Húnaþing Vestra
Verkefni 1: Uppbygging áfangastaða á Vatnsnesi
Markmiðið er að mæta sífellt auknum áhuga ferðafólks á Vatnsnesi. Framkvæmdir við veginn fyrir Vatnsnes eru á samgönguáætlun næstu ára. Vegurinn er jafnframt hluti af Norðurstrandarleið. Því má búast við aukinni umferð á komandi árum. Áherslan er því sett á að byggja upp áningarstaði á nesinu í samstarfi við landeigendur. Um er að ræða staði sem tengjast sögu, menningu og náttúruupplifun s.s. sela- og fuglaskoðun og eru þegar farnir að draga að sér gesti þó ekki hafi verið ráðist í uppbyggingu þar. Er því um að ræða mikilvægt verkefni til að koma í veg fyrir náttúruspjöll og jafnframt til að gæta öryggis ferðamanna. Mikilvægt er að geta einnig byggt upp góða staði til náttúruskoðunar, sem ekki sæta lokunum yfir hluta sumarsins vegna varptíma líkt og nú er.
Verkefni 2: Borðeyri
Unnið verði að útfærslu og þróun Borðeyrar sem áfangastaðar í kjölfar skilgreiningar „verndarsvæðis í byggð“ , þar sem unnið verði með þá möguleika, sem saga og forn húsakostur bjóða upp á, auk þess að möguleikar til náttúruskoðunar og sögutengds viðburðahalds verði efldir.
Verkefni 3: Stígakerfi - Laugarbakki, Hvammstangi, Kirkjuhvammur
Markmið verkefnisins er samtenging þéttbýlisstaðanna á Laugarbakka og Hvammstanga við útivistarsvæði í Kirkjuhvammi ofan Hvammstanga með göngu- og hjólastígum. Verður svæðið þá líklegra til að laða til sín ferðamenn sem staldra lengur við og njóta náttúru sveitarfélagsins. Um öryggismál er að ræða þar sem fólk gengur/hleypur og hjólar á umferðarmiklum akbrautum í dag. Mikill fjöldi ferðamanna dvelur á Hótelinu á Laugarbakka og skortir tengingar þaðan við Hvammstanga. Stígakerfið mun liggja frá Laugarbakka að Hvammstanga og tengja saman þjónustukjarna sunnan megin í bænum við hafnarsvæðið þar sem eru verslanir, veitingastaðir og Selasetrið. Þaðan verður tenging við útivistarsvæðið í Kirkjuhvammi styrkt en þar er tjaldsvæði að finna. Með þessu er svæðið styrkt sem upphafspunktur Norðurstrandarleiðar. Jafnframt verður skoðuð uppbygging grunnþjónustu (WC) e.t.v. í samvinnu við Selasetrið og gönguleiða meðfram ströndinni til norðurs, þaðan sem sem oft má sjá seli og jafnvel hvali.
Verkefni 4: Kolugljúfur
Kolugljúfur með sínum tilkomumiklu fossum er fyrir löngu orðið eitt af kennileitum svæðisins og sennilega einn fjölfarnasti áningastaður ferðafólks í sveitarfélaginu sunnan hringvegar. Staðurinn er farinn að sýna merki átroðnings og skemmdir eru orðnar á náttúru. Um mikið öryggismál er að ræða vegna aðstæðna við gljúfrin og mikillar fallhættu víða á svæðinu. Mikilvægt er að ljúka uppbyggingu og frágangi á svæðinu til að mæta aukinni umferð og bæta öryggi. Deiliskipulag liggur fyrir.
Verkefni 5: Reykir í Hrútafirði
Stefnt er að því að efla svæðið á Reykjum í Hrútafirði sem áfangastað. Annars vegar svæðið við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, sem um leið er fuglaskoðunarstaður og hins vegar við náttúrulaug norðan megin við skólabyggingar. Með því fær svæðið viðameira hlutverk fyrir ferðafólk á heilsárs grundvelli. Samhliða þessu má hugsa sér að gera meira úr þeim minjum, sem tengjast veru breska setuliðsins á svæðinu og byggja upp frekari þjónustu á tanganum.