunar. Þessi staður þarf mikla upplyftingu en gæti orðið vinsælasti staðurinn fyrir þessa sýn.

Verkefni 4: Útivistarskáli í Skarðsdal á Siglufirði

Skíðasvæðið í Skarðsdal er sannkölluð skíðaparadís og miðstöð vetraríþrótta, ásamt því að þjóna ýmiskonar útivist og náttúruupplifun allt árið um kring s.s. merktum gönguleiðum, utanvegahlaupaleiðum, hjólabrautum o.fl. Uppbygging skíðasvæðisins í Skarðsdal einkennist af miklum metnaði og eykur samkeppnishæfni Fjallabyggðar. Nú standa yfir miklar breytingar á skíðasvæði Fjallabyggðar í Skarðdal. Hluti af framkvæmdinni er færsla á lyftum og bygging á nýjum heilsárs útisvistarskála. Nýjum útisvistarskála er ætlað að stórbæta öryggi og aðgengi fólks óháð aldri, hreyfigetu, styrk og jafnvægi í fjölbreyttum íþróttagreinum. Skíðaiðkun og vetrarferðaþjónusta mun njóta góðs af bættri aðstöðu en einnig útivist almennt á öðrum árstíðum, s.s. gönguferðir og hjólreiðar. Útivistarskálinn mun geta þjónað hlutverki miðpunkts leiðakerfis merktra göngu-, skíða- og hjólaleiða og með staðsetningu sinni stuðla að auknu öryggi og bættri upplifun ferðamanna.

Verkefni 5: Hafnarsvæðið í Ólafsfirði - spennandi viðkomustaður

Stefna á að gera hafnarsvæðið á Ólafsfirði aðlaðandi fyrir ferðafólk. Á svæðinu er Styrjueldi og vilji forsvarsmanna þess er að gera fyrirtækið aðgengilegra almenningi í samstarfi við Fjallabyggð. Á svæðinu eru ferða- og afþreyingaraðilar að bjóða upp á m.a. sæþotur. Mikið er af ónýttu húsnæði sem áhugavert væri að nýta sem fjölnota húsnæði fyrir ferðaþjónustu, listamenn o.fl. Ætlunin er að gera hafnarsvæðið á Ólafsfirði að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn, Ólafsfjörður er hluti af Norðurstrandarleið. Hanna fjarvinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma.