Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Húnabyggð

Húnabyggð

Verkefni 1: Húnaver miðstöð fjölbreyttrar útivistar

Húnaver er ákaflega vel staðsett með tilliti til áhugaverðra göngu-, reið- og hjólaleiða til allra átta. Það er á mótum Langadals og Svartárdals og tengist Laxárdal um Þverárdal. Þaðan er stutt inn á hálendi með Hveravelli í 90km fjarlægð, Áfanga í 50km og Galtarárskála í 40km fjarlægð. Fyrsti kerruvegur yfir Vatnsskarð er nokkuð heillegur á köflum austan við Húnaver, hann var lagður á árunum 1907-1917 . Eyðidalurinn Laxárdalur er samsíða Langadal og upp í hann ganga stuttir dalir um skörð í Langadalsfjalli. Í Laxárdal er sagan við hvert fótmál og enn má sjá þar rústir fjölmargra torfbæja en þar voru um 20 torfbæir í byggð fram eftir 20. öld. Dalurinn er grösugur á sumrin en snjóþungur á veturna. Verkefni snýst um að bæta aðgengi og öryggi ferðafólks sem kýs að stunda útivist á fáförnum slóðum sem eru þó í alfaraleið. Merkja þarf betur gönguleiðir, uppfæra göngukort, brúa vatnsföll, gera hjólakort, skrásetja sögu eyðibýla og gera aðgengilega fyrir ferðamenn.

Verkefni 2: Gönguleiðir á Blönduósi

Blönduós er mikilvægur áningastaður á Norðurstrandaleið og fyrir þá ferðamenn sem vilja njóta náttúru eru áhugaverðar gönguleiðir meðfram sjónum bæði norðan og sunnan Blöndu. Með verkefni verður aðgengi og öryggi ferðafólks að gönguleiðum á Blönduósi bætt. 1) Náttúrperlan Bolabás er norðan við höfnina á Blönduósi. Þangað liggur hnitsett leið sem er fjölsótt en illfær sérstaklega í bleytu og frosti og auðvelt að renna til og misstíga sig. Á þessari leið er mikil náttúrfegurð og fjölbreytt fuglalíf auk selláturs. 2) Fjaran undir brekkunni sunnan við Blöndu er mjög grýtt en laðar að sér ferðamenn í öllum veðrum og er mjög vinsæl en illfær á köflum. Þaðan sjást oft smáhveli.

Verkefni 3: Vatnsdalur og Þing - Þjónustuhús

Vel hefur tekist með uppbyggingu áfangastaða í Vatnsdal og á Þrístöpum. Ákveðið hefur verið að skilgreina allt svæðið frá Þrístöpum út að Þingeyrarsandi og fram allan Vatnsdal sem eitt svæði þar sem saman fléttast saga og náttúrufegurð. Frá árinu 2011 hefur verið vinna í gangi við að sauma Vatnsdælu sögu í refil og hann verður líklega tilbúinn til sýnis árið 2025 og þá þarf að finna honum húsnæði en höfundur óskar eftir að hann verði til sýnis á þessu svæði. Því er ætlunin að hanna þjónustuhús á svæðinu þar sem hægt er að taka á móti ferðafólki og veita lágmarksþjónustu en aðalmarkmið húss er að sýna Vatnsdælurefil.

Verkefni 4: Klifamýri og Blöndubyggð

Klifamýri og Blöndubyggð er gamalt svæði smábýla og sjálfþurftarbyggðar austan við gamla bæinn á Blönduósi. Á þessu svæði eru einstakar aðstæður á landsvísu til að byggja upp áningarstað þar sem hægt er að ganga í nokkurs konar stigul frá sjálfsþurftarbyggð inn í þéttbýlis og þjónustu kjarna. Markmið verkefnisins er að styrkja götumynd Blöndubyggðar sem megin götu í fyrrum sjálfþurftabyggð, götu sem sýnir tengingu milli þéttbýlis og „sveitar“. Byggja upp síðasta grasbýlið, Ólafsbyggð og koma því í sem upprunalegasta formið. Opna þar safn sem sýnir meðal annars íslensk húsdýr og horfna starfshætti til sveita. Uppræta illgresisvöxt í túnum Klifamýrar og rækta upp gras og heyja þar á sumrin með gamla laginu.

Verkefni 5: Gamli bærinn - Verndarsvæði í byggð

Gamli bærinn á Blönduósi hefur þá sérstöðu, að hann geymir tiltölulega lítt raskað svipmót þéttbýlisheildar, sem þróaðist á mörgum áratugum og hélt velli fram yfir seinna stríð sem sjálfbært kauptún og þýðingarmikil þjónustu- og verslunarmiðstöð í héraði. Á síðustu árum hafa mörg gömlu húsana verið gerð upp í upprunalegum stíl og ferðamenn una sér vel við göngur um þetta fallega og sögulega svæði. Markmið verkefnis er að gera sögu svæðisins og elstu húsanna aðgengilegt fyrir ferðamenn því sögur eru virðisaukandi fyrir ferðamenn. Svæðið er í ferli til að verða verndarsvæði í byggð og hefur verið gerð ítarleg úttekt á sögu allra húsa í gamla bænum en frásagnir frá elstu íbúum svæðisins hafa ekki verið skrásettar. Með þrívíddarmódeli, sýndarveruleika (VR) og viðbættum veruleika (AR) verður menningar- og byggðasögu okkar á 19. og 20. öld gerð góð skil og áhugaverður áningastaður byggður upp.

Verkefni 6: Göngubrú við ósa Blöndu

Ætlunin er að tengja saman vinsæla áningastaði á Blönduósi með göngubrú yfir ósa Blöndu og gera skemmtilega hringleið. Með brúnni verður til glæsilegur útsýnispallur fyrir hið ógleymanlega sólarlag í Húnaflóa á sumrin og norðurljósadýrð á veturna.