Fara í efni
Skagafjörður

Skagafjörður

Verkefni 1: Staðarbjargavík

Bætt aðgengi að Staðarbjargavík á Hofsósi, með það í fyrirrúmi að vernda svæðið og tryggja öryggi ferðamanna á svæðinu. Staðarbjargavík er fjölsóttur ferðamannastaður á Norðurstrandarleiðinni, staðsett við sundlaugina á Hofsósi. Svæðið er orðið hættulegt þar sem stigi er laus sem liggur niður í víkina ásamt því að gróður er skemmdur vegna átroðnings ferðamanna og orðið að moldarsvaði.

Verkefni 2: Austurdalur

Vinna við uppbyggingu áfangastaðarins. Verkefnið felst m.a. í bættu öryggi við flutningskláf yfir Eystri-Jökulsá á Skatastöðum, bílastæði, göngustíg, upplýsingaskiltum og áningarstað.

Verkefni 3: Hólar í Hjaltadal

Verkefnið snýst um uppbyggingu Hóla sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Bæta þarf aðgengi að áhugaverðum stöðum með öryggi ferðamanna og verndun náttúru og minja í huga. Hanna þarf söguhring með leiðsögn. Byggja þarf upp gönguleiðir eins og t.d. upp í Gvendarskál og um Hólaskóg. Áætlað er að byggja upp betri og stærri bílastæði og aðstöðuhús með öryggi ferðamanna í huga sem og verndun landsvæðisins.

Verkefni 4: Kakalaskáli

Sviðsetning Hauganesbardaga, eða Grjótherinn, er stutt frá Kakalaskála, nánar tiltekið á eyrum fyrir neðan og stendur um 250 metra frá nýlegu bílaplani við Djúpadalsveg. Enginn stígur liggur að listaverkinu, en leiðin frá bílaplaninu og að verkinu er merkt með vörðum og gengur fólk þar yfir eyrarnar á talsvert stóru svæði. Til stendur að gera góðan stíg frá bílaplaninu að verkinu til að vernda náttúru svæðisins og stuðla að öryggi ferðamanna því eyrarnar eru grýttar og talsvert erfiðar yfirferðar.

Verkefni 5: Byggðasafnið í Glaumbæ

Bætt aðkoma að Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Bílastæði og aðstöðuhús verða bætt með öryggi ferðamanna í huga sem og verndun landsvæðisins.

Verkefni 6: Tindastóll

Bæta göngustíga og aðgengi ferðamanna að fjallinu. Stikun og framkvæmd hjóla- og gönguleiða í námunda við Skíðasvæði Tindastóls. Um er að ræða þekktar en villugjarnar gönguleiðir þar sem nauðsynlegt er að bæta öryggi og aðgengi og gera auðveldari yfirferðar. Uppbygging hjólabrautar á skíðasvæði Tindastóls þar sem lyftur verða notaðar til að draga hjól upp. Vel merktar hjólaslóðir verða um fjallið.