Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

„Við eigum svo mikla möguleika í vetrarferðaþjónustu“

„Beint millilandaflug til Akureyrar er risastórt mál fyrir okkur og fyrir þetta samfélag hér. Bæði fyrir vinnustaðinn minn, Jarðböðin og bara fyrir samfélagið í heild sinni.“

„Beint millilandaflug til Akureyrar er risastórt mál fyrir okkur og fyrir þetta samfélag hér. Bæði fyrir vinnustaðinn minn, Jarðböðin og bara fyrir samfélagið í heild sinni vegna þess að við eigum inni svo marga möguleika í ferðaþjónustu, sérstaklega kannski yfir vetrartímann eins og easyJet er að fljúga núna,“ segir Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir, mannauðs- og markaðsstjóri Jarðbaðanna í Mývatnssveit.

 „Við höfum þegar farið að skoða þetta, talað við gestina okkar og spyrja hvaðan þeir koma. Við sjáum gesti sem koma með easyJet og það gleður okkur virkilega mikið vegna þess að við sjáum að þetta virkar og við eigum svo mikið inni í þessu flugi,“ segir Ragnhildur.

Ekkert verra að koma í fimmtán stiga frosti

Sem fyrr segir sér hún mikla möguleika á því að þróa vetrarferðaþjónustu enn frekar í Mývatnssveit en einnig víðar.

„Við erum með allar þessar ferðir. Snjósleða, gönguskíða, snjóþrúgu, hundasleða, superjeep, og Jarðböðin. Þetta er frábær vetrarafþreying sem er vannýtt, við getum boðið svo ofboðslega mikið fyrir ferðamenn sem ferðast hingað á veturna og við sjáum það bara þegar ferðamenn koma hingað. Þeir eru alveg yfir sig ánægðir. Þeim finnst ekkert verra að koma hér í fimmtán stiga frosti, og fara í lónið, heldur en að koma hérna að sumri til í júlí. Þeim finnst það bara meira sérstakt að koma hérna á veturna - og sjá norðurljósin,“ segir Ragnhildur.

Markaðssetningu beint að svæðunum sem flogið er frá

„Við höfum verið að undirbúa okkur fyrir aukið millilandaflug í raun með aukinni markaðssetningu, á þessa markaði og landa sem við vitum að er verið að fljúga til. Við höfum séð það skila árangri, þannig að það er svona aðaláherslan sem við erum að leggja á núna. Það er þessi markaðssetning á þessi völdu svæði.“

Ragnhildur hefur starfað lengi í ferðaþjónustu og líkar það afar vel.

„Ég er í ferðaþjónustu vegna þess að ég hef haft áhuga á því frá því að ég hætti að sinna fjósaverkum heima hjá mér og fór yfir í ferðaþjónustu, þegar maður var táningur. Mér finnst það mjög skemmtilegt, mér finnst gaman að geta sýnt útlendingum fína og fallega landið okkar. Það er náttúrulega frábært að geta unnið við það sem mann langar til að vinna við, í sveitarfélaginu eða svæðinu sem manni langar að búa á,“ segir Ragnhildur.

Dimmuborgir í næturfrosti

„Ef það er ekkert samfélag á erum við ekki hér“

Samfélagið í Mývatnssveit skiptir hana miklu máli og einnig Jarðböðin, enda byggir fyrirtækið á langri sögu bað- og gufumenningar Mývetninga.

„Jarðböðin eru mjög duglega við að styrkja allskonar viðburði og félög hérna í sveitinni. Til dæmis má nefna Mývatnsmaraþon, það má nefna jólasveinana okkar í Dimmuborgum, við styrkjum íþróttafélögin á svæðinu, stórsvæðinu. Skóla, bara allskonar. Við getum farið alveg niður í bingóvinninga og allt svona, en við erum mjög samfélagslega miðuð. Við viljum styrkja og gefa af okkur til samfélagsins, því ef það er ekkert samfélag þá erum við ekki hér,“ segir Ragnhildur.