Akureyri iðar af mannlífi allan ársins hring og þar er margt um að vera. Lystigarðurinn er einstaklega skemmtilegur staður þar sem hægt er að fræðast meðal annars um huldufólkið sem býr í garðinum og skoða fjölskrúðugan gróðurinn.
Nóg er af söfnum á Akureyri og fjölbreyttum afþreyingarmöguleikum. Þar er ein vinsælasta sundlaug landsins og Kjarnaskógur er alltaf vinsæll hjá fjölskyldufólki. Mikil vinna hefur verið lögð í endurbætur í skóginum, á leiksvæðum, grillsvæðum og stígum.
Nýjasta viðbót nágrennis Akureyrar eru Skógarböðin og alltaf gott að leggjast í heit böð og láta líða úr sér.
Í bænum eru fjölmargir möguleikar á gistingu, allt frá hótelum til tjaldsvæða. Það sama gildir um veitingastaði þar sem öll geta fundið eitthvað sem þeim líst vel á.