Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

„Beint millilandaflug til Akureyrar, myndi velta steininum fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi“

„Beint millilandaflug til Akureyrar, myndi velta steininum held ég fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og vonandi er þetta bara upphafið að einhverju meira þar. Það er gríðarlega langt til Keflavíkur, þó að okkur sem búum fyrir norðan finnist það kannski ekki þegar við erum að fara til útlanda. Fyrir fólk sem ætlar að stoppa stutt á Íslandi, þá er alveg drjúglangt að fara norður í land,“ segir Fjóla Viktorsdóttir, meðeigandi ferðaþjónustunnar á Syðra-Skörðugili í nýjasta myndbandinu í seríunni Okkar Auðlind.

„Beint millilandaflug til Akureyrar, myndi velta steininum held ég fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og vonandi er þetta bara upphafið að einhverju meira þar. Það er gríðarlega langt til Keflavíkur, þó að okkur sem búum fyrir norðan finnist það kannski ekki þegar við erum að fara til útlanda. Fyrir fólk sem ætlar að stoppa stutt á Íslandi, þá er alveg drjúglangt að fara norður í land,“ segir Fjóla Viktorsdóttir, meðeigandi ferðaþjónustunnar á Syðra-Skörðugili í nýjasta myndbandinu í seríunni Okkar Auðlind.

„Þannig að, ég held að ef það kæmi meira í framtíðinni af millilandaflugi þá erum við fyrst og fremst að fá meiri eftirspurn eftir okkar þjónustu og þar af leiðandi myndi það gera gæfumuninn í okkar rekstri ef eftirspurnin væri meiri. Sérstaklega ef hún væri yfir 12 mánuði ársins. Það er erfitt að vera í vinnu sem er bara fjóra mánuði á ári,“ segir Fjóla, spurð um áhrifin sem aukið millilandaflug um Akureyrarflugvöll myndi hafa á hennar fyrirtæki og norðlenska ferðaþjónustu almennt.

 

Ekki þarf að koma á óvart að Fjóla, sem rekur hestaleigu, mælir með því að ferðamenn sem komi á hennar nærsvæði kynnist hestamennsku.

„Ferðamaður sem kemur í Skagafjörð má alls ekki missa af kynnum við íslenska hestinn, myndi ég segja að væri númer eitt.  Svo númer tvö, er náttúruna. Við höfum bæði mikið af fossum, við höfum mikið af fjöllum sem er gaman að fara á og skoða. Það er mikil kyrrð, myndi ég segja. Það er hægt að fara á staði í Skagafirði þar sem er enginn. Marga staði upp til fjalla en ekki erfiðar fjallgöngur. Hér er mikið af vötnum og fossum og bara mikil náttúra sem fólk má alls ekki missa af. Kyrrð, náttúra og íslenski hesturinn,“ segir Fjóla.

Syðra-Skörðugil er rekið af fjölskyldu sem er á kafi í hestamennsku og hefur unnið til ýmissa verðlauna í þeirri íþrótt. Ferðaþjónusta hefur verið aukaverkefni sem hefur stækkað og stækkað með árunum.

„Upphaflega hugmyndin hjá okkur hjónum var að fjármagna endurbyggingu á húsnæði sem við þurftum annaðhvort að laga eða rífa. Við erum búin að vera kannski síðustu 20-25 árin með smá hestatengda þjónustu, höfum verið að fá vini, vandamenn og gesti í hestaferðir í gegnum árin. Smám saman hefur það verið að vinda upp á sig, má segja það. Svo bara gerðist þetta einhvern veginn.“

Ein af áherslum norðlenskrar ferðaþjónustu og Markaðsstofu Norðurlands hefur verið að stulða að aukinni vetrarferðamennsku og minnka árstíðarsveiflu. Fjóla segir að það séu ýmis tækifæri til að efla vetrarferðaþjónustu.

„Já, ég myndi segja að það séu alltaf tækifæri allstaðar, hjá öllum, til að efla sína þjónustu. Við þurfum fyrst og fremst að vera tilbúin til þess að leggja svolítið á okkur til þess. Ég held kannski að, tækifærin snúist fyrst og fremst um hvað við erum tilbúin til að láta okkur detta í hug, hvað er í boði og hvað við viljum bjóða upp á. Það þarf ekkert að vera eitthvað stórt og mikið, það þarf ekkert að vera einhverjir flugeldar.  Til dæmis að hafa meira í boði allt árið, söfnin opin, hafa veitingastaði opna, hafa afþreyingu til staðar sem hægt er að hafa til staðar líka á veturna. Það er kannski ekki hægt að fara út í Drangey eða á aðra staði að vetri til, en það er hægt að fara á skíði í Tindastól að vetri sem er ekki hægt að gera að sumri til. Það er hægt að fara á hestbak allt árið, gönguferðir eru allt árið og það er ýmislegt hægt að skoða,“ segir Fjóla.