Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fyrsta flugvél Edelweiss lenti í miðnætursól á Akureyri

Rétt fyrir miðnætti á föstudaginn síðasta, 7. júlí, lenti fyrsta flugvélin frá svissneska flugfélaginu Edelweiss á Akureyri.

Rétt fyrir miðnætti á föstudaginn síðasta, 7. júlí, lenti fyrsta flugvélin frá svissneska flugfélaginu Edelweiss á Akureyri. Vélin kom frá Zurich í Sviss, en flugfélagið býður upp á sjö áætlunarflug í sumar. Óhætt er að segja að Norðurland hafi skartað sínu fegursta þegar vélin kom inn til lendingar, miðnætursólin skein og Pollurinn á Akureyri var nánast spegilsléttur. 

Isavia tók vel á móti farþegum og bauð upp á veitingar frá Flugkaffi, íslenskar pönnukökur og kaffi. Áður hafði slökkvilið flugvallarins sprautað vatni yfir vélina með hátíðarbrag, eins og tíðkast þegar vélar í nýju áætlunarflugi lenda í fyrsta sinn á vellinum. 

Edelweiss hefur lengi boðið upp á flug til Keflavíkur og nú hefur Akureyri og Norðurland allt bæst við sem áfangastaður í þeirra leiðarkerfi. Stefnt er að því að lengja flugtímabilið næsta sumar, en þegar tilkynnt var um flugið sögðust fulltrúar Edelweiss hafa mikla trú á Íslandi sem áfangastað og að tækifærin til að koma með fleiri farþegar til landsins um Akureyri væru frábær. Sérstaklega ætti það við um farþega sem vilja heimsækja landið í annað sinn og ferðast víðar.

Í vor komu blaðamenn frá Sviss, Þýskalandi og Ítalíu til landsins og ferðuðust bæði um Suðurland og Norðurland. Ferðin var unnin í samstarfi Edelweiss og þeirra almannatengslaskrifstofu, Íslandsstofu, Markaðsstofu Suðurlands og Markaðsstofu Norðurlands. Markmiðið var að leyfa þeim að upplifa hvernig það er að koma til landsins í flugi með Edelweiss bæði til Keflavíkur og Akureyrar, prófa ýmsa afþreyingu, veitingastaðir og gististaði auk þess að njóta náttúrunnar. Óhætt er að segja að ferðin hafi tekist vel og hafa fjölmargar greinar birst í fjölmiðlum þessara blaðamanna. Sérstök áhersla var lögð á að koma þeim fljótt í loftið í vor til að kynna flugferðirnar til Akureyrar.

Hægt er að bóka flug með Edelweiss í gegnum Swiss https://www.swiss.com/xx/en/homepage

Meðfylgjandi myndir tók Þórhallur Jónsson hjá Pedromyndum fyrir Isavia.