Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Eingáttastefna stjórnvalda skaðar Ísland Millilandaflug um aðra flugvelli landsins

Eftirfarandi yfirlýsing var að fara á fjölmiðla frá 10 hagsmunasamtökum á landsbyggðinni, frá vestfjörðum til austfjarða: Eingáttastefna stjórnvalda skaðar Ísland Millilandaflug um aðra flugvelli landsins
Flugklasinn Air 66N
Flugklasinn Air 66N

Eftirfarandi yfirlýsing var að fara á fjölmiðla frá 10 hagsmunasamtökum á landsbyggðinni, frá vestfjörðum til austfjarða:

Eingáttastefna stjórnvalda skaðar Ísland
Millilandaflug um aðra flugvelli landsins

Fjölgun ferðamanna og álag á ferðamannastaði á sunnanverðu landinu sem og á Keflavíkurflugvöll hefur náð þolmörkum. Um þetta eru flestir sammála og því er brýnt að leita lausna til framtíðar. Landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög og markaðsstofur á Norður- og Austurlandi sem og á Vestfjörðum hafa tekið höndum saman við að berjast fyrir annarri gátt inn í landið.

Nú þegar stefnt er að allt að 15 milljarða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli virðist ljóst að stefna stjórnvalda sé að byggja þar upp einu millilandagátt landsins. Þetta skýtur skökku við þegar litið er til þróunar undangenginna ára og þeirra krafna sem heyrast í auknum mæli frá erlendum ferðaþjónustuaðilum um aukna fjölbreytni og valkosti í ferðum til Íslands. 

Þetta er enn fremur athyglisvert í ljósi yfirlýsinga um nauðsyn þess að dreifa stórauknum ferðamannastraumi um landið, sbr. ferðamálaáætlun, byggðaáætlun 2014 – 2017 og skýrslu Boston Consulting Group sem var m.a. unnin fyrir Isavia.

Stjórnvöld verða að búa varaflugvelli Keflavíkur á Akureyri og Egilsstöðum þannig úr garði að þeir uppfylli kröfur um þjónustustig vegna aukinnar umferðar, auk þess sem öryggi sjúklinga á stórum svæðum er stefnt í uppnám vegna skorts á viðhaldi flugvallarmannvirkja, eins og nýlegt dæmi frá Alexandersflugvelli sannar. Brýnt er að ríkið (Isavia) tryggi nauðsynlegt fjármagn til þessara framkvæmda og móti sér framtíðarstefnu um millilandaflugvelli. Þeir aðilar sem að þessari ályktun standa eru tilbúnir að taka þátt í þeirri nauðsynlegu stefnumörkun sem þarf að eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síst hvað varðar aðrar fluggáttir inn í landið.

Leiða má að því líkum að með því að hafa Keflavíkurflugvöll í forgrunni sem gátt fyrir millilandaflug séu stjórnvöld að stuðla að byggðaröskun. Þannig er flutningur starfa af landsbyggðinni, m.a. í fiskvinnslu, bein afleiðing þessa en birtist jafnframt í lakri nýtingu fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu um land allt umfram 100 km akstursvegalengdar frá höfuðborgarsvæði.

Stjórnvöld stýra því hvernig þessi uppbygging á sér stað. Stjórnvöldum er í lófa lagið að beina aukinni ásókn erlendra flugrekenda í aðrar áttir en til Keflavíkur og þannig auðvelda dreifingu ferðamanna um landið. Á sama tíma myndu þau stuðla að bættum samgöngum við umheiminn frá landinu öllu.

Undirrituð skora hér með á stjórnvöld að beita sér tafarlaust fyrir breyttri stefnu hvað millilandaflug um Ísland varðar og opna þegar í stað aðra gátt inn í landið.

Austurbrú
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar 
Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga
Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða
Samtök Sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra
Samband sveitarfélaga á Austurlandi
Markaðsstofa Vestfjarða
Markaðsstofa Norðurlands
Eyþing
Fjórðungssamband Vestfirðinga